Vil hvetja fólk til að kynna sér þjónustu Heilsugæslunnar
– segir Emilía Petra Jóhannsdóttir svæðisstjóri –
Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ er staðsett við Suðurströnd á Seltjarnarnesi baka til við sundlaugina. Á fyrri árum þjónaði stöðin íbúum Seltjarnarness og Vesturbæjar vestan Hringbrautar þ.m.t. Skerjafirði. Nú er þetta fyrirkomulag ekki lengur til staðar og allir geta skráð sig á stöðina óháð búsetu. Heilsugæslan á Seltjarnarnesi var opnuð árið 1982 í hluta húsnæðisins og síðan var húsnæðið klárað um það bil 10 árum síðar. Fyrir fjórum árum var starfsemin flutt í húsnæði Landakotsspítalans við Túngötu á meðan allt húsnæðið á Seltjarnarnesi var endurnýjað. Í dag starfa 30 manns við heilsugæsluna. Læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfari og móttöku- og skrifstofustarfsmenn eru þar nú við störf. Heilsugæslan sinnir fimm skólum sem eru á starfssvæði hennar. Emilía Petra Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur er svæðisstjóri heilsugæslunnar og hún spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.
„Hér var allt endurnýjað og gert upp fyrir fjórum árum og mikið unnið eftir hugmyndum okkar sem hér störfum. Allar endurbætur voru miðaðar við að bæta aðstöðu fyrir okkur en þá einkum fyrir skjólstæðingana – fólkið sem kemur hingað hinna ýmsu erinda er varða heilsu þess. Eitt af því sem var gert var að útbúa sérstaka aðstöðu fyrir verðandi mæður og ungbörn en mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit er á meðal þess sem við sinnum. Við sinnum einnig ýmsum stoðkerfisvanda og hér starfar til dæmis sjúkraþjálfari sem einnig er hreyfistjóri. Þetta hefur allt komið vel út fyrir okkur og gott að starfa í nýju húsnæði.“
Við sinnum öllum minniháttar óhöppum
Emilía segir heilsugæsluna búna til þess að sinna öllum minniháttar tilfellum og óhöppum. „Við gerum flest annað en að gera við beinbrot. Við erum að gefa járn og sýklalyf í æð og tappa af blóði. Sjúkraliði frá Landspítalanum er hjá okkur alla morgna frá 08:00 til 10:00 til að taka blóðsýni úr skjólstæðingum sem læknar hafa vísað í blóð- og þvagrannsókn. Við erum að sinna smærri aðgerðum til dæmis að sprauta í liði, taka bletti, fást við brunasár og skipta almennt á sárum sem erfiðlega gengur að fá til að gróa. Við sinnum líka ferðamannabólusetningum.”
Og svo er forvarnarstarfið
„Stór hluti af starfsemi okkar tengist forvörnum. Bæði í starfinu út í skólunum og líka hér í heilsugæslunni. Hér starfar hjúkrunarfræðingur í sykursýkismóttöku og er einnig með fræðslu um lífsstíl og stefnt er að árið 2020 að efla heilsueflandi móttökur fyrir 75 ára og eldri. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og við höfum nóg að gera. Einnig erum við að hvetja fólk að kynna sér og nota Heilsuveru í auknum mæli, bæði sér til fróðleiks einnig til að panta tíma, endurnýja föst lyf og senda fyrirspurnir til fagfólks. Engu að síður verðum við að láta vita af okkur og kynna fólki hvers það getur vænst af heilsugæslunni. Mikilvægt er að fólk átti sig hvaða þjónustu það getur sótt hingað ekki síst í ljósi þess mikla álags sem er á bráðamóttöku Landsspítalans. Nauðsynlegt er að fólk viti að það getur komið hingað með vanda sem ekki er af alvarlegasta tagi eða eins ég sagði gerum við ekki við beinbrot en getum sinnt mörgu öðru ef bein innlögn á spítala virðist ekki liggja fyrir. Ég held að mikilvægt sé að fólk þekki vel til þjónustu heilsugæslunnar og leiti þangað í auknum mæli. Vera má að einhvers misskilnings gæti og fólk haldi að komur þangað miðist aðeins við að hitta lækni og fá endurnýjun á lyfjum. Svo er alls ekki. Hér en unnið mun fjölbreyttra starf og efling heilsugæslunnar er ein þeirra leiða sem þarf að fara til þess að létta á bráðamóttöku Landsspítalans.“
Í friðargæslu í Bosníu
Emilía er ættuð frá Akranesi en hefur búið og starfað á nokkrum stöðum áður en hún settist að á Seltjarnarnesi, meðal annars starfað á gjörgæslunni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. „Mér líkaði vel fyrir norðan.“ Emilía starfaði síðan við friðargæslu í Bosníu. „Já – ég var í Bosníu um tíma. Var þar á vegum utanríkisþjónustunnar. Íslendingar tóku þátt í hjálparstarfi eftir Bosníustríðið. Íslenskir hjúkrunarfræðingar og læknar unnum mikið með breskum hermönnum sem voru þar við friðargæslu og gengum daglega í breskum hermannabúningum. Herinn var með það sem við getum kallað heilsugæslueiningar og hersjúkrahús. Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra á þessum tíma og kom í heimsókn til okkar. Ólafur Egilsson var sendiherra Íslands í London og kom einnig að kynna sér starfið. Við vorum í Banja Luka og víðar á þessu stríðshrjáða svæði. Þarna kynntist maður öðrum hliðum lífsins. Ég hefði ekki viljað missa af þeirri reynslu. Eftir þetta bjó ég meðal annars um tíma í Finnlandi.“
Tæpa tvo áratugi á Seltjarnarnesi
Emilía er búin að starfa nær tvo áratugi við Heilsugæsluna Seltjarnarnesi eða frá árinu 2001. Hún hefur einnig búið á Nesinu um árabil með síðari eiginmanni sínum Ragnari Karli Ingasyni banka- og tónlistarmanni ættuðum frá Hvammstanga. Hún á tvær dætur af fyrra hjónabandi. Vel þekktar úr handboltanum. Sú eldri er Lovísa Thompson sem hefur spilað handbolta með góðum árangri frá barnsaldri, fyrst með Gróttu og spilar nú með Val auk þess að vera í landsliðinu. Yngri dóttirin heitir Patricia Dúa Thompson Landmark en Landmark nafnið er komið frá afa Emilíu. „Afi var norskur, kom hingað til lands til þess að byggja síldarbryggjur á Siglufirði og kynntist ömmu þar. Svo á ég tvær fósturdætur, dætur mannsins míns. Þær eru eldri en mínar stelpur og það er komið eitt barnabarn. Mér líkar ákaflega vel að búa á Seltjarnarnesi. Ég er alin upp á Akranesi og þótt samfélagið þar sé stærra þá finnst mér margt líkt með því sem ólst upp við. Vegalengdirnar eru stuttar. Hér er maður laus við allt skutl. Stelpurnar hafa geta gengið og hjólað það sem þær hafa þurft. Samfélagið er umvefjandi. Fólk þekkist og kannast við hvert annað. Íþróttastarfið er bæði fjölbreytt og öflugt. Það er frábært að ala upp börn á Seltjarnarnesi. Við hjónin eigum okkur líka áhugamál. Ég hef spilað blak í 25 ár og er í blakfélagi Landsspítalans. Ragnar Karl starfar að tónlist samhliða störfum sem viðskiptafræðingur í banka. Þeir eru nokkrir saman með hljómsveit sem þeir kalla Slagarasveitina. Eru að semja lög, taka upp og undirbúa útgáfu. “Emilía segir ánægjulegt að starfa við heilsugæsluna og þar sé frábært starfsfólk og góð samstaða. „Ég vil að lokum minna á það fjölbreytta hlutverk sem hún hefur. Ég vil hvetja fólk til þess að notfæra sér starf hennar og þá möguleika sem hún býr yfir.“