Vill ekki meira bráðabirgðahúsnæði

– Starfsfólk leikskóla Seltjarnarness –

Haustið 2018 var sett upp leikskólaaðstaða á Seltjarnarnesi. Hún var sett saman úr þrettán húseiningum af mismunandi stærðum alls rúmlega 300 fermetrar með skrifstofuaðstöðu. Nú er fyrirhugað að bæta við einingum til að geta tekið á móti fleiri börnum. Starfsfólk leikskólans vill ekki fleiri einingarhús.

Starfsfólk leikskóla Seltjarnarness vill ekki meira bráðabirgðahúsnæði. Það telur aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk leikskólans nú þegar af skornum skammti og þoli ekki frekari fjölgun leikskólabarna. Þetta kemur fram í bókun skólanefndar Seltjarnarness sem fram fór fyrir skömmu. 

Í bókun skólanefndarinnar er þörfin á að hafist verði handa við byggingu nýs leikskóla ítrekuð svo horfa megi til lands í því að leysa þörf á húsnæði leikskólans til langs tíma. Fyrirhuguð frekari stækkun sé bráðabirgðalausn og útlit fyrir að sama staða verði uppi á næsta ári við þörf á viðbótarplássi.

Minnihlutinn á Seltjarnarnesi segir í sinni bókun að húsnæði skólans sé löngu komið að þolmörkum og það sama eigi við um langlundargeð starfsfólks. „Fulltrúarnir skora á bæjarráð að virða óskir stjórnenda og starfsfólks leikskólans að ekki verði enn og aftur byggt við leikskólann. Hagsmunir barna leikskólans verða ekki tryggðir með því að þrengja enn frekar að vinnuaðstöðu og leikrými þeirra. Í staðinn óskum við eftir því að allur kraftur verði lagður í að flýta byggingu nýs leikskóla.“

You may also like...