Öll verkefni eru velkomin
Emilía Mlynska er nýlega búin að taka að sér að vera sendiherra fyrir pólskumælandi fólk í Breiðholti. Hún hefur búið lengi hérlendis og er ekki á förum. Blaðamaður Breiðholtsblaðsins náði tali af Emilíu á fallegum sólardegi í sumar.
Við byrjum á að spjalla um hennar bakgrunn og lífið áður en hún flutti til Íslands. „Ég fæddist í norðvesturhluta Póllands, í höfuðborginni Szczecin og ólst upp í þorpi sem heitir Olchowo. Fjölskyldan mín er frá vesturhluta Póllands en sunnar, ekki langt frá Þýskalandi. Ég lærði þjóðfræði og mannfræði í Poznań háskóla og bjó áfram þar til því lauk en þá flutti ég til suðausturhluta landsins, sem er allt öðruvísi en vestrið, gerólík menning. Ég bjó alveg við landamæri Úkraínu og vann á útiminjasafni í bænum Sanok. Safnið er svolítið eins og Árbæjarsafn hérna. Þarna vann ég frá 1983 til 1990.“
Frjálslegra fólk í austurhlutanum
Þú nefndir að menningin í Sanok væri ólík þeirri í Pozna, hvernig þá?
„Austurríska keisaradæmið náði yfir þetta svæði og það eimir enn eftir af því. Fólk er frjálslegra og bara gerir hlutina, þetta er öðruvísi en í vesturhlutanum þar sem fólk er lengur að opna sig og fara að tala og gera hluti. Í Sanok var ég að vinna sem þjóð- og mannfræðingur og verkefnið fólst í að setja upp sýningar og taka viðtöl við eldra fólk. Við settum líka upp íbúðir í gömlum húsum, eftirlíkingar af heimilum fólks og lífi þess. Það eru mjög falleg gömul hús þarna og ég mæli með því að fólk skoði þetta ef það á leið til Póllands.“
Kom hingað sem ferðamaður
Að sögn Emilíu stóð ekki til að flytja til Íslands þegar hún kom hingað fyrst. „Ég kom sem ferðamaður árið 1988 og man að ég hugsaði: „Þetta er kannski svolítið kalt.” En fljótlega eftir að ég kom aftur til Póllands fór ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að prófa að flytja hingað. Maðurinn minn, Stanislaw Bartoszek hafði flutt til Íslands þetta ár en ég var bara að heimsækja hann og ekki reiðubúin til að flytja strax. Það var svo gaman í vinnunni, mjög skemmtileg vinna, og staðurinn sem ég vann á er mjög fallegur. Mér leið vel en fór samt líka að velta því fyrir mér hvort ég vildi vera alla ævi á þessum eina stað. Ég var ekki viss um það. Maðurinn minn er fær í tungumálum eins og til dæmis finnsku og norsku. Hann var með mér í Sanok og vann við þýðingar og í viðburðastjórnun. Við vorum líka í sambandi við fólk í Noregi og meðal annars fólk sem vann á útiminjasafni í Ósló. Það komu svo margir til Sanok. Stanislaw er með meistaragráðu í norsku og fékk styrk til að læra meira um gamla menningu í Noregi. Þegar hann hitti Íslendinga í Noregi voru þau alltaf að segja: „Komdu til Íslands“ Hann var líka að vinna í norrænum fræðum og ákvað að læra íslensku. Hann sótti um nám og flutti hingað árið 1988. En eins og áður sagði þá var ég ekki tilbúin að stökkva með honum. Við tókum ekki alveg strax þá ákvörðun að flytja hingað til Íslands.“
Með einn bakpoka og tvö börn
Þegar að ég kom aftur til Póllands eftir heimsóknina hingað fór ég að velta þessu meira fyrir mér. Já, kannski ætti ég bara að skella mér líka til Íslands. Ég skráði mig í Háskóla Íslands og valdi í framhaldi af því að fara í íslensku fyrir erlenda nemendur. Svo dreif ég mig bara og kom hingað í ágúst árið 1990, með einn bakpoka og tvö börn. Maðurinn minn var búinn að undirbúa komu okkar og við fluttum inn í íbúð í hjónagörðum á Eggertsgötu. Og nú er ég búin að búa hér í þrjátíu og eitt ár.“
Í leikskóla í tveimur löndum
„Við vorum þó stundum að íhuga að flytja aftur en það var vanalega út af börnunum. Sonur okkar var átta ára þegar hann kom fyrst til Íslands og það gekk ágætlega. En dóttir okkar sem var þriggja ára lokaði sig af. Við vorum þá ekki endanlega flutt en hún hóf nám í leikskóla sem gekk því miður ekki nógu vel. Ég flutti því aftur með henni til Póllands um hríð og skráði hana í leikskóla þar, svo hún myndi læra út á hvað leikskóli gengur á tungumáli sem hún skildi. Hún var fljót að ná því og sagði „já, ókei, þetta virkar svona.“ Hún lærði á sínu móðurmáli hvernig leikskóli er. Ýmislegt var auðvitað öðruvísi en það var samt enginn rosalegur munur. Síðan fluttum við aftur til Íslands og hún hóf leikskólanám hérna fimm ára gömul. Það gekk vel í þetta skiptið og var bara ekkert mál. Eftir að hún lauk stúdentsprófi hér flutti hún aftur til Póllands og leið rosalega vel. Það var fyrst þá sem hún sagði mér að það hefði verið áfall að flytja hingað.“
Vinnan og námið
Fjölskyldan bjó lengst af í Breiðholti en notaði þó aldrei það orð þegar hún var spurð um búsetu: „Við bjuggum í Seljahverfi“, segir Emilía og brosir. Hún fór sem fyrr segir í háskólann og vann með náminu. „Ég byrjaði í háskólanum og ég vann líka, eins og flestir háskólanemar, ég fékk helgarvinnu á hóteli. Maðurinn minn vann í móttökunni þar og ég í eldhúsinu og í herbergjaþrifum. Ég lauk tveggja ára námi á þremur árum því við vorum með ung börn og ég þurfti að vinna. Ég var heldur ekki á leiðinni að kenna íslensku, ég hugsaði alltaf um mig sem mannfræðing. Að þessu námi loknu skráði ég mig í áfanga þar sem fjallað var um þjóðfræði en tók ekki próf, mætti hins vegar á fyrirlestrana og vann verkefnin.“
Sótti um í Hálsaborg
Emilía átti ekki í vandkvæðum með að fá námið sitt metið hérlendis. „Ég var starfsmaður hjá Reykjavíkurborg og þá fékk ég þetta metið og það var ekkert mál. En starf mannfræðinga felur ekki í sér starfsréttindi og þú færð ekki leyfisbréf, ólíkt til dæmis grunnskólakennurum og námsráðgjöfum. Eftir að ég var búin að búa hér talsvert lengi fór ég til Póllands í framhaldsnám og lærði náms- og starfsráðgjöf. Þetta fékk ég metið hér á einni viku. Nú var ég komin með leyfisbréf og svo fór ég líka á námskeið hjá Mími og Eflingu um atvinnuleit. Þar lærðum við nemendurnir meðal annars að búa til ferilskrá, upplýsingar um hvernig vinnumarkaðurinn er á Íslandi og fleira.“
Nokkrum árum eftir flutninginn til Íslands tóku nýir flutningar við. „Við fluttum í búsetaíbúð í Seljahverfi árið 1994 en þá var maðurinn minn atvinnulaus og ég einungis með helgarvinnuna á hótelinu. Þá sá ég auglýsingu um starf í Hálsaborg og sótti um. Mér fannst ekki erfitt að aðlagast þessari vinnu og háskólanámið gagnaðist mér vel. Ég var eini útlendingurinn í leikskólanum og þar voru engin útlensk börn. Ég var að vinna sem starfsmaður barna almennt en ekki sem sérstakur starfsmaður fyrir sérstök börn. Það gekk vel og ég hitti alla í fjölskyldunni, afi og amma komu oft og sóttu börnin. Ég var líka með hópastarf fyrir fjögurra ára gömul börn.“
Áttaði mig á þörfinni fyrir fjölmenningarlega kennslu
Emilía segir að í starfinu í leikskólanum hafi hún áttað sig á þörfinni fyrir fjölmenningarlega kennslu. „Ég reyndi að tala um fjölmenningu og mér var sagt að „nei, við höfum ekki áhuga á svona.“ En þetta var áhugamálið mitt og það sem ég vildi vinna að. Ég hafði samband við leikskóla í Póllandi og nemendurnir skrifuðu þeim bréf, eða þau sögðu hvað þau vildu segja og við sendum síðan bréfin.“ Eftir að hafa unnið í leikskólanum í þrjú ár hóf Emilía störf í Hjallaskóla sem heitir núna Álfhólsskóli „Það var haft samband við mig vegna barna frá Póllandi af fólki sem var að leita að manneskju sem gæti aðstoðað þau í byrjun. Þannig byrjaði ég starfið mitt í grunnskólakerfinu.“
Mig langaði að hvetja fólk sem býr hérna
Emilía lét ekki staðar numið þar heldur hefur svo dæmi sé tekið kennt Íslendingum pólsku og Pólverjum íslensku. Það er óhætt að segja að hún hafi verið vel undirbúin þegar hún tók að sér sendiherrastarfið. Aðspurð um hlutverk sendiherranna segir Emilía að það felist ekki hvað síst í að hvetja fólk af erlendum uppruna til að sækja viðburði og miðla upplýsingum. „Það er líka meira en í lagi að hafa samband við mig ef það vakna spurningar hjá fólki sem vantar aðstoð eða er óvisst um eitthvað og þá fer ég með þeirra erindi lengra.“ Hún bætir við að stór hluti af starfi sendiherra snúist um að auglýsa það sem er í gangi; „ég auglýsi frístundastarfið mikið á facebook síðum og þá sérstaklega pólskum.“ Samkvæmt henni er mjög gagnlegt í starfi sendiherra að vera í góðu samstarfi við skólana. „Það getur verið auðveldara fyrir mig finnst mér, af því ég heimsæki skóla og ég þekki pólskumælandi starfsfólk þar og er í ágætum samskiptum við þau. Það gefur mér líka tækifæri til að miðla upplýsingum, segja frá viðburðum og spyrja. Jafnvel þegar ég bý ekki lengur í Breiðholti, núna eru Breiðholtsvinir mínir bara á facebook í staðinn fyrir að vera í næsta húsi.”
Hvaða markmið hefur þú sem sendiherra og þá fyrir sendiherraverkefnið?
„Þegar ég talaði við verkefnastjóra sendiherraverkefnisins þá sagði ég frá því að mig langaði að hvetja fólk sem býr hérna í hverfinu og annars staðar, miðla upplýsingum og gera þetta jákvætt fyrir alla. Það er mikið um að vera í hverfinu og ég vil að fleiri hópar geti tekið þátt.“ Emilía nefnir jafnframt að með sendiherraverkefninu sé hægt að ganga inn í og hjálpa til við sumt af því sem fólk af erlendum uppruna þarf að takast á við í nýju landi. Barnafjölskyldur eru hópur sem hún einbeitir sér mikið að. „Skólakerfið er eitt af áskorunum sem erlendar fjölskyldur þurfa að takast á við þegar þær koma hingað. Ekki síst ef þau eru með börn og einnig ef börnin eru fædd hér. Þetta hefur breyst á síðustu árum, það er meiri áhersla á íslensku sem annað mál núorðið.“
Breiðholt er skemmtilegt og fjölbreytt
Emilía er flutt úr Breiðholti og býr nú í Hlíðunum. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hún sé á kafi í sendiherrastarfinu enda samskipti ekki lengur jafn nátengd búsetu og áður var. „Það er öðruvísi stemmning í Hlíðunum en í Seljahverfinu og báðir staðir hafa sína kosti og galla, eins og alltaf er. Það sem ég sakna frá Breiðholtinu er kannski helst útivistarsvæðin sem eru mjög góð. Á móti kemur að það er frekar tímafrekt og sums staðar erfitt að vera bíllaus í Breiðholti. Ég nota mikið strætó en ef fólk vill skreppa til dæmis í á veitingahús að kvöldi til þá er það meiri framkvæmd en fyrir fólk sem býr í Hlíðunum. Ég þekki líka nágranna mína betur í hverfinu þar sem við búum núna, en það breytir því ekki að Breiðholtið er skemmtilegt og fjölbreytt og þjónustan er góð.“
Að vera pólskumælandi á Íslandi
Að sögn Emilíu hefur margt breyst í hópi pólskumælandi fólks á Íslandi síðan hún flutti til Íslands í upphafi tíunda áratugarins. „Þetta er ekki eins og áður. Fyrir um tuttugu árum hittumst við reglulega í Gerðubergi, á þjóðhátíðardegi Póllands vorum við með viðburði og samfélagið okkar var mjög virkt. Ég myndi ekki segja að allt sé dottið niður en núorðið er ekki jafnmikil þörf. Fólki líður vel á Íslandi og ef einhverjum líður illa þá flytja þau bara aftur til Póllands. Konur eru ekkert innilokaðar eins og meira var um áður, þær eru allar að vinna og í tengslum við samfélagið. Hér eru um tuttugu þúsund pólskumælandi og ég er tengiliður fyrir þennan hóp vegna sendiherraverkefnisins. Mér finnst þetta verkefni mjög mikilvægt og hef góða reynslu af því líka í fyrri störfum að koma að ráðgjöf og vera með í að mynda tengsl og sinna fjölbreyttum verkefnum. Ég gef fjölda fólks símanúmerið mitt og það er aldrei misnotað“, segir Emilía og brosir.
Við Pólverjar byrjum rólega en bætum svo í
Eins og alltaf þegar fólk flytur á milli landa er margt sem þarf að læra á, venjast og skilja. Aðspurð um hvort hluti af starfinu hennar felist í að styðja börn sem finnst erfitt að aðlagast, segir Emilía að svo sé. „Já, þetta kemur vissulega fyrir. Íslendingar nálgast uppeldi með svolítið öðrum takti en Pólverjar og leyfa börnunum sínum til dæmis meira en hækka fljótt róminn ef eitthvað er. Við Pólverjarnir byrjum hins vegar rólega og bætum svo í með því að segja „ekki gera svona“ og útskýra svo af hverju. Íslendingar setja reglur en fara ekki endilega eftir þeim. Í hjónagörðunum voru börnin alltaf hlaupandi um og öskrandi. Einu sinni var því sett regla um að „börn mega ekki vera á göngunum eftir klukkan átta.“ Klukkan fimm mínútur í átta kölluðum við á börnin okkar inn en íslensku börnin héldu áfram að hlaupa á göngunum. Í Póllandi er það fjölskyldan sem ræður yfir sínum börnum, það eru nokkurs konar óskráðar reglur. Hluti af aðlöguninni sem fólk gengur í gegnum þegar flutt er til annars lands er að læra á reglurnar og óskráðu reglurnar sem fylgja þeim. Þetta getur stundum tekið á.“
Blaðamaður spyr Emilíu í lokin hvernig hún sjái sendiherraverkefnið fyrir sér í framtíðinni og fær óvænt svar. „Ég vona að allir verði sjálfbjarga og geti lifað sínu lífi og nálgast þær upplýsingar og þjónustu sem þau kjósa og þurfa án þess að þurfa tengilið.“ Það má því kannski segja í framhaldi af þessum lokaorðum að endanlegur tilgangur sendiherraverkefnisins og um leið til marks um velgengni þess sé: Að verða óþarft.
Þórhildur Vígdögg