Hallmark tekur upp í Gróttu
Mikið tilstand og fjölmenni var í og við Gróttu í lok nóvember þegar að tekin var upp sena í sjónvarpsmynd fyrir Hallmark sjónvarpsstöðina sem ber heitið “Love on Iceland”. Íslenska kvikmyndafyrirtækið HP Productions vinnur að verkefninu fyrir Hallmark og eru tökustaðirnir víða um Íslands. Til stendur að frumsýna myndina í lok janúar á “Winter-fest” stöð Hallmark sem hefur hvað mest áhorf.
Í framhaldi af jákvæðum umsögnum Umhverfis- og Minjastofnunar veitti Umhverfis- og auðlindaráðuneytið öll tilskilin leyfi til HP Productions vegna tilstandsins en Grótta er jú friðland eins og Seltirningar vita og þar þarf að fara að öllu með gát og samkvæmt settum reglum. Myndatakan tókst að sögn afar vel og allt kláraðist innan tímamarka fljóðs og fjöru. Veðrið og útsýnið í Gróttu var hreint út sagt stórkostlegt á þessum bjarta og fallega vetrardegi og mun án efa heilla margan áhorfandann.