Telja að of mikið eigi að byggja
– Kurr í íbúum í grennd þjónustustöðvar N1 við Ægisíðu –
Kurr er í íbúum í grenndinni við Ægisíðu 102 þar sem þjónustustöð N1 er í dag. Þeir telja telja að borgin sé að opna fyrir of mikla uppbyggingar á lóðinni með breytingum á aðalskipulagi. Þeir furða sig einnig á að Festi hf. fái byggingaréttinn á lóðinni afhentan.
Í breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fram til ársins 2040 er verið að gera ýmsar breytingar á stefnu borgarinnar um íbúðabyggð og skilgreina nýja reiti, marga hverja inni í grónum hverfum, sem uppbyggingarreiti. Nágrönnum við Ægisíðu 102 líst illa á áformin sem borgin hefur sett fram um viðmið uppbyggingar á reitnum. Þeir óttast að lóðarhafinn Festi hf. muni láta skipuleggja þar íbúðabyggð sem rími illa við umhverfi reitsins, til að ná fram hámarki arðsemi byggingarreitsins. Einkum eru það hugmyndir um allt að fimm hæða byggingar og fleiri en 50 íbúðir sem þeir gera athugasemdir við.
Í fjárfestakynningu Festis frá liðnu sumri komi fram að byggingarmagn á reitnum sé áætlað 13 til 15 þúsund fermetrar, en samkvæmt samkomulagi borgarinnar við Festi, sem undirritað var í maí, eru hugmyndir fyrirtækisins um uppbyggingu húsa sem verði á tveimur til fjórum hæðum. Lóðin sem um ræðir er um 6.000 fermetrar að flatarmáli.