Umræður um Eiðistorgið í bæjarstjórn
Meirihluti bæjarstjórnar telur ráðlegt að fresta þeirri vinnu, sem fulltrúar Samfylkingar hafa lagt til um breytingar á Eiðistorgi. Alla vega um sinn. Ekki sé tímabært að fara í slíkar framkvæmdir þar sem enn er mörgum spurningum ósvarað um vilja eignaraðila á Eiðistorgi. Í bókun meirihlutans af bæjarstjórnarfundi segir að mikil vinna hafi átt sér stað í málefnum Eiðistorgs um nokkurn tíma. Verkefnið sé afar flókið og margir þurft að koma að því. Gott samráð er við formenn/forsvarsmenn húsfélaganna sem hafa aðkomu að torginu og fjölmargir fundir verið haldnir og málið því í góðum farvegi. Sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs hefur verið í samstarfi við húsfélögin á torginu um endurbætur og er sú vinna í fullum gangi.
Meirihlutinn kveðst geta tekið undir að tímabært sé að Eiðistorg fái yfirhalningu og fái að njóta sín í takt við upprunalegt útlit og hugsjón því tengt. Undirbúningur að þeirri vinnu er nú þegar í gangi og hefur verið um nokkuð langt skeið m.a. hjá Maríu Björk Óskarsdóttur sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs og fleiri starfsmönnum bæjarins. Í því sambandi má nefna að María Björk hefur verið að vinna með upplýsingar og gögn frá stofnun torgsins þ.e. viðtöl við Sigurgeir fv. bæjarstjóra, gömul skjöl, upplýsingar og teikningar varðandi torgið og húsin sem að því standa, skýrslu frá Ormari Þór arkitekt, samtöl við forsvarsmenn húsfélaganna o.fl.
Mikið álag á skipulagssviði
Þá segir að í gangi sé vinna við að stofna eitt sameiginlegt rekstrarfélag fyrir Eiðistorgið og þá aðila sem þar eiga fasteignir ásamt bænum. Eðlilegt sé að þegar farið verður í vinnu við Eiðistorgið muni það félag eiga virkan þátt í þeirri vinnu. Því séu fjölmörg praktísk mál sem þurfa helst að liggja fyrir áður en farið verður í stefnumótun varðandi torgið sjálft en áhugavert að fara í slíka vinnu síðar meir á réttum forsendum. Að lokum segir að mikið álag verði á skipulagssviði bæjarins á þessu ári við uppbyggingu sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í. Meirihlutinn telur að bærinn verði að einblína á þau verkefni sem nú þegar hafa verið samþykkt, en nýsamþykkt framkvæmdaáætlun að fjárhæð 630 milljónum liggur fyrir þar sem m.a. gert ráð fyrir fatlað fólk.