Reksturinn undir áætlunum

Rekstur bæjarins var undir áætlunum á fyrstu sex mánuðum ársins. Skatttekjur námu 1.771 milljónum og voru 46 milljónum undir áætlun. Þrátt fyrir halla er niðurstaðan töluvert betri en á sama tíma í fyrra. Áhrifa vegna Covid-19 gætir víða í rekstrinum líkt og hjá öðrum sveitarfélögum og mun gera áfram. Á sama tíma er lækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði.

Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á undanförnum mánuðum eru farnar að skila sér. Rekstrarniðurstaðan skýrist af tekjufalli vegna COVID19, þar má nefna að útsvarstekjur eru lægri, sundlaug var lokuð með tilheyrandi tekjutapi. Einnig hefur sveitarfélagið komið til móts við íbúa, t.d. með niðurfellingu að hluta á leikskólagjöldum vegna COVID19.

Félags- og fræðslumál vega þungt

Útgjöld til fræðslumála námu 1.085 milljónum og til félagsþjónustu tæpum 332 milljónum. Samtals nema þessir mikilvægu málaflokkar liðlega 80% af skatttekjum bæjarins. Aukin útgjöld til fræðslumála og félagsþjónustu vega þungt í rekstrinum. Áfram er unnið að aðgerðum til að ná jafnvægi í rekstri bæjarins. Það verður stærsta áskorunin að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins næstu misseri. Bæjarstjórn tók þá ákvörðun í upphafi faraldursins að skera ekki niður framkvæmdir, heldur þvert á móti að auka við þær. Einnig voru allir sem sóttu um sumarstörf hjá bænum ráðnir og varð veruleg fjölgun milli ára, segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness.

Yfirlit yfir rekstur Seltjarnarnesbæjar hefur nú verið birt á heimasíðu bæjarins. Um er að ræða óendurskoðað uppgjör.

You may also like...