Fær að starfa á Seltjarnarnesi
Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar hefur heimilað stöðvalausu rafskútuleigunni Hopp að veita íbúum Seltjarnarness þjónusta. Rafskútur hafa síðustu misserin verið sífellt meira áberandi í umferðinni í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Rafskúturnar eru umhverfisvænn ferðamáti til viðbótar við að vera snjöll örflæðissamgöngulausn.
Rafskútur Hopp falla undir það sem á ensku kallast MaaS (Mobility as a Service) eða samþættanlegar ferðalausnir. Horfið er frá þeirri hugmynd að ferðamáti þurfi að vera eign einhvers í þá átt að ferðamáti sé þjónusta við einhvern. MaaS hefur þann tilgang að tengja saman þarfir fólks sem er á ferðinni og allar þær samgönguþjónustur sem í boði eru t.d. strætó, deilibíla, deilihjól, deilirafskútur, leigubíla, gönguleiðir og mynda eina heildstæða lausn fyrir íbúa og gesti. Markmiðið er að auðvelda fólki með ólíkar þarfir að ferðast með ýmsum og ólíkum leiðum hverju sinni með aðgengilegum og auðveldum hætti.