Félagsfærniþjálfun í grunnskólum
– í hverfum Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða –
Á vordögum 2019 fengu þverfaglegur samstarfshópur grunnskóla, frístundastarfs og þjónustumiðstöðvar í hverfum Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða styrk til þess að sækja námskeið í skólafélagsfærniþjálfun PEERS. PEERS er gagnreynt námskeið í félagsfærni fyrir börn, unglinga og ungt fólk. PEERS efnið var upphaflega þróað fyrir börn með einhverfu og ADHD og hefur það efni verið kennt á námskeiðum hérlendis.
Efnið hefur verið þróað enn frekar og er PEERS skólafélagsfærni talið henta öllum börnum og ungmennum til að efla félagsfærni sína. Sambærilegt námskeið hefur síðustu ár verið kennt af einkaaðilum í Reykjavík en nú hafa starfsmenn í 6 grunnskólum, ein félagsmiðstöð og eitt frístundaheimili í okkar hverfum sótt sér þjálfararéttindi. Grunnskólarnir hafa allir farið af stað með litla hópa en frístundaheimilið og félagsmiðstöðin hafa tengt PEERS efnið við önnur þróunarverkefni og unnið með stærri barnahópa. Í heildina eru því um 130 börn sem taka þátt í námskeiðunum, sem fara fram í skólunum á skólatíma eða á starfstíma frístundastarfsins. Skipulögð dagskrá er í hverjum tíma og hlutverkaleikir notaðir. Meðal þess sem sem er æft er: samræðufærni, farið yfir rafræn samskipti, velja viðeigandi vini, viðeigandi notkun á húmor, aðferðir til að nálgast jafnaldra, aðferðir við að kveðja jafnaldra, heiðarleg framkoma, að vera góður gestgjafi, ágreiningur milli jafnaldra og höfnun jafnaldra. Nemendur fá heimaverkefni og óskað er eftir stuðningi foreldra í þeim æfingum.
Vegna samkomubannsins þá var gert hlé á námskeiðunum en fram að því voru þjálfarar á einu máli um að skólafélagsfærni PEERS væri ekki eingöngu þarft efni heldur skemmtilegt líka. Kennslustundirnar voru fljótar að líða, þátttakendur voru virkir í tímum og þjálfarar öðluðust dýrmæta reynslu í framsetningu á efninu. Nú hefur samráðshópurinn sótt um framhaldsstyrk í þróunar- og nýsköpunarsjóð Reykjavíkurborgar til þess að aðlaga og útfæra námsefnið enn frekar þar sem samhliða kennslu er verið að vinna að þýðingu efnisins.