Umbætur ákveðnar á Hringbraut

Séð austur Hringbraut. Vesturbæjarskóli er í bakgrunni.

Ýmsar umbætur á umferð um Hringbraut voru samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs fyrir skömmu. Lækka hámarkshraða á Hringbraut, milli Sæmundargötu og Ánanausta niður í 40 km/klst. Miklar umræður hafa verið meðal Vesturbæinga síðustu vikur um hámarkshraða á götunni eftir að ekið var á unga stúlku á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla. 

Samþykkt var á fundinum að fara í fleiri úrbætur og framkvæmdir í samstarfi við Vegagerðina sem er veghaldari Hringbrautar. Meðal þeirra er að bæta lýsingu við gönguþverunum á Hringbraut á þessum kafla og setja upp hraðavaraskilti og kassa á völdum stöðum fyrir löggæslumyndavélar. Þá á að hefja undirbúning þess að endurnýja allan búnað fyrir umferðarljósastýringar á Hringbraut á þessum kafla með það að markmiði að heildarendurnýjun ljúki á næsta ári. Einnig á að bæta gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu fyrir óvarða vegfarendur og verður forhönnun þess lokið á næstu vikum.

You may also like...