Nýjar lúxusíbúðir á hafnarsvæðinu
Um 70 nýjar lúxusíbúðir eru komnar til sölu við Bryggjugötu, Geirsgötu og göngugötuna Reykjastræti. Sambærilegur fjöldi lúxusíbúða hefur ekki komið á markað frá því að svörtu blokkirnar í Skuggahverfi voru byggðar.
Um er að ræða einhverjar dýrustu íbúðir og jafnvel aldýrustu sem settar hafa verið á markað hér á landi. Fermetraverð í dýrari íbúðunum er á bilinu ein til ein og ríflega ein og hálf milljón króna sem er verð sem ekki hefur sést áður á fasteignamarkaði. Áætlað er að selja um 180 fermetra íbúð með tveimur svefnherbergjum og þremur baðherbergjum á um 255 milljónir króna. Íbúðir á efstu hæðum í nýju fjölbýlishúsunum í miðborginni eru stærri. Við Bryggjugötu 4 er um 350 fermetrar íbúð og má því búast við töluvert hærra verði en á íbúð sem nú er boðin til sölu á 345 milljónir króna. Hluti íbúðanna eru í stórhýsi við Bryggjugötu á milli Hörpu og Marriotthótel byggingarinnar. Athygli vekur að enn stærri íbúðir verða á sjöttu hæð og á eftir að verðleggja þær. Verðið á þeim ætti því að verða mun hærra. Fjölmargar íbúðir eru verðlagðar á rúmlega tvö hundruð milljónir og einnig á bilinu 100 til 200 milljónir. Ódýrasta eignin er 59 milljónir og er hún fimmtíu fermetrar að stærð. Kynningu á íbúðunum og verðlista yfir þær íbúðir sem eru til sölu má sjá á vef Austurhafnar.