Frumkvöðlabúðir fyrir nemendur í FB

FB tekur þátt í ýmsum samstarfsverkefnum með styrk frá Erasmus+, samstarfsáætlun Evrópusambandsins. Eitt þeirra verkefna eru svokallaðar frumkvöðlabúðir fyrir nemendur og hefur FB tekið þátt í slíkum verkefnum mörg undanfarin ár. Nýja verkefnið heitir á ensku ” European Voice of Tomorrow” og taka framhaldsskólar frá Portugal, Ítalíu, Noregi, Finnlandi auk Íslands þátt.
Á næsta ári munu nokkrir nemendur FB fara ásamt kennurum í eina viku í senn til þessara landa og vinna að nýsköpunarverkefnum. Á dögunum var haldinn undirbúningsfundur í Lissabon í Portúgal og fyrir hönd FB fóru þær Ágústa Unnur Gunnarsdóttir, kynningarstjóri og alþjóðafulltrúi, Þórdís Steinarsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur og Sigríður Ólafsdóttir listnámskennari. Verður gaman að fylgjast með þessu spennandi verkefni sem hefst í byrjun árs 2022.