Færði Seljahlíð verk að gjöf
Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari færði Seljahlíð heimili aldraðra í Breiðholtið verkið Mann og konu, steyptu í ál. Frummynd verksins er frá 1968 og er í eigu Listasafns Íslands. Hallsteinn er sjálfur fluttur í Seljahlíð en stundar enn vinnu sína og listsköpun og fer í vinnustofuna við Ystasel. Hann er einn þeirra sem byggðu við þá götu sem ætluð var listafólki og hún er hönnuð sem sambland af íbúðarhúsnæði og vinnustofu og sá síðasti sem flytur úr götunni. Hallsteinn er bróðursonur Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og í verkum hans má víða finna skyldleika við agaðan módernisma Sigurjóns Ólafssonar frá því á sjöunda áratugnum. Hallsteinn hefur verið afkastamikill í gegnum tíðina eins og sjá má við heimili hans í Ystaselinu og í höggmyndagarði hans í Gufunesi.
Jón Proppe listfræðingur skifaði formála í sýningarskrá Hallsteins árið 2006 og þar segir meðal annas. „Verk Hallsteins Sigurðs-sonar eru nokkuð sér á parti í jurtagarði íslenskrar höggmyndalistar þar sem þó er allfjölbreytt flóra. Höggmyndir Hallsteins unnar í málm eru opnar og léttar í efni og formi. Það má segja að hann teikni fram rýmið og hann notar gjarnan til þess létta teina og málmplötur sem hann sýður saman en hefur eins mikið loft og innra rými og hægt er. Formbyggingin er naum og rétt nægileg til að ná tilgangi sínum en að því leyti mætti kalla verkin eins konar minimalisma, sér í lagi verkin þar sem endurtekin eða hnígandi form draga athyglina að rúmfræði byggingarinnar. Hallsteinn er trúr sínum efnivið, notar járn og stundum ál, en hins vegar dregur hann ávallt úr vægi efnisins, öfugt við það sem nú tíðkast iðulega, og sækist frekar eftir gegnsæi svo innri bygging verkanna verði sýnileg. Þessi áhersla á formbyggingu og léttleiki verkanna valda því að þau virðast hljóðlát samanborið við mikið af höggmyndalist samtímans þar sem lagt er upp úr því að fanga örugg-lega athygli áhorfandans.“