Tíðarandinn breytist og umhverfið fylgir á eftir

– segja þær Ólöf María Jóhannsdóttir og Salbjörg Rita Jónsdóttir sem opnað hafa umhverfisvæna verslun á Laugavegi 23 –

Vonarstræti er við Laugaveginn á milli Brynju og Te og kaffi. Þær Salbjörg og Ólöf eru í dyrum verslunarinnar.

Ólöf María Jóhannsdóttir og Salbjörg Rita Jónsdóttir opnuðu verslun á Laugavegi 8. í nóvember á liðnu ári. Verslunina nefna þær Vonarstræti og er hún á milli Brynju og kaffihúss sem Te og Kaffi rekur. Í kjallaranum undir Vonarstræti er barinn Tíu sopar en þar var áður kaffihúsið Tíu dropar. Eitt af fyrstu nútímakaffihúsunum í borginni. Kaffihús sem Steinunn Bergsteinsdóttir listakona og fleiri opnuðu undir lok liðinnar aldar og varð fljótt vinsælt. Vonarstræti verslar einkum með umhverfisvænar heilsuvörur og eitt það fyrsta sem fyrir augun ber í búðinni er langborð þar sem umhverfisvænum sápum og öðrum hreinlætisvörum hefur verið stillt upp. Margs annar gætir innandyra en öll áhersla er á umhverfisvænar vörur. Þær Ólöf og Salbjörg segjast fljótt hafa fengið góðar viðtökur. „Við vorum ekki með langan aðdraganda að þessu en viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum.“

En hvaðan koma þessar kjarnakonur. Ólöf er viðskiptafræðingur og hefur fjölbreyttan bakgrunn. Hún hefur meðal annars starfað sem markaðsstjóri hjá Prentsmiðjunni Odda og hjá Orkusölunni sem sölu- og markaðsstjóri og síðustu ár  hefur hún sinnt verkefnum fyrir Krabbameinsfélagið, Rauðakrossbúðirnar og síðan hjá hugmynda- og auglýsingastofunni Brandenburg þar sem hún vann meðal annars við gerð hringrásardagatalsins fyrir Sorpu. Salbjörg er hönnuður og ljósmyndari sem lengi hefur látið sig umhverfismál varða og var meðal stofnenda átaksins Plastlauss september og verslunarinnar Vistveru.

Viðskiptavinir úr öllum áttum

Hvarflaði aldrei að þeim að áhætta fælist í að opna verslun með vistvænar vörur við Laugaveginn. „Nei“ segir Ólöf „og hefði sá ótti verið fyrir hendi hefði hann horfið með viðtökunum. Þær hafa verið einstaklega góðar.“ Hvaðan koma viðskiptavinirnir. Eru þeir einkum ferðafólk sem fer um Laugaveginn eða eru borgarbúar að líta inn. „Þeir skiptast svona til helminga. Margt ferðafólk lítur inn og borgarbúar hafa tekið okkur mjög vel. Ég veiti því athygli að fólk úr Miðborginni og ekki síður Vesturbænum hefur mikinn áhuga á að koma og versla. Fólk kemur víðar að og ég hef þá trú að innlendum viðskiptavinunum fjölgi. Við erum bara rétt að byrja. Ég tek líka eftir því að hingað kemur fólk á öllum aldri. Eldra fólk hefur ekkert síður áhuga á vistvænum vörum en það yngra. og fólk úr öllum geirum samfélagsins sem á kannski ekkert annað sameiginlegt annað en að vilja ganga vel um jörðina okkar. 

Séð Laugaveginn vaxa og dafna 

Mikil umræða hefur átt sér stað um Laugaveginn að undanförnu og sýnist sitt hverjum. Háværar raddir heyrast frá þeim sem finnast þær breytingar sem unnið hefur verið að allar til ills og auglýsingar hljóma í fjölmiðlum um að verið sé að eyðileggja Laugaveginn. „Þetta er alls ekki mín upplifun,“ segir Ólöf. „Þótt ég sé uppalin í Árbæjarhverfinu þá kom ég mikið í Miðborgina. Eftir að ég flutti úr Árbænum hef búið lengi á Vatnsstígnum sem er nágrenni við Laugaveginn og líka unnið þar. Það eina sem ég hef séð er hvernig Laugavegurinn hefur vaxið og dafnað. Miðborgin hefur alltaf verið mín borg.“

Tíðarandinn breytist og umhverfið fylgir á eftir 

Hvernig upplifa þær sem verslunareigendur við Laugaveginn þessar breytingar og viðmót fólks. „Við finnum nær eingöngu fyrir jákvæðum stuðningi.” Ólöf bendir á að Laugavegurinn hafi breyst. „Tíðarandinn hefur breyst og umhverfið fylgir á eftir. Gamli Laugavegurinn eins og hann var áður kemur ekki aftur. Sú var tíðin að sunnudagsrúnturinn lá niður Laugaveginn með tilheyrandi umferðamengun. Nú eru þeir tímar liðnir. Nú er fullt af fólki á Laugaveginum alla daga. Bæði innlent og ferðafólk. Verslanatími hefur líka breyst. Mun fleiri verslanir eru opnar á sunnudögum. Verslum með vörum ætluðum ferðafólki hefur fjölgað. Þetta er þróun sem tengist breytingum á atvinnuháttum.“

Erum að fá nýjan og betri Laugaveg 

Þær Ólöf og Salbjörg segja að vissulega hafi allar þessar breytingar tekið á. Einkum endurbygging gatna í gamla miðbænum. „Þar er um að ræða gamlar götur sem sumar hverjar liggja um klappir. Þegar farið var að róta við þeim þurfti að endurnýja það sem er undir malbikinu. Þess vegna hefur verið ónæði af jarðvegsvinnu og stundum hafa framkvæmdir dregist allt of mikið á langinn eins og á liðnu sumri,“ segir Ólöf. “Við erum að fá nýjan og betri Laugaveg.“ Þær segja að taka verði mið af því hvað hentar. „Nú situr fólk á veitinga- og kaffihúsum en ekki í bílum með lokuðum rúðum. Fólk langar að koma í Miðborgina. Geta andað að sér fersku lofti. Litið í verslanir. Litið inn á sýningar og farið á kaffihús. Fólk þarf líka að læra að nota strætisvagnakerfið og bílastæðahúsin betur. Stoppustöðvar eru hér víða og Traðarkot er hér alveg við og það þarf að labba um 400 metra frá stæðunum við Hafnartorg og Hörpu til að komast á Laugaveginn.“

Vonandi hafa borgaryfirvöld lært

“Vissulega hefur þessum framkvæmdum fylgt ýmiskonar rask og þetta hefur verið mikið álag á alla þá sem búa og starfa í miðbænum. Verslunarrekstur er viðkvæmur og því verður að vanda sig við uppbyggingarstarfið. Mikið af þessum rekstri er í eigu einstaklinga sem hafa sýnt það frumkvæði að skapa sér vinnu með því að bjóða upp á skemmtilega vöru eða þjónustu og margir mánuðir þar sem litlar tekjur koma í kassann gerir fljótt út af við svoleiðis rekstur en þetta eru einmitt fyrirtækin sem við viljum sjá í miðbænum. Vonandi hafa borgaryfirvöld dregið lærdóm af því ástandi sem skapaðist í fyrrasumar og haust hjá mörgum rekstraraðilum,” segja þær Ólöf og Salbjörg. 

Vöruúrvalið er mikið og eingöngu um umhverfisvænar vörur að ræða.

Vörur úr sjálfbærum en endurvinnanlegum efnum

Talinu víkur aftur að búðinni þeirra. Vonarstræti við Laugaveg. Ólöf og Salbjörg segja að strax í upphafi hafi verið ákveðið að vera einungis með umhverfisvænar vörur. Verslunin snúist um þær. Að mörgu þurfi að gæta þegar ákveðið er hvað falli að þeirri hugsun. Ekki sé aðeins um efnafræðilegt innihald að ræða heldur komi umhverfisleg sjónarmið við sögu. Þær segjast leita víða fanga en leggja áherslu á þær vörur sem þær taka til sölu séu unnar úr efnum þar sem framleiðslan sé sjálfbær að efni séu niðurbjótanlega eða endurvinnanleg. Góð hönnun skiptir okkur máli þar sem lögð er áhersla á endingu og allt sem hefur margs konar notagildi höfðar til okkar eins og t.d. vörurnar frá íslenska fyrirtækinu Fólk þar sem kertastjaki getur líka verið blómavasi eða fallegur skúlptúr. Við viljum líka vita hvaðan vörurnar sem við seljum koma og viljum stunda sanngjörn viðskipti. Mikið af vörunum okkar koma frá Evrópu og eru framleiddar undir evrópskri vinnulöggjöf og við erum líka með vörur sem eru vottaðar Fair trade.”  

Áfyllingarvörur eru nýjung eða gamall tími endurvakinn

Og þá er spurning um umbúðir og nýtingu. „Við erum til dæmis farnar að bjóða svonefndar áfyllingarvörur. Það eru vörur þar sem fólk kemur með sín eigin ílát og við fyllum á þau. Það minnir svolítið á þegar fólk kom með mjólkurbrúsa í mjólkurbúðina og fékk þá fyllta af mjólk á árum áður. Þetta er að koma aftur inn í verslunarmenninguna. Við erum til dæmis með vörur frá Sóley organic sem við afgreiðum með þessum hætti. Sóley organic framleiðir ýmsar umhverfisvænar húðvörur með því markmiði að allir noti húð- og hárvörur sem eru góðar fyrir líkamann og góðar fyrir umhverfið. Því eru aðeins innihaldsefni í vörum þeirra sem eru samþykkt af Ecocert vottunarstofunni. Við erum líka með í áfyllingu hreinsiefni fyrir heimilið frá Fill og annað eins og sápuhnetur og tannkremstöflur.”

Áfyllivörur eru áberandi í versluninni. Nú kemur fólk með eigin ílát og fær fyllt á þau.

Margnota tíðavörur

Ýmsar nýjungar í umhverfisvænum vörum hafa komið á markaðinn á undanförnum árum sem eru til sölu hjá stelpunum í Vonarstræti. Sem dæmi um það eru margnota tíðarvörur eins og margnota innlegg og túrnærbuxur sem hafa slegið í gegn. Hársápustykki eru orðin mjög vinsæl þar sem við losum okkur við mikið af plasti, margnota eyrnapinnar, fatnaður úr hampi og margt fleira.

Vaxandi krafa um góða nýtingu

Þær Ólöf og Salbjörg hafa að undanförnu verið að horfa í fleiri áttir. Þær eru að vinna að því að versla með notuð föt. Þær segja að vaxandi krafa sé í samfélaginu um að nýta hluti vel. “Þetta á bæði við um matvöru og ekki síður fatnað. Fötum var oft hent þegar fólk var búið að fá leið á þeim. Nú ryður sú hugsun sér til rúms að aðrir geti ef til vill nýtt fatnaðinn. Við erum orðin meðvitaðri um notagildið. Um hversu miklu er hent af fatnaði og einnig ýmsum hlutum. Fólk er líka farið að huga meira að því hvað hlutir kosta. En einkum að finna sér umhverfisvænni lífsstíl.”

Krafa um að sleppa óþarfa plastumbúðum er vaxandi

Plastið berst í tal í framhaldi af því. Það er ekkert svart og hvítt í þessum efnum. Menn eru að þreifa sig áfram hvað geti komið í stað plastsins,” segir Ólöf. Hún nefndir matvöru sem gjarnan er pakkað inn í umbúðir úr plasti. “Þetta hefur þó ekki alltaf verið þannig. Út um allan heim eru markaðir þar sem matvara er seld beint frá framleiðendum á sölutorgum. Þessi torgsala hefur aldrei náð almennilega hingað til lands en er aðeins farin að ryðja sér til rúms með bændamörkuðum á sumrin og krafan um að sleppa óþarfa plastumbúðum verður æ háværari frá neytendum. Við sjáum að það er að skila sér inn í matvöruverslanir. Aukinn áhugi neytanda á umhverfismálum mun ýta þessari þróun áfram á næstu árum segir Ólöf María Jóhannsdóttir að lokum.”

You may also like...