Líf og fjör í félagsstarfinu

– allir velkomnir – – Fjölskyldumiðstöðin Gerðubergi –

Hvað ungur nemur gamall temur var eitt sinn sagt. Hér sitja tveir að tafli yngri og eldri.

Haustið er einn skemmtilegasti tími í félagsstarfinu, þá verður ákveðin endurnýjun og allt fer að lifna við. Ánægjulegt er að sjá ný andlit í Fjölskyldumiðstöðinni. Fólk að líta við til að kanna með haustdagskránna, hvað sé í boði, því nú er kominn tími til að koma sér af stað, fara að gera eitthvað fyrir sjálfan sig. Gamla máltækið maður er manns gaman er alltaf í gildi. Nauðsynlegt er fyrir aldrað fólk, og bara fólk á öllum aldri, að leita sér félagsskapar og jafnframt að hafa eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt fyrir stafni. 

Félagsstarfið í Gerðubergi tekur mið af því, að styðja við farsæla öldrun sem kostur er og að virkja þátttakendur á þeirra eigin forsendum. Andleg og líkamleg örvun skiptir miklu máli. Í sumar buðum við m.a. upp á létta hreyfingu innan húss og utan með Höllu Karenu íþróttakennara, súmbadansleikfimi með Auði Hörpu, jafnvægisæfingar með Kristínu sjúkraþjálfara og sívinsæl  námskeið í tæknilæsi. Þá kom fólk með símana sína og fartölvur og fékk leiðbeiningar og aðstoð við blessaða snjalltæknina. Hér er líka starfræktur sjálfbær hópur, sem kemur saman tvisvar í viku og gerir léttar líkamsæfingar og fer svo út að ganga – í öllum veðrum. Við hér í félagsstarfinu erum líklega dálítið á þeim stað, að vilja sletta úr klaufunum eftir langvarandi takmarkanir kórónafaraldursins.

Haust- og vetrardagskráin okkar verður hefðbundin með opinni handavinnustofu, bókbandi, prjónakaffi, bútasaumi, myndlist, félagsvist, línudansi, súmbadansi, núvitund, gönguferðum og kóræfingum. Fyrir dyrum stendur sýning á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Einnig grillveisla með tilheyrandi söng og gleði. Þá er á döfinni haustferðalag til Þingvalla. – Stefnt er að því að hafa opið hús í október til að kynna vetrarstafsemina og bjóða þá upp á kaffi og eitthvað svona gómsætt. Verður það auglýst sérstaklega síðar.

Aðstæður fyrir eldri borgara en viljum líka fá yngra fólk

Félagsstarfið er opið fimm daga vikunnar og þó svo að töluvert sé lagt upp úr því að skapa aðstæður og athvarf fyrir eldri borgara og almennt þau sem ekki eru lengur þátttakendur á vinnumarkaði, þá er starfsemin opin öllum. Við vildum svo sannarlega sjá fleira fólk með erlendan bakgrunn og endurspegla þannig betur íbúasamsetningu Breiðholts. Alltaf er gaman að taka á móti fólki;  nýjum, sem núverandi og fyrrverandi þátttakendum í félagsstarfinu. Allar hugmyndir og óskir um nýbreytni í félagsstarfi og nýtingu húsnæðis eru sannarlega  vel þegnar og teknar til athugunar.

Þannig að svo það sé ítrekað,  allir eru alltaf velkomnir í félags­starfið Gerðubergi, bæði að koma og hringja. Síminn okkar er 411 2727 og 664 4011. 

Álfhildur Hallgrímsdóttir umsjónarmaður félagsstarfsins í Gerðubergi.

You may also like...