Endurborun hafin á vinnsluborholu
Nú er hafin endurborun á einni af aðal hitaveituborholum Seltjarnarness. Það er gert í kjölfar þess óhapps sem varð þann 14. mars sl. þegar dælurör slitnaði við upptekt í vinnsluholu Hitaveitu Seltjarnarness og borholudælan ásamt um 130 metrum af rörum féllu niður í holuna. Með því stífluðust gjöfulustu æðar hennar. Þar með var rekstraröryggi hitaveitunnar ekki fulltryggt og ákváðu bæjaryfirvöld að endurbora holuna til að bregðast við því.
Samið var við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borunina og nota þeir borinn Sleipni til verksins. Auk borverktakans koma margir aðilar að þjónustu og rannsóknum við borunina. Gengið var frá borplani rétt vestan við gömlu holuna og hófst borunin sjálf þann 9. september sl. Áætlað dýpi holunnar er 2200 metrar. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir því að verkefnið taki rétt rúma tvo mánuði. Vonast er til þess að borholan verði komin í gagnið þegar að kaldasti tími ársins gengur í garð. Hitaveitan hefur hins vegar jafnframt gert ýmsar aðrar ráðstafanir til að tryggja rekstraröryggi hitaveitunnar og hámarka afköst annarra vinnsluhola á meðan á framkvæmdunum stendur.