Við finnum öll mikinn mun
– segja Gunnhildur Skaftadóttir, Þorsteinn Stefánsson, Margrét Kristjánsdóttir og Arnþrúður Halldórsdóttir sem taka þátt í verkefninu Leið að farsælum efri árum –
Hópur heldri borgara á Seltjarnarnesi hefur að undanförnu tekið þátt í heilsueflingarverkefni sem kallast Fjölþætt heilsuefling 65+ – Leið að farsælum efri árum. Verkefnið er á vegum Seltjarnarnesbæjar og Janusar heilsueflingar sem er ráðgjafa- og þjónustufyrirtæki og vinnur að betri lífsgæðum fyrir eldri borgara. Verkefnið snýst um lýðheilsutengt inngrip; að fá fólk til þess að hreyfa sig á markvissan hátt með heilsutengdar forvarnir að leiðarljósi. Starfið með eldri borgarahópnum fer fram í líkamsræktarstöð World Class á Seltjarnarnesi og náttúrulegu umhverfi bæjarins og hefur Ingvi Guðmundsson MSc-íþróttafræðingur og heilsuþjálfari hjá Janusi heilsueflingu yfirumsjón með verkefninu. Nesfréttir fengu nokkra úr hópnum til skrafs ásamt Ingva þjálfara. Þau sem komu til fundar auk Ingva voru Gunnhildur Skaftadóttir, Þorsteinn Stefánsson, Margrét Kristjánsdóttir og Arnþrúður Halldórsdóttir.
Ingvi segir að unnið hafi verið að þessu verkefni í samstarfi við Seltjarnarnesbæ frá því á síðasta ári. „Við ætluðum að fara fyrr af stað árið 2020 en Covid-faraldurinn var aðeins að stríða okkur. Við urðum því að sitja aðeins á okkur vegna sóttvarna. Í maí á liðnu ári fórum við af stað með um 50 manna hóp og fyrir skömmu síðan vorum við að bæta við um 30 manns nú í mars mánuði. Við æfum saman þrisvar sinnum í viku. Einu sinni í viku er þolæfing og styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku en þar liggur megin áherslan í verkefninu. Með styrktarþjálfun erum við að halda á móti aldurstengdri vöðvarýrnun en einnig að vinna á móti stirðleika en með hækkandi aldri minnkar dagleg hreyfing sem kallar á stirðleika og minnkandi afkastagetu. Mikil kyrrseta flýtir fyrir hrörnun líkamans og við erum að vinna gegn því eða hægja á hrörnuninni. Styrktarþjálfunin beinist einkum að þessu atriði heilsueflingarinnar en með henni erum við að gefa vöðvunum verkefni við hæfi.“ Ingvi segir að auk þess að hópurinn mæti þrisvar í viku sé markmiðið að virkja þau til þess að stunda sína eigin hreyfingu og eru mörg þeirra búin að vera mjög dugleg að stunda hana. „Við hvetjum þau til þess að halda áfram sinni hreyfingu eins og að ganga, synda, dansa eða annað. Markmiðið er einnig að gera þátttakendur sjálfbær á eigin þjálfun og því til stuðnings fá þau sextán fræðsluerindi um fjölbreytta heilsutengda þætti á tveggja ára heilsueflingarferli.“
Hefði ekki mokað svona miklum snjó
Gunnhildur segir að sér hafi líkað mjög vel í þessu prógrammi. „Þetta er búið að vera eins og happdrættisvinningur fyrir mig. Ég finn mikinn mun á mér,“ segir hún og hin bæta við í kór að þau séu öll að yngjast bæði á líkama og sál. Þorsteinn nefnir dæmi. „Ég var búinn að vera að saga tré í garðinum. Þegar ég fór aftur í garðinn á liðnu sumri fannst mér ég finna mun minna fyrir allri áreynslu en áður. Líkaminn var orðinn sterkari og ég þreytist líka minna. Ég fann mikinn mun á mér þegar ég var að fást við líkamlega vinnu.“ Gunnhildur bætir við að fyrir ári síðan hefði hún ekki mokað þennan mikla snjó sem hún sé búin að gera að undanförnu. Breytingin sé mikil. „Maður er svo miklu styrkari,“ segir Þorsteinn. Margrét bætir við ánægjunni af að mæta á æfingar. „Ég finn ánægjuna strax þegar ég kem inn í salinn.“ Arnþrúður bætir við hversu áhrifin séu góð bæði á líkama og sál. „Að vera í skipulögðu starfi verður til þess að maður mætir, tekur þátt og gerir hlutina rétt og skynsamlega.“ Þau taka öll undir að félagsskapurinn togi í. Að hitta annað fólk reglulega og gera eitthvað saman sé hluti af verkefninu. Margrét segir að eftir að vera búin að venjast þessari tegund að heilsueflingu myndi manni hundleiðast að hafa ekki þetta verkefni. „Fólkið í hópnum verða vinir manns.“
Sérðu ekki hvað við erum hress
Þorsteinn segir að þetta sé búið að hressa þau flest ef ekki öll við. „Sérðu það ekki hvað við erum hress,“ segir hann og brosir framan í hópinn. Margrét bætir við að þau hafi aðeins skánað að því leyti frá því í fyrra. Þau hlæja. Arnþrúður segir að þessi árangur sé einnig þjálfaranum að þakka. „Ingvi er einstakur. Ég hef hann grunaðan um að hafa auga í hnakkanum.“ Ingvi snýr sér við og segir að það sé klippingin. Hún hafi opnað augað á hnakkanum. Þau segja að það þýði ekki að svindla. Til dæmis að gera færri æfingar en prógrammið segir til um. „Hann tekur eftir því glymur fjórraddað.“ Ingvi segir að þetta sé eins og önnur kennsla. Fylgjast verði með nemendunum. Margrét segir að þetta sé kannski aðeins ímyndun hjá þeim en þau vilji alls ekki svíkja hann.
Hafa búið lengi á Nesinu
En eru þau búin að búa lengi á Nesinu. Þrjú þeirra hafa búið á Seltjarnarnesi í áratugi. Frá því að hafa verið þar í yfir 40 ár. Arnþrúður hefur búið þar skemur eða í tólf og hálft ár á Nesinu. „Við eru orðin eða að verða Seltirningar,“ segir Þorsteinn. „Er ekki talað um að það taki 25 ár að komast inn í þann hóp. Að verða innfæddur.“ Margrét rifjar upp að þegar hún var að koma á Nesið hafi lóðir verið til sölu. Á þeim tíma hafi ekki verið auðvelt að fá lóðir í Reykjavík. „Maður bara stökk á þetta.“
Mikið af hæfileikaríku fólki
Þau snúa sér að félagsstarfinu. Nefna skemmtilegar ferðir sem hafa verið farnar með heldri borgurum. Meðal annara í Kríunes. Þau segja að oft myndist kunningsskapur á milli fólks sem hafi ef til vill ekki þekkst áður. Arnþrúður minnist þess að hafa hitt konu frá öðrum landshluta í ferðinni í Kríunes. Þótt þær væru af sömu slóðum, af norðausturhorninu, hafi hún ekki vitað að hún væri til. Margrét var húsvörður á Skólabrautinni um tíma og segir að það sé svo skemmtilegt fólk að sig hafi langað að halda áfram að vera í þessu húsi. Þau eru öll þátttakendur í fjölbreyttu félags- og tómstundastarfi sem er í boði. Segja að kóvitið hafi aðeins stoppað félagsstarfið þegar fólki hafi verið ráðlagt að hafa sem minnst samskipti vegna smithættu. Arnþrúður segir að á Skólabrautinni sé mikið af hæfileikaríku fólki sem stundi handavinnu. Margrét nefnir leirinn hjá Rögnu Ingimundardóttir. Hún annast kennslu í að móta úr leir auk þess að sjá um handavinnuna. „Ragna er mikill listamaður og ég held að fólk geti fundið allt við sitt hæfi.“ segir Margrét.
Biljard en enginn bjór
Þorsteinn nefnir biljard hópinn „Það verður að koma fram að þetta snúist ekki allt um handavinnu. Það er billiard karla hópur sem hittist tvisvar í viku,“ segir Þorsteinn. Enginn bjór er þó á billanum hjá þeim enda hittast þeir fyrir hádegi. Bridgehópur var starfandi um tíma en hann lagðist af í kóvid og hefur ekki verið endurreistur enn sem komið er, hvað sem verður. Þorsteinn víkur að því sem hann kallar Janusar dæmið. „Maður er allt í einu farin að kynnast fólki upp á nýtt og jafnvel nýju fólki. Líka Seltirningum sem maður hefur vitað af en hefur ekki séð í mörg ár.“ Arnþrúður segir það flott hjá bæjarfélaginu að styrkja þetta verkefni. Þorsteinn bætir við að þol- og styrktaræfingarnar í World Class hafi orðið til þess að maður hafi orðið virkari. Fari til dæmis meira út að ganga. „Maður er hvattur til að fara út að ganga hina dagana þegar þjálfari er ekki til staðar. Maður undirbýr sig líka fyrir þetta til dæmis með því að kaupa skó með broddum og huga betur að næringunni. Þetta hefur breytt mjög miklu,“ segir Þorsteinn.
Heldur fólki saman
Ingvi segir að félagslegi þátturinn skipti miklu máli. „Ég hef fundið það í þessu starfi.“ Og þau taka undir. Segjast hafa verið að hitta allskonar fólk. Oft fólk sem búi ekki á Seltjarnarnesi. Þetta tengi marga saman. Þorsteinn segist hafa hitt skólasystkini barnanna sinna. Fólk sem hann hafi ekki séð í mörg ár. Aðstaðan á Nesinu sé líka frábær. Sundlaugin í næsta húsi við líkamsræktarstöðina. Auðvelt að skreppa í sund eftir heilsueflinguna og svo að fara í pottana. Þar hittist fólk líka oft og spjalli saman. „Þetta starf bindur fólk mikið saman. Þetta er allt annað en að vera kannski heima í rúmi eða að horfa á sjónvarpið,“ segir Þorsteinn. Ingvi bætir við að þetta sé hugsunin að baki þessu verkefni. Það snúast ekki aðeins um að hreyfa sig heldur líka að sýna sig og sjá aðra og blanda geði við aðra þátttakendur.