Alvotech vill byggja meira í Vatnsmýrinni
Alvotech vill byggja meira í Vatnsmýrinni. Það sést á því að í borgarkerfinu er nú til meðferðar umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu við hátæknisetur Alvotech við Sæmundargötu. Um er að ræða byggingu upp á fjórar hæðir með kjallara, steinsteypta, einangraða og klædda glerklæðningu. Hið nýja hús verður samtals 13.286 fermetrar. PK arkitektar eru aðalhönnuðir.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur haft málið til meðferðar og ekki aðrar skipulagslegar athugasemdir en því að breyta þurfi bílastæðum í götu. Núverandi bygging Alvotech á Sæmundargötu 15 til 19 í Vatnsmýrinni var reist árið 2016 og er tæplega 13 þúsund fermetrar að stærð. Brunabótamat samkvæmt fasteignaskrá er rúmir 4,2 milljarðar króna. Húsið er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands.
Húsnæðisþörfin er komin til vegna vaxandi umsvifa og stefnir lyfjaþróunarfyrirtækið Alvotech á að fjölga starfsmönnum í höfuðstöðvum félagsins í Vatnsmýri á næstu misserum. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 500 vísindamenn og sérfræðingar frá 45 þjóðlöndum, á Íslandi, í Þýskalandi, Sviss og í Bandaríkjunum.