Sé ekki eftir að hafa látið þetta eftir mér
— Séra Örn Bárður Jónsson spjallar við Vesturbæjarblaðið —
Séra Örn Bárður Jónsson var lengi prestur í Neskirkju í Vesturbænum en árið 2014 ákvað hann að snúa blaðinu nokkuð við og halda til Noregs þar sem hann sinnti prestsstörfum um árabil. Hann sneri til baka þegar hann fór á eftirlaun en hefur ekki verið laus við prestsverk síðan. Hann sinnir athöfnum nánast stöðugt. Mikið er leitað til hans með jarðarfarir enda þekkir maðurinn víða til og er vinmargur. Örn Bárður er Ísfirðingur að ætt og uppruna. Hann lauk guðfræðisprófi frá Háskóla Íslands 1984 og hefur stundað framhaldsnám í guðfræði í Bandaríkjunum en hafði einnig numið í Bretlandi áður fyrr. Hann varð aðstoðarprestur í Garðasókn 1984 og sóknarprestur í Grindavík 1985. Árið 1990 varð hann verkefnastjóri á Biskupsstofu og fræðslustjóri kirkjunnar frá 1995. Árið 1999 leysti hann af sem prestur í Neskirkju og var skipaður í það embætti 1. október 2002 þar sem hann starfaði í 14 ár. Séra Örn Bárður settist niður með Vesturbæjarblaðinu á Kaffi Tári á dögunum og fyrst bar á góma af hverju hann fór til Noregs.
„Þetta byrjaði árið 2014. Ég hafði haft mikið að gera. Var orðinn ofhlaðinn af verkefnum og fann að ég þyrfti að taka mér einhverja hvíld. Fara í námsleyfi eða annað. Breyta eitthvað til. Ég átt tal við Agnesi Sigurðardóttur biskup og sagði við hana að nú þyrfti ég að komast í námsleyfi eða þá að fara til Noregs og leysa af. Þar væri minna vinnuálag. Hún tók þessum hugmyndum vel. Skildi að ég þyrfti að komast í leyfi og sagði mér að gera það sem ég vildi. Hún myndi redda afleysingu fyrir mig. Eftir þetta fór ég í ferð til Noregs og heimsótti prófastsdæmi þar sem var laus staða og bauð fram krafta mína. Mér var vel tekið og fékk stöðu héraðsprests þar til eins árs. Þá þurfti ég ekki að bera ábyrgð á einum söfnuði heldur að starfa með prófastinum, ferðast á milli söfnuða og leysa presta af eftir því sem þurfti. Ég var verkefnaráðinn eins og það er kallað. Ég þurfti ekki að vera með fermingarbörn eða bera ábyrgð á söfnuði. Ég var þarna í eitt ár og kunni vel við mig. Ég gat alveg hugsað mér að starfa áfram í Noregi.“
Fjögur ár við Neskirkju í Ringsaker
Örn Bárður segist því hafa farið að líta í kringum sig eftir öðru starfi sem hafi endað með því að hann sótti um prestsstarf við kirkju sem heitir Neskirkja. „Þetta var skemmtileg tilviljun. Þessi söfnuður er í Ringsaker sem er á Heiðmerkursvæðinu. Nesið sem er stendur nesi gengur út í stærsta stöðuvatn í Noregi eða það sem Norðmenn kalla innsjø og heitir Mjösa. Kirkjan er á sömu breiddargráðu og Hamar, bær sem er austar í Noregi og Gjövik sem er vestan við. Ég bjó í bæ sem heitir Brummunddal, nefndur eftir á sem rennur við bæinn. Ég var fyrst í Valdres og síðan þarna á Nesinu í fjögur ár þannig að ég starfaði í fimm á í Noregi.“ Örn Bárður segir að eftir þessa reynslu telji hann gott fyrir Íslendinga að búa um tíma í Skandinavíu. „Helst ættu sem flestir að prófa það. Gott væri fyrir Íslendinga að kynnast einni af þessum frændþjóðum okkar, Noregi, Danmörku eða Svíþjóð og ná tökum einu af Norðurlandamálunum sem eru öll skyld og í raun lík. Þessar þjóðir er svo skyldar okkur en þær eru stærri og öflugri og síðast en ekki síst skipulagðri. Þetta kemur vel fram í kirkjunni. Kirkjan er byggð upp með öðrum hætti. Prófasturinn er verkstjóri prestanna. Þeir vinna undir hans stjórn. Þess var gætti að maður keyrði sig ekki um of. Tæki út sín frí. Maður var alltaf að eignast frídaga. Stundum var sagt við mann. Þú átt tvo frídaga. Viltu ekki bæta þeim við fríhelgina þína til að meira verði úr henni.“ Örn Bárður segir það taka opinberan starfsmann 30 ár að öðlast full lífeyrisréttindi í Noregi. „Ég var þar í fimm ár þannig að ég fæ einn sjötta af fullum eftirlaunum. Ef ég hefði unnið alla mína starfsævi í Noregi væri ég með helmingi hærri eftirlaun en á Íslandi. En það er ekki allt fengið með peningum. En það var gott að vera þarna.“
Hreimurinn skipti ekki máli
Örn Bárður kveðst hafa tekið kúrs í norsku um það bil 25 árum áður en hann fór utan en hafði aldrei notað þá málakunnáttu nema á einni og einni ráðstefnu. Ég gerði mér grein fyrir að ég talaði ekki góða norsku. Mið skorti æfinguna en lét mig hafa að mæta á staðinn. Ég kom til starfa fyrst nóvember 2014. Fyrstu dagarnir fóru í að koma sér fyrir á skrifstofunni og kynnast fólkinu og svo kom fyrsta verkefnið sem var útför. Ég hafði fimm daga til að undirbúa mig. Ég mátti skrifa ræðuna á bókmáli en ritúalið var á nýnorsku. Norska ritúalið er aðeins annað en á Íslandi. Maður varð að átta sig hvernig á að bera sig að. Jarðarförin var í 800 ára gamalli stafkirkju. Í Noregi er því þannig háttað að kirkjur standa inn í grafreit. Þannig þarf ekki að aka með kistu langar leiðir til þess að setja hana í gröfina. Það er bara gengið með kistuna út og hún jarðsett í garðinum. Ég var í dreifbýli með þrjár kirkjur og messaði þrisvar í mánuði. Einu sinni i hverri kirkju. Ég var einnig með fermingarbörn og annað. Mér var afar vel tekið. Norðmenn skynjuðu að ég var með hreim. Talaði ekki alveg eins og sóknarbörnin. Mállýskurnar er kosturinn við Noreg. Þar eru margar mállýskur og allir tala ekki eins og við gerum hér á landi. Það tala engir tveir Norðmenn eins og þá er allt í lagi að vera með íslenskan hreim. Þá var maður bara eins og eitt blóm í viðbót í þessum blómagarði tungunnar.“
Erfitt að fá fólk á landsbyggðina
„Ég var þarna í fimm ár og mátti vinna út mánuðinn sem ég varð sjötugur í nóvember 2019. Þeir eru með þessa 70 ára starfslokareglu eins og við. Ég hefði getað verið áfram í Noregi því það er svo mikill prestaskortur. Ég hefði getað haft nóg að gera að fara á milli staða og leysa af. Landið er svo stórt frá nyrsta odda til þess syðsta. Ef Noregi væri hvolft við frá suðuroddanum myndi sá niðri ná niður til Ítalíu. Yfir alla Evrópu. Noregur er líka orðinn breytt þjóðfélag. Hjón eru yfirleitt bæði orðin menntuð. Konan er kannski lögfræðingur og karlinn prestur. Það eru engin prestaköll laus í Ósló. Maður yrði að fara norður í land og það vill hinn makinn ekki fara. Það hentar honum ekki starfslega séð. Þetta á sinn þátt í prestakorti í Noregi. Oft ekkert að hafa fyrir makann að gera í dreifbýlinu. Norðmenn hafa farið út í að borga betri laun og veita meiri hlunnindi á landsbyggðinni. Einkum í Norður Noregi. Íslenskir prestar hafa talsvert sótt til Noregs og þegar ég var þar vorum við þegar flestir voru 24 og flestir í Hamar biskupsdæmi. Ef til vill skýrist það af því að Hamar er fremur frjálslynt biskupsdæmi. Fyrsti kvenpresturinn í Noregi var vígður þar og fyrsti kvenbiskupinn kom þaðan. Þeir voru einnig búnir að vinna sig í gegnum málefni samkynhneigðra og þar eru margar svipaðar guðfræðingar áherslur og hér á landi. Launin voru ekki alveg jafn há og sums staðar annars staðar. Það kann að stafa af því að ekki hafi þurft að yfirborga fólk til að koma þar til starfa. Hamar er einnig þannig staðsettur að stutt er til Óslóar. Ég var einn og hálfan tíma í lest þangað og klukkutíma á Gardemoen ef ég þurfti að fljúga heim.
Stabílt og litið um sveiflur
Norska samfélagið er stabílt og lítið um sveiflur í daglegu lífi fólks. Ég tók eftir því ef ég var að vinna á skrifstofunni til klukka fimm og kom við búð á leiðinni að þá var oft enginn þar. Allir komnir heim. Fólk hættir margt í vinnunni kl. þrjú. Búið að sækja börnin, fara í búð og komið heim klukkan fjögur. En það byrja allir að vinna snemma. Fyrr en hér. Þetta var svona og ég er mjög ánægður að hafa lokið mínum opinbera starfsferli með þessum hætti.“
Hefði geta verið lengur
Örn Bárður segist hafa geta haldið áfram að starfa sem afleysinga prestur í Noregi en hafa ákveðið að koma heldur heim. „Ég bý núna í 101, í Skuggahverfinu og fer flestra minna ferða á hjóli. Hreyfi bíl svona einu sinni í viku. Í verstu veðrum og ef ég þarf lengra til. Það er verið að leita til mín einkum út af jarðarförum. Ég var til dæmis með þrjár athafnir í gær, tvær jarðarfarir og eina kistulagningu. Það bíður alla vega ein í næstu viku.“ Síminn hringdi hjá Erni Bárði og umræðuefnið var greinilega undirbúningur að jarðarför.
Hvað merkir sögnin að ríkja
„Ég er með heimasíðu ornbardur.com heldur Örn Bárður áfram. Ég er búinn að vera með hana í áratug. Ég birti lítið af ræðum þegar ég var í Noregi. En síðan er búin að vera vel virk í sex ár og um daginn fékk ég hamingjuósk frá fyrirtækinu sem hýsir hana. Ég var með eitt hundrað þúsund heimsóknir. Ég skrifa líka öðru hvoru á vefritið Kjarnann þar sem þjóð- og heimsmálin koma gjarnan við sögu.“ Hann rifjar upp ræðu sem hann flutti 17. maí á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Kveðst hafa farið að leika sér með sögnina að ríkja. Segir hana ekki til í norsku bókmáli en komi fram í nýnorsku. Hann bendir á að norrænu þjóðirnar ríki í krafti laga. Norrænu þjóðfélögin séu byggð á lögum. Þessi hugsun hafi komið til Noregs á þrettándu öld á tímum Magnúsar lagabætis. Einn konungur í Noregi hafi gift dóttur sína spænskum prinsi og hundrað manna hópur hafi farið fá Noregi til að vera við brúðkaupið á Spáni. Þar hafi þau kynnst rómverskum rétti og því að láta lögin vera grundvöll samfélagsins. Þetta hafi síðan borist heim til Noregs og ný lög hafi komið fram í Noregi. „Íslendingar fengu anga af þessu, sérlög sem heitir Jónsbók.“
Sé ekki eftir að hafa látið þetta eftir mér
Örn Bárður fór ekki beint úr framhaldsnámi í prestinn. Hann segist hafa komið að vestan til þess að fara í Verslunarskólann og síðan farið í nám í endurskoðun. Þaðan lá leiðin í atvinnulífið. Hann rak iðnfyrirtæki og heildverslun um tíma. „En svo kom að því að trúin vitjaði mín. Mér fannst spennandi að gefa því tækifæri svo ég fór og lærði guðfræði. Ég hafði verið í smá guðfræðinámi í Bretlandi og þannig aðeins kynnst þessum fræðum. Nei – ég sé ekki eftir því að hafa látið þetta eftir mér.“