Vilja breyta hringtorgi við Ánanaust
– myndi auka byggingamöguleika við Alliance húsið –
Fyrir liggur hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur erindi frá Plúsarkitektum um breytingu á deiliskipulagi Grandagarðs 2 öðru nafni Alliance reitnum þess efnis hvort hægt sé að stækka reitinn og auka með því möguleika til meiri bygginga en gert hefur verið ráð fyrir. Breytingin myndi kalla á breytingar á gatnamótum á svæðinu.
Í erindi sem Plús arkitektar hafa sent Reykjavíkurborg segir m.a. að með nýrri útfærslu gatnamótanna megi stækka lóðina úr 4000 fermetrum í allt að 6.200 fermetra sem þýðir að byggja mætti um 3.500 fermetra umfram það sem leyfilegt er nú. Þá segir einnig að ný gatnamót á mótum Ánanausts, Fiskislóðar, Mýrargötu og Grandagarðs séu tímabær og yrðu samgöngubót fyrir þá sem kjósa að fara um gangandi eða á reiðhjólum. Fyrir liggur tillaga Mannvits að breyttum gatnamótum og vísa Plús arkitektar í hana í fyrirspurn sinni en ekki liggur að minnsta kosti ekki enn sem komið er hvernig sú hugmynd verður útfærð. Útfærslan krefst samvinnu Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Faxaflóahafna auk þess sem fleiri hagsmunaaðilar þurfa að samþykkja breytingar sem gerðar verða á lóðamörkum og öðrum atriðum em málið varða. Fyrirspurnin var tekin til umfjöllunar á fundi skipulagsfulltrúa fyrir skömmu þar sem kom fram að borgaryfirvöld séu jákvæð gagnvart breytingum á þessum gatnamótum. Sjálft Alliance húsið er friðað og talið hafa mikið byggingasögulegt gildi. Hugmyndir hafa verið um að byggja á Alliance lóðinni húsnæði fyrir íbúðir, gistingar verslanir og aðra þjónustu en ekki hefur orðið af þeim til þessa. Eignin er nú í eigu félagsins Skipan. Að Skipan standa Gísli Hauksson fyrrum forstjóri Gamma, Arnar Hauksson húsasmíðameistari og Guðmundur Kristján Jónsson borgarskipulagsfræðingur.