Fyrsta íbúðarhúsið Svansvottað
Þingholtsstræti 35 í Reykjavík er fyrsta íbúðarhúsnæðið sem hlotið hefur Svansvottun fyrir endurbætur hér á landi. Gísli Sigmundsson tók við vottuninni fyrir Auðnutré ehf. Hann keypti húsið í september árið 2020 með það að markmiði að fá Svansvottun fyrir endurbæturnar.
Áður en hægt var að ráðast í endurbæturnar þurfti að framkvæma ákveðnar úttektir til þess að tryggja gæði endurbótanna, réttan farveg úrgangs og fleira. Á Svansvottunin að tryggja að umhverfislegur ávinningur af verkefninu sé umtalsverður en í slíkum endurbótaverkefnum á mikil áhersla að vera lögð á að nýta það sem hægt er. Húsið var í lélegu ásigkomulagi þegar framkvæmdir hófust samt var hægt að nýta burðarvirkið ásamt gólfefni í forstofu og stiga innandyra. Húsið er á þremur hæðum og stendur í einum elsta hluta borgarinnar. Allt byggingarefni sem féll frá húsinu var vandlega flokkað og komið í endurvinnslu og réttan úrgangsfarveg, að því er fram kemur í tilkynningu Svansins. Rakel Elva Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansins sagði gaman að segja frá því að þetta væri fyrsta íbúðarhúsið sem hljóti Svansvottun samkvæmt endurbótaviðmiðunum þegar afhendingin fór fram.