Margt er á herðum bæjarins
– Opinn íbúafundur um fjármál Seltjarnarnesbæjar –
Sjálfstæðisfélag Seltirninga stóð fyrir opnum íbúafundi um fjármál Seltjarnarnesbæjar þann 2. nóvember sl. Fundinum var ætlað að varpa ljósi á raunstöðu bæjarsjóðs án upphrópana eða pólitísks áróðurs. Örn Viðar Skúlason formaður félagsins stýrði fundi og formælendur voru þau Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, og Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs.
Ásgerður tók fyrst til máls og rakti ýmis lögboðin verkefni sem bænum ber að sinna samkvæmt lögum. Félags- og fræðslumál skipa þar stærstan sess eða um 85% af útgjöldum bæjarins en Ásgerður tók fram að bærinn sinnti þeim málaflokkum af ábyrgð og stolti.
Framkvæmdir og endurbætur
Ásgerður fjallaði því næst um ýmsar framkvæmdir á vegum bæjarins undanfarin ár. Oft vill gleymast í umræðunni hvað er og hefur verið gert. Helst má nefna hjúkrunarheimilið Seltjörn, fimleikahús, endurnýjun á Mýrarhúsaskóla, endurbætur á heilsugæslustöð, uppbyggingu sjóvarnargarða, endurnýjun borholu, bætt umferðaröryggi og margt fleira. Að lokum reifaði Ásgerður hvaða verkefni bíða bæjarins en þar má nefna nýja íbúabyggð við Bygggarða og sambýli á Kirkjubraut. Ásgerður kvaðst vera stolt af sínum störfum og sagði að Seltjarnarnesbær væri öflugt bæjarfélag.
Krónur og aurar
Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs tók næstur til máls og fór ofan í kjölinn á efnahag bæjarins. Seltjarnarnesbær er með fjórðu hæstu útsvarstekjur á íbúa á landinu þrátt fyrir að útsvarið sé lægra en víðast hvar eða 13,7%. Til til samanburðar er útsvarið í Reykjavík í lögbundnu hámarki, 14,52%. Þessi munur skilar venjulegri fjölskyldu í bænum um 100 þúsund krónum meira í pyngjuna á ári hverju.
Hvaðan koma peningarnir?
Tekjur bæjarsjóðs, svonefnds A-hluta, án t.d. hitaveitunnar, eru 4.357 millj. kr. á ári. Útsvars- og fasteignaskattur standa undir 78% af þeirri fjárhæð eða 3.404 m.kr. en aðrar tekjur 14% og framlög úr jöfnunarsjóði 7%. Þess er að geta að Seltjarnarnesbær er með lægsta álagningarstuðul fasteignaskatts á landinu eða 0,175% sem er afar mikilvægt í ljósi nærri því gegndarlausra verðhækkana á fasteignamarkaði undanfarin ár.
Í hvað fara peningarnir?
Þyngst vega fræðslumál, þ.e. skólar og leikskólar, eða 56%, en félagsþjónusta útheimtir 17% af útgjöldum bæjarins. Æskulýðs- og íþróttamál fylgja fast á eftir með 15%. Má með sanni segja að tekjum bæjarins sé að miklu leyti ráðstafað fyrirfram með þeim verkefnum sem bænum eru falin lögum samkvæmt.
Magnús Örn fjallaði um ýmsar áskoranir sem bærinn hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár. Launagjöld, sem eru um 60% af útgjöldum, hafa hækkað umtalsvert en Magnús áréttaði að bærinn kveinkaði sér ekki undan því. Hlutur félagsþjónustu hefur aukist talsvert og þá hefur heimsfaraldur kórónuveirunnar sett verulegt strik í reikninginn.
Staðan er góð
Magnús Örn lagði áherslu á að staða bæjarsjóðs væri, þrátt fyrir allt, góð. Engin langtímalán hefðu verið tekin á síðasta ári og veltufé frá rekstri hefði numið 250 milljónum króna. Fyrir leikmenn þýðir það að bærinn er ekki rekinn á lántökum. Til samanburðar má benda á nágranna okkar í Reykjavík þar sem skuldir hafa aukist um 70% á síðasta áratug og um þriðjung, eða 100 milljarða króna á einungis fjórum árum.
Áætlaður halli á rekstri bæjarins árið 2021 er 200 millj. kr. sem ber ríkan keim af COVID-19 faraldrinum líkt og í fyrra en þá var beinn kostnaður vegna faraldursins 170 millj. kr. Magnús sér hins vegar fyrir sér viðspyrnu framundan samfara hagvexti og hærra atvinnustigi.
Eignir bæjarins
Eignir bæjarins eru 9.670 millj. kr. en skuldir 2.770 millj. kr. Að teknu tilliti til a) samnings um rekstur hjúkrunarheimilisins, og samnings við Reykjavíkurborg um fimleikahúsið eru nettó skuldir bæjarins 1.200 m.kr. Lántökur bæjarins skýrast af byggingu þessara mannvirkja auk uppgjörs við lífeyrissjóðinn Brú vegna SALEK samkomulagsins.
Skuldaviðmið er 58% af hámarki
Skuldaviðmið bæjarins er 67% en rétt er að geta þess að hámarkið er 150%. Allt tal um að bærinn sé „á hausnum“ er haldlaust að mati Magnúsar. Staðan gæti hins vegar verið virkilega slæm ef ekki hefði verið haldið vel á málum gagnvart t.d. hjúkrunarheimili, fimleikahúsi og Læknaminjasafni.
Framundan eru ýmis verkefni, svo sem búsetukjarni fyrir fólk með fötlun, nýr leikskóli, Gróttubyggð við Bygggarða ásamt ábyrgri fjárhagsstjórn.
Spurningar úr sal – skattamál og leikskóli
Af mörgum beittum spurningum má helst nefna þessar. Aðspurð um hækkun útsvars og eða fasteignaskatts sögðu Ásgerður og Magnús Örn að ekki væri á stefnuskránni að auka álögur á íbúa.
Spurt var um nýjan leikskóla og kom skýrt fram að hann væri næstur á dagskrá. Ýmislegt hefði tafið það mál, t.d. sú staðreynd að þau plön sem lagt var upp með, þ.e. nýjan 300 barna leikskóla, myndu líklega kosta yfir 3,5 milljarða kr. og það væri hreinlega alltof stór biti fyrir bæinn. Skynsamlegra væri að byggja 150 barna leikskóla fyrir liðlega 1 milljarð kr. til að byrja með og nýta Mánabrekku sem var opnuð 1996 eitthvað áfram. Á fundinum kom fram mikil ánægja með nýjan ungbarnaleikskóla frá foreldrum.
Fundurinn þótti takast vel en greinilegt er að umræðu um fjármál bæjarins lýkur víst aldrei.