Jasmina til hverfisverkefna í Breiðholti
Jasmina Vajzovic Crnac er ný ráðinn starfsmaður í Þjónustumiðstöð Breiðholts. Hún starfar sem verkefnastjóri hverfisverkefna Breiðholts. Verkefni sem hún er með eru mjög fjölbreytt og þau tengjast öll á einn og annað hátt fjölmenningu í Breiðholti. Eitt af verkefnum sem hún stýrir akkúrat núna er svokallað Sendiherra verkefni. Það verkefni fór af stað í vor og snýr í stuttu máli að því að tengja Þjónustumiðstöð Breiðholts betur við ýmiskonar menningarhópa frá ólíkum löndum sem búa i Breiðholtinu. Til að mynda þá er búið að mynda tengsl og tilnefna nokkra fulltrúa sem gegna sendiherrastöðu sem koma frá ýmsum löndum svo sem Albaníu, Rúmeníu, Tælandi, Póllandi, arabísku- og spænskumælandi fólks.
Markmið með þessu verkefni er að efla upplýsingamiðlun til íbúa af erlendum uppruna en einnig að tryggja að þau fái tækifæri til að koma á framfæri skoðunum og hugmyndum sínum til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Áhersla í verkefninu er lögð á að bæta leiðir til að miðla upplýsingum til erlendra íbúa, að stuðla að frekari virkni með því að bæta þátttöku erlendra íbúa í hverfisþróun og viðburðum. Þetta er einnig mikilvægt til að betrum bæta þjónustu og virkja lýðræði innan þessara hópa. Lykillinn að góðu samfélagi er að nýir Breiðholtsbúar finni að þeir tilheyra og að þeir séu hluti af samfélaginu okkar. Inngilding (e. inclusion) er mjög mikilvæg bæði fyrir erlenda sem og íslenska hópa. Þannig gerum við gott samfélag en betra.
En hvaðan kemur Jasmina?
Jasmina er fædd og uppalin í Bosníu og Hersegóvínu og þar bjó hún til 15 ára aldurs. Árið 1996, eftir að stríðinu lauk í heimalandi hennar kom hún til Íslands ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Þau settust að í litlum bæ á Norðurlandi og fóru að vinna í fiski. Áður en Jasmina kom til Íslands var hún barn á flótta undan stríði í sinu heimalandi ásamt foreldrum sínum. Fjölskylda hennar var ofsótt vegna þjóðernis og líf fjölskyldurnar var erfitt í stríðsástandinu. Ástandið á þeim tíma var mjög þungt og litaðist af ótta alla daga. Sprengjur, vopnaðir hermenn, hungursneyð, andlegt og líkamlegt ofbeldi, skortur á vatni og rafmagni var dagleg brauð í fjögur ár. Hún var mjög fegin og ánægð að komast til Íslands sem innflytjandi og að geta farið að vinna. Móttökurnar á Íslandi voru stórkostlegar fyrir hana og fjölskyldu hennar. Til að mynda tóku allir bæjarbúar sig saman og gerðu upp íbúðina fyrir þau og íbúarnir tóku á móti þeim með opnum örmum. Jasmina fékk ný tækifæri og síðar kláraði hún að mennta sig á Íslandi, stofnaði fjölskyldu og settist að hér til frambúðar. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt með diplómu í opinberi stjórnsýslu. Hún er gift fjögra barna móðir sem elskar að starfa í þágu samfélagsins og þjónusta innflytjendur, flóttafólk og alla viðkvæma hópa sem hafa ekki málsvara. Hún leggur ofur áherslu á það að allir eigi rétt á að vera hluti af samfélaginu og til þess að það verði þá þurfa allir að vera vel upplýstir. Við þurfum að vinna betur að samlögun og það á ekki bara við um innflytjendur að innflytjendur þurfi að aðlagast Íslendingum heldur líka öfugt. Við þurfum öll að læra af hvort öðru og reyna að kynnast fólki og þeirra menningu sem búa í kringum okkur. Samlögun er ekki ein stefna heldur samvinna á milli allra aðila og þá sköpum við fjölmenningarlegt og gott samfélag þar sem öllum líður vel.