Kennsla í vegglist
Fellaskóli hefur sett á stokk valgrein fyrir áhugasama nemendur í 8. til 10. bekk um vegglist og vegglistagerð á vorönn 2021 og mun listamaðurinn Anton Lyngdal sjá um þann áfanga.
Vegglistasenan á Íslandi er stærri en margir gera sér grein fyrir og á bakvið hana stendur fjöldi listamanna sem fá útrás fyrir listsköpun sína með vegglistagerð sem annars þurfa að fara huldu höfði. Margir þessara listamanna hafa stundað listnám samhliða vegglistagerðinni og starfa jafnvel sem slíkir. Stór hópur listamanna hefur stundað vegglistagerð í áraraðir og eru vel þekktir innan senunnar, enda margir hverjir mjög færir og hæfileikaríkir.
Myndskreytti vegg í kjallara skólans
Sem kveikja að valgreininni, sem Anton kemur til með að leiðbeina, fengum við hann til að myndskreyta vegg í kjallara skólans. Upprunalega hugmyndin var sú að nemendur fengju tækifæri til að fylgjast með listamanninum við gerð verksins sem gekk því miður ekki upp, bæði vegna COVID og vegna eiturgufa sem myndast í kringum gerð svona verks. Í staðinn var verkefnið kynnt fyrir nemendum 7.-10. bekkjar og þeir fengu að velja úr uppköstum Antons, hvaða verk yrði fyrir valinu. Í byrjun árs 2021 fá nemendur svo tækifæri til að skoða verkið og kynnast því áður en þeir geta skráð sig í valgreinina.
Strangar reglur og hefðir
Í valgreininni mun Anton fara í gegnum grunnaðferðir við gerð vegglistar, nemendur fá að prófa sig áfram og vonin er sú að þeir geri stórt verk í sameiningu í lokin sem hægt verður að hengja upp/hafa á vegg innan skólans. Samhliða þessu mun Anton kynni fyrir þeim heim vegglistarinnar, sem eins og áður kom fram er frekar hulinn almenningi. Í vegglistasenunni eru strangar hefðir og reglur um hvernig, hvar og hvenær megi mála á veggi. Flestir vegglistamenn bera virðingu fyrir sér og borginni og fylgja ströngustu reglum, til þess einmitt að standa vörð um vegglistasenuna og sporna gegn neikvæðu umtali um hana. Nemendur fá smjörþefinn af þessu öllu í valgreininni
Er ötull við að prófa sig áfram
Anton Lyngdal er fæddur og uppalinn í Reykjavík, hans fyrstu skref inn í listaheiminn voru í gegnum vegglistina, sem hefur svo fylgt honum æ síðan. Samhliða henni stundaði hann fjölbreytt listnám, þar má nefna myndlistarnám við FB, Keramiknám við Myndlistarskóla Reykjavíkur, listnám við Engelsholm højskole i Danmörku og síðast útskrifaðist hann með B.A. í myndlist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam, vorið 2017. Anton hefur haldið þó nokkurn fjölda sýninga, erlendis sem og hérlendis ásamt því að hafa rekið listastúdíó í Rotterdam ásamt vinum sínum eftir útskrift. Anton er ötull við að prófa sig áfram við hin ýmsu listform og hefur undanfarið fundið sig betur og betur í gjörningalistforminu ásamt því að sinna myndlistinni, vegglistinni, skúlptúragerð o.fl. Fyrir síðustu jól gaf Anton út bókina Mr. Awkward Show Presents: Mr. POSER og opnaði sýningu á verkum úr bókinni í Núllinu galleríi við Bankastræti.