Íbúðir á Steindórsreitnum eftir tvö ár
Undirbúningur er hafinn að byggingu áttatíu og þriggja nýrra íbúða á Steindórsreitnum til móts við JL-húsið í Vesturbæ Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verða tilbúnar eftir um það bil tvö ár eða um páska árið 2023. Það er fasteignaþróunarfélagið Kaldalón sem stendur að byggingunni sem kosta mun á bilinu fjóra til fimm milljarða.
Atvinnuhúsnæði verður á jarðhæðinni sem snýr að Hringbraut og bílastæðakjallari undir húsunum. Húsnæðið verður byggt upp upp af tveimur íbúðarhúsabyggingum. Við hringtorgið á móti JL-húsinu verður aðalbyggingin sem verður fimm hæðir. Inngarður verður að baki hennar og þar að baki L laga bygging þar sem verða um 30 íbúðir. Gert er ráð fyrir að þarna verði tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir. Um tíma var áformað að hótel yrði í hluta þessara bygginga en frá þeim var horfið.
Gömlu byggingarnar horfnar
Að undanförnu hefur verið unnið að niðurrifi gömlu bygginganna á reitnum og eru þær nú horfnar. Steindór Einarsson, sem kallaður var bílakóngur Íslands, reisti húsið sem verkstæði og bílageymslu á sínum tíma en hann rak stóra bílastöð í fjölda ára. Eftir að hann hætti starfsemi var ýmiskonar verslunarrekstur í húsinu. Meðan annars JL-Byggingarvörur á meðan JL veldið var og hét við Hringbrautina. Þá var fyrsta verslun Byko í Vesturbænum þar til húsa um árabil þar til hún var flutt í Örfirisey. Þá var farið að kenna reitinn við þá verslun. Eftir það var matvöruverslun Víðis þar um tíma en eftir að hún hvarf af sjónarsviðinu voru gömlu Steindórshúsin að mestu ónotuð. Þótt þau væru notuð fyrir viðgerðastöð og geymslu fyrir bíla Steindórs þá komu þau aðeins við menningarsögu þjóðarinnar. Það varð með þeim hætti að þar voru haldnir fyrstu stórtónleikarnir á Íslandi sem fóru fram mánudaginn 18. desember 1939. Hljómsveit, kór og einsöngvarar fluttu kórverkið Sköpunina eftir austurríska tónskáldið Franz Joseph Haydn undir stjórn Páls Ísólfssonar tónskálds og dómorganista. Þá var enginn salur í Reykjavík sem rúmað heilan kór og stóra hljómsveit ásamt áheyrendum.