Dýri og félagar spiluðu á Lindarbrautinni
Dýri Guðmundsson og félagar spiluðu fyrir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á Lindarbrautinni laugardaginn 20. ágúst síðastliðinn og nutu góðs stuðnings Íslandsbanka sem útvegaði hljóðkerfi og Skátanna sem skýldu bandinu fyrir norðangjólunni.
Bandið í ár samanstóð af fulltrúum Lindarbrautar, Melabrautar, Skólabrautar, Selbrautar og Nesbala eða þeim Dýra Guðmundssyni á gítar, Bjarti Loga Finnssyni söng og gítar, Grétari Elíasi Finnssyni á trommur, Grímkeli Sigurþórssyni á gítar, Guðjóni Rúnarssyni á hljómborð, Kára Indriðasyni á bassa og Kristni Ólafssyni á munnhörpu. Það var frábært að Dýri skyldi treysta sér til að spila í maraþoninu, eins og hann hefur gert um langt árabil. Hann hefur leitt hóp Nesara sem hafa gefið hlaupurum aukakraft til að kljást við Lindarbrautarbrekkuna. Þau hjón, Dýri og Hildur, hafa dvalið á Hrafnistu lungann af þessu ári.