Það er ekki langt í vorið
Ágæta Breiðholtsblað, mig undirritaðri langar að senda þér nokkrar línur frá fjölskyldumiðstöðinni Gerðubergi, einkum til að minna þig og þína frábæru lesendur á tilvist okkar … en svo er líka í aðra röndina nauðsynlegt að baða sig í sviðsljósinu af og til.
Eins og flestum er kunnugt hafa breytilegar fjöldatakmarkanir vegna Covid sannarlega sett svip sinn á starf fjölskyldumiðstöðvarinnar. Starfsfólk, leiðbeinendur og þátttakendur í starfseminni hafa tekið því með jafnaðargeði þegar þurft hefur að fresta eða jafnvel aflýsa viðburðum og dagskrárliðum til lengri eða skemmri tíma. Sama var upp á teningnum þegar veður og færð tóku að hefta aðgang okkar að fjölskyldumiðstöðinni hér í „efri byggð“, við tókum því með miklu æðruleysi (og hetjuskap), enda rættist mjög fljótlega úr málum. Ég veit, ég veit, einhverjum kann að finnast fyndið að ég nefni þetta. Hef t.d. heyrt Norðlending segja að við Reykvíkingar vitum ekki hvað ófærð og veðurteppa sé. Rætt var einmitt um það hér í félagsstarfinu á dögunum af miklu raunsæi, að við séum orðnir góðu vanir, Reykvíkingar, enda nokkuð langt síðan að snjóaði eitthvað að ráði hér í bænum. Raunar kom í ljós, að við munum betur allt það sem á góðviðrisdaga okkar hefur drifið. Hvað um það, við ráðgerum að hreyfa okkur og dansa fram í bjartari tíma. Zumbadansleikfimin með Auði Hörpu, sem verið hefur í biðstöðu, er að hefjast aftur og sömuleiðis er línudansinn aftur kominn á dagskrá, að ónefndum göngu- og leikfimihópnum okkar sjálfbæra, sem kemur saman tvisvar í viku. Ánægjulegt er að geta þess, að íbúaráð Breiðholts hefur samþykkt að veittur verði styrkur úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að halda hér í fjölskyldumiðstöðinni styrktar- og hreyfinámskeið fyrir eldra fólk á komandi vordögum. Námskeiðið nefnist „Inni- og útifjör“ og er í umsjón tveggja íþróttakennara. Í stuttu máli stendur það námskeið fyllilega undir nafni, er bæði fjörugt og heilsueflandi. Þá fær Gerðubergskórinn okkar styrk úr „Heita pottinum“ og eigum við líklega von á góðum vortónleikum. Kórinn býður nýliða velkomna, fleiri raddir eru vel þegnar. Það er svo margt skemmtilegt framundan hjá okkur í félagsstarfinu, að ég þarf að senda þér kæra Breiðholtsblað aftur nokkrar línur þegar vordagskráin kemur út. Hér hef ég einungis nefnt brot af starfsemi fjölskyldumiðstöðvarinnar. Að lokum, ég fór inn í Búkollulaut áðan og spurði konurnar, sem koma nær daglega til að gera handavinnu, spjalla, lesa blöðin og síðast en ekki síst til að drekka kaffi og njóta góðrar samveru, já sem sagt ég spurði þessar ágætu konur hvað þær vildu segja við lesendur Breiðholtsblaðsins. Ekki stóð á svari: Það er ekki langt vorið, hér er alltaf pláss fyrir fleira fólk – við erum svo skemmtilegar.
Með kærri kveðju og von um gott og gefandi vor- og sumarstarf. Ég vil og ítreka, að við viljum gjarnan sjá sem flesta Breiðhyltinga taka þátt í því sem í boði er og koma fram með tillögur og óskir um nýbreytni. – Já og bæ bæ Covid.
Álfhildur Hallgrímsdóttir, starfsmaður fjölskyldumiðstöðvar og umsjónarmaður í félagsstarfi.