Miklar breytingar í Mið- og Vesturborginni
Miklar breytingar hafa átt sér stað á Mið- og Vesturborginni að undanförnu. Svo miklar að mörg svæði eru nær óþekkjanleg frá því sem var. Mestu breytingarnar eru í nágrenni Austurhafnarinnar og við Tryggvagötu. Á Hafnartorginu hafa risið stórar byggingar þar sem sem íbúðum og verslunarstarfsemi er blandað saman. Hverfisgata hefur verið reist úr rústum og endurbyggð að verulegu leyti. Nú er unnið að nýbyggingu við Lækjargötu og á hinum umdeilda Landsímareit. Í viðtalið hér í blaðinu ræðir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur þessa þróun.
Hún bendir m.a. á uppbyggingu sem er að hefjast á Héðinsreitnum vestast í Vesturbænum. Hún segir að Félagsbústaðir séu með forkaupsrétt að ákveðnum fjölda þeirra eins og víðar sem sé hugsað fyrir fólk sem hefur lítið á milli handa og á erfitt með að fóta sig í fasteignakaupum. Einnig er gert ráð fyrir hótelstarfsemi og atvinnuhúsnæði fyrir fleiri þjónustugreinar ekki síst verslun og veitingastarfsemi. Hún segir skipta máli fyrir þróun borgarinnar og raunar allra sveitarfélaga að allir þjóðfélagshópar geti lifað og starfað hlið við hlið og verkefnið á Héðinsreitnum sé dæmi um vegvísi inn í þá hugmyndafræði.
Hún ræðir einnig um stóru umferðaræðarnar og segir að létta þurfi mesta umferðarþunganum af þeim. Hringbrautin hafi breyst mikið. Eins og hún sé orðin í dag komi mikill hávaði og loftmengun frá henni. Hún hafi mikil áhrif á Vesturbæinn sem ekki voru séð fyrir þegar hún var lögð – og jafnvel ekki fyrir nokkrum árum. Breytingin hefur orðið svo hröð.