Við þurfum blómlega byggð í Efra Breiðholti
– Þórður Einarsson “Doddi þjálfari” skrifar um skipulagsmálin –
Ég fór við annan mann og kynnti mér hugmyndir um hverfaskipulag í Efra-Breiðholti. Nú er talsverður hávaði í fólki á facebook sem virðist fyrirlíta allar framkvæmdir og framfarir í Breiðholti en elska bifreiðar og bílastæði. Þótt hávaðinn sé talsverður þekki ég af samtölum mínum við fjöldamarga íbúa hverfisins að fólk vill uppbyggingu. Því sting ég niður penna hér til að koma fram með vinkil sem virðist vera að drukkna í e-h flokkspólitískum leik og ást á einkabílnum.
Staðan í hverfi 111 er þannig í dag að börn og barnafjölskyldur eru að hverfa af yfirborði jarðar. Það eru einungis rétt um 300 börn í Fellaskóla sem áður tók á móti 1200 nemendum og Hólabrekkuskóli er orðin þriðjungur af því sem áður var. Meðalstórar íbúðir og hús eru ekki til fyrir þá sem vilja búa innan hverfis og það er erfitt að kaupa í hverfinu. Nú þegar þetta er ritað eru rétt um 40 eignir til sölu í öllu hverf 111 og margar af þeim eignum ekki líklegar til að rúma barnafjölskyldur. Stelpur eru svo fáar í íþróttum að þær þurfa oft á tíðum að leita út fyrir hverfið og fjöldi þeirra sem stunda einhvers konar tómstundir er sá lægsti hlutfallslega á öllu landinu.
Til að fá þjónustu þarf að vera fólk
Til að fá þjónusta í nærumhverfi sínu þarf að vera fólk, og þá enn betra börn. Og til þess að byggja upp blómlegt hverfi þarf að þétta byggð. Þannig má auka sjálfbærni hverfisins. Til að þetta verði að veruleika verður hverfið að fá fleiri íbúðir sem henta fjölskyldufólki. Íbúðir frá 100 fm. til 150 fm. Hverfið þarf aftur alls ekki á því að halda að byggja fleiri litlar íbúðir sem er kannski helsta gagnrýni mín og annarra sem skoða nýtt hverfisskipulag með opnum huga. Við viljum sjá blómlega byggð sem skapar nýjar forsendur í hverfinu. Eitthvað sem ýtir undir hverfisvitund og fjölgar þeim sem velja 111 sem búsetu til lengri tíma.
Í þeim drögum sem hafa verið kynnt eru metnaðarfullar hugmyndir um þéttingu byggðar. Ein af þessum tillögum snýr að Austurbergi og þar á að þétta að vegi. Þetta dregur ekki úr á einu né neinu nýtilegu eða grænu svæði en myndi skapa mikið meiri borgarbrag og flotta götumynd. Nýtum plássið. Nokkrar lóðir aðrar eru hugsaðar til uppbyggingar að auki. Má þar nefna lóðina þar sem krummavöllur stendur núna. Á Krummavelli hefur ekki verið spilaður fótboltaleikur í 25 ár og svæðið algerlega vannýtt. Samt má heyra mótbárur við þeirri uppbyggingu, sem ég og mikið mun fleiri skiljum ekki. Þarna er alger negla að byggja veglegar og flottar blokkir með stórum og góðum íbúðum.
Smíðasmiðja FB og Markúsartorg
Annað svæði sem vilji er að byggja á, og er talsvert lýti á hverfinu í dag, er svæðið þar sem smíðasmiðja FB stendur. Það yrði heldur betur bragabót fyrir bæði ásýnd hverfisins og ekki síður fyrir Markúsartorgið við Gerðuberg sem má sannlega fá upplyftingu. Þessi hugmynd að búa til hreinræktaða og heildræna miðju í hverfinu þykir mér virkilega góð. En um leið mikilvægt að sú uppbygging verði fyrst og síðast fjölskylduíbúðir og við sjálft torgið, hús með þjónustu á neðstu hæð.
Einn er sá hlutur sem ég og félagi minn settum fram í dag á fundi okkar með deildarstjóra hverfaskipulagsins en það er alger yfirhalning á svæðunum við Jórufell að Iðufelli þar sem núna eru bílastæði fyrir númerslausa bíla og tjaldvagna, félagsleg húsnæðisblokk í eigu borgarinnar og illa hirt iðnaðarhúsnæði. Þetta er reitur sem klárlega þarf að breyta. Án þess að gera lítið úr íbúum Jórufells þá er það svo að hugmyndin um að hafa heilu blokkirnar með félagslegu húsnæði er barns síns tíma. Blönduð byggð íbúa er lang farsælast og því mikilvægt að þessi reitur verði þróaður algerlega uppá nýtt. Væri heillavænlegast að rífa hverja einustu byggingu á svæðinu og byggja upp einhverja glæsilegustu blokk Reykjavíkur með frábærum garði í miðjunni þar sem nú stendur Leikskólinn sem mun verða sameinaður öðrum leikskóla samkvæm skipulaginu. Við komum þessari athugasemd til þeirra og vel var tekið í hana.
Auka búsetuform í Fellum og Víðidal
Þá víkur sögunni að skilgreindum byggingarreit neðan við Möðrufell og Nönnufell. Það er gríðarlega mikilvægt að auka búsetuformin sem eru í boði í Fellunum og á þessu svæði við Víðidalinn er algert dauðafæri á að byggja upp einn fallegasta hverfahluta landsins. Ég þekki það af eigin raun að áhugi íbúa á að búa við dalinn er gríðarlegur. Þessi reitur er í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar skilgreindur sem svæði fyrir minni einbýli og raðhús. Sem er mikil vöntun á í hverfinu. Sú hugmynd að byggja þarna var aftur ekki sett fram í þessu hverfaskipulagi. Ástæðan er sú að umræða um uppbyggingu Bio-drome á malarplani við Stekkina er svo vanstillt að borgin virðist ekki hafa treyst sér til að setja þetta fram. Sú mantra er þegar byrjuð með þennan reit að það sé verið að eyðileggja dalinn með því að byggja þarna. Flestir þeir sem láta hátt í þessu máli, hafa aftur ekkert á móti því að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að byggja upp byggð í Kópavogi, steinsnar frá þessum reit gjörsamlega 20 metra frá Elliðavatni. Það truflar fólk ekkert. En þegar byggja á langt frá ánni sjálfri á reit í Breiðholti, setur fólk sig upp á móti því. Undarlegt. En þessi reitur, er reitur sem ég vona að fari í uppbyggingu hið fyrsta. Til að fá fleira fólk til að búa lengur í besta Breiðholti.
Fleiri börn í grunnskólana og íþróttir
Heilt yfir eru tillögurnar um hverfið góðar. Það er t.d. ekki verið að þrönga uppá neinn að byggja ofan á fjölbýlishúsin, heldur veita leyfi fyrir því. Hvernig hægt er að snúa því uppí eitthvað argaþras er óskiljanlegt. Það er heldur ekki verið að krefja fólk í einbýli að búa til íbúðir á lóðum sínum heldur veita fólki þann möguleika. Þétting byggðar hefur marga kosti í för með sér. Við fáum fleira fólk, sem getur ýtt upp þjónustustiginu í hverfinu. Við fáum fleiri börn í grunnskólana, sem skapar svo grundvöll fyrir því að íþróttir og tómstundir verði aðgengilegri innan hverfis. Við fáum fleiri tækifæri til að stækka og minnka við okkar innan hverfisins og með auknum fólksfjölda fáum við meiri atvinnustarfsemi sem gefur möguleika að því að stytta ferðalagið til vinnu. Ofan á allt þetta eru grænu svæðin í 111 eftir sem áður í góðum málum en ónýtt svæði og nöturleg taka á sig nýja og betri mynd.
Takið þátt í umræðunni
Ég hvet fólk, sem er jákvætt fyrir breytingum og bætingum í hverfinu að fara láta heyra meira í sér. Ég hvet unga Breiðhyltinga til að taka þátt í umræðunni. Umræðan á netinu er verulega neikvæð en raunin er sú að fullt af fólki líst vel á hugmyndir um þéttingu byggðar, Borgarlínu og almenna uppbyggingu í okkar hverfi. Um að gera að benda á það sem má bæta og breyta í tillögunum og ef þið hafið nýjar hugmyndir látið í ykkur heyra. Við framfarasinnaðir Breiðhyltingar verðum að láta að okkur kveða og ekki láta þá sem vilja fleiri bílastæði einoka umræðuna. Við viljum fleira fólk, meiri þjónusta og fleiri búsetukosti í hverfinu okkar. Við viljum betra og meira Breiðholt! Koma svo, áfram Breiðholt!