Líf komið í Arnarbakkann
– verslunarmiðstöðin hefur fengið nýtt hlutverk –
Gamla verslunarmiðstöðin við Arnarbakka í Breiðholti hefur fengið nýtt hlutverk. Arnarbakkinn eins og húsið er nefnt í daglegu tali var tekið í notkun með formlegum hætti eftir lagfæringar 29. nóvember sl. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti ávörpuðu gestu og boðið var upp á kaffi, kakó og með því.
Á síðasta ári festi Reykjavíkurborg kaup á fasteignum í tveimur hverfiskjörnum í Breiðholti. Annar þeirra er við Arnarbakka 2 til 6. Borgarráð samþykkti í lok síðasta árs að auglýsa eftir hugmyndum að starfsemi til bráðabirgða í því húsnæði sem væri að losna með sérstakri áherslu á samfélagsleg verkefni sem yrðu opin almenningi. Samþykkt var í borgarráði þann 7. febrúar að hefja viðræður við nokkra hópa um tímabundna leigu á þessu húsnæði til þess að húsnæðið stæði ekki autt og ónotað á meðan skipulagsvinna stendur yfir en verið er að vinna að deiliskipulagi fyrir þetta svæði.
Karlar í skúrnum og fleiri skemmtileg viðfangsefni
Í Arnarbakka 2 eru Rauði kross Íslands með verkefnið Karlar í skúrum. Verkefnið er unnið með það að markmiði að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er í fyrirrúmi. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar með SmiRey sem er smíðastofa fyrir einhverfa karla. SmíRey framleiðir leikföng fyrir börn á leikskóla aldri, einnig ýmsa skrautmuni og tækifærisgjafir. Hársnyrtistofan Arnarbakka heldur áfram með starfsemi sína. Hópur handverksmanna og trérennismiða eru nú í Arnarbakkanum. Þeir eru átta sem stendur og þar af eru fimm meðlimir með kennsluréttindi á öllum kennslustigum nema leikskóla. Óli Gneisti Sóleyjarson bókasafnafræðingur er með aðstöðu fyrir spilaútgáfu sína í gömlu fiskbúðinni. Þá má geta þess að Hjólakraftur er einn þeirra aðila sem hafa fengið á leigu húsnæði við Arnarbakka. Í aðstöðunni hjá Hjólakrafti hittast hópar amk 10 sinnum í viku til þess að hjóla um nágrennið, en einnig er þar önnur starfsemi. Til að mynda heldur PEERS námskeið í félagsfærni þarna tvo daga í viku. Þar koma bæði krakkar og foreldrar á námskeið.