Vilja aftur grenndarstöð á Nesið
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar vilja að komið verði upp grenndarstöð að nýju á Seltjarnarnesi. Engin grenndarstöð er þar eftir að bæjarstjóri lét fjarlægja grenndarstöðina á Eiðistorgi.
Starfshópur um grenndarstöðvar hefur lagt til að sveitarfélög komi á laggirnar neti af smærri og stærri grenndarstöðvum til að hirða aðra úrgangsflokka sem skv. lögum þarf að hirða í nærumhverfi íbúa. Áhersla verði lögð á staðsetningar sem eru þægilegar og öruggar fyrir gangandi vegfarendur og í alfaraleið fyrir aðra. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að áfram verði engin grenndarstöð eftir samþykkt samkomulagsins. Næsta grenndarstöð fyrir Seltirninga er staðsett við JL húsið sem er í 800 til 2560 metra fjarlægð frá íbúðarhúsum Seltirninga.
Bæjarfulltrúarnir Guðmundur Ari Sigurjónsson, Sigurþóra Bergsdóttir og Karl Pétur Jónsson styðja samþykkt samkomulagsins en furða sig á að Seltjarnarnesbær muni skrifa undir án þess að ætla sér að uppfylla markmið samkomulagsins. Þau leggja því til að samhliða undirritun samkomulagsins útbúi bæjarstjóri í samstarfi við skipulagssvið sviðsmyndir hvernig hægt væri að uppfylla skilyrði samkomulagsins og vísi sviðsmyndunum til umræðu í fagnefndum bæjarins. Með öðrum orðum að koma á ný upp grenndarstöð á Nesinu.