Úr tollheimtu í listsköpun
Sögu Tollhússins við Tryggvagötu má rekja til þess að Tollstjórinn í Reykjavík og hafnarstjórinn í Reykjavík gerðu leigusamning til 50 ára árið 1967 um 4.8 fermetra lóð norðan Tryggvagötu milli Naustanna og Pósthússtrætis. Lóðarsamningurinn var gerður til þess að reisa byggingu fyrir tollstöð. Á lóðinni var skuldbinding um það að á fyrstu hæðinni yrði að vera hafnarskemma og rekstri hennar ætti að vera hagað samkvæmt vöruuppskipun og tolleftirliti á hafnarsvæðinu í heild. Gert var ráð fyrir að tollstjóraembættið myndi ráða geymslurýminu við höfnina. Efri hæðir hússins skyldu svo nýttar undir aðra starfsemi embættisins. Einnig var tekið fram að í húsinu skyldi koma fyrir þeim bifreiðastæðum sem skipulagsyfirvöld segðu til um.
Miklar kvaðir voru settar við veitingu lóðarinnar. Til þess að tryggja að þær stæðu var skylt að fá samþykki hafnarstjórnar fyrir húsinu, auk skipulags- og byggingarnefndar. Einnig varð hafnarstjóri að samþykkja allar síðari breytingar á húsinu. Hlutverk skrifstofu tollstjóra er að styrkja yfirstjórn embættisins og stuðla að umbótum, nýsköpun og faglegri framþróun í starfsemi stofnunarinnar. Tollataka af flestu sem flutt var til landsins var ein af stoðum tekjuöflunar ríkisins. Sérstök byggingarnefnd fyrir húsið var skipuð árið 1963 og áttu í henni sæti: Torfi Hjartarson, tollstjóri, Páll Sæmundsson, forstjóri, og Ragnar Jónsson sölustjóri. Arkitekt tollhússins var Gísli Halldórsson.
Lóðin á uppfyllingu frá gerð Reykjavíkurhafnar
Fyrsta skóflustunga að Tollhúsinu var tekin 27. janúar 1967 af Magnúsi Jónssyni sem þá var fjármálaráðherra. Við fyrsta uppgröft kom í ljós að lóðin var á uppfyllingu frá því að Reykjavíkurhöfn var gerð. Austurgafl hússins stendur á hinni frægu steinbryggju er byggð var á árunum 1883 til 1885 í beinu framhaldi af Pósthússtræti. Gólf kjallara hússins er um 4,6 m undir háflóði. Almenna byggingafélaginu var falið að steypa upp kjallarann en hluta hans átti að nota undir vörugeymslu. Því varð að tryggja að komist yrði hjá vatnsleka. Botnplatan undir húsinu er því 90 sentimetra þykk og kjallaraveggir 45 sentimetrar. Allt húsið er reist á súlum með mestu spennivíddum sem hagkvæmt þótti þá. Útveggir neðri hæða voru steyptir, en útveggir skrifstofuhæða voru keyptir frá Danmörku, tilbúnir til uppsetningar með gluggum og einangrun. Að öðru leyti var húsið múrhúðað að utan og málað. Kostnaðaráætlun vegna byggingar þess hljóðaði upp á 125 milljónir króna en var stöðugt færð í samræmi við byggingarvísitölu. Kostnaðaráætlunin stóðst því lögð var áhersla á að ekki yrðu gerðar breytingar á húsinu sem raskað gætu kostnaðartölum að nokkru ráði.
Nýmæli í skrifstofuskipan
Nýrri skirfstofuskipan var komið á í tollhúsinu. Starfsfólkið vann í einum sal utan að tveir til þrír yfirmenn höfðu herbergi til umráða. Slík skrifstofumenning var þá farin að ryðja sér til rúms erlendis en var lítt þekkt hér heima. Vinnusalurinn var skipulagður með ákveðnum vinnustöðvum þannig að hópvinna yrði auðveld. Húsið var tekið í notkun í ársbyrjun 1971.
250 fermetra gluggalaus veggflötur
Hafnarskemman náði í gegnum húsið alveg út að Tryggvagötu. Því varð til 250 fermetra gluggalaus veggflötur sem snéri út að götu. Byggingarnefnd og arkitekt voru sammála um að slíkur flötur myndi hafa slæm áhrif á götumyndina ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir til að prýða útlit hússins. Þetta stóð þó í stjórnmálamönnum vegna kostnaðar við að koma listaverki upp og stóð vegurinn ómúraður um nokkurra ára skeið.
Haft var samband við Gerði
Á þessum tíma vann Gerður Helgadóttir myndlistarkona að mósaíklistaverkum í Þýskalandi og víðar. Haft var samband við hana áður en ákveðið yrði hvort efnt yrði til samkeppni um verkið. Oft hafði verið rætt um að verkið þyrfti að spegla lífið við höfnina, enda hafði höfnin verið lífæð Reykjavíkur síðan hún var gerð. Gerður varð strax hugfangin af slíku verki Varð að samkomulagi að hún fengi teikningar og aðra aðstoð. Gerður fékk þann tíma sem hún þurfti. Hún var búsett erlendis en þegar hún kom heim lagði hún nokkrar tillögur fram til umræðu. Samþykkt var að fá hana til að vinna verkið. Einnig var óskað eftir að gera heildarsamning við hana og listaverkafyrirtæki í Þýskalandi, Bræðurna Oidtmann, en Gerður hafði starfað með þeim að uppsetningu frægra listaverka í Evrópu. Gerður vann verkið á verkstæði þeirra og sáu þeir síðan um uppsetningu þess á Tollhúsið. Gerður var um tvö ár að vinna verkið en það var sett upp á árunum 1972 og 1973.
Breytingar með tilkomu Sundahafnar
Með tilkomu Sundahafnar urðu breytingar á umsvifum á gamla hafnarsvæðinu. Vöruflutningar færðust inn í Sund og tollafgreiðsla þar með í leiðinni. Minni not urðu fyrir tollstöð á hafnarsvæðinu í miðborginni. Skipulagi svæðisins var breytt og ýmsar hugmyndir litu dagsins ljós. Ein var að byggja sex hæða íbúða- og verslunarbyggingu við Tollhúsið. Önnur var að byggja 9.350 fermetra íbúðar- og verslunarhús á bílastæðinu við Kolaportið. Fyrir hrun stóð til að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á Tollhússreitnum. Ekkert varð af neinni af þessum hugmyndum og ákveðið að byggja yfir Landsbankann á öðrum stað á hafnarsvæðinu.
Úr tollheimtu í listsköpun
Skrifstofur skattsins voru lengi á efri hæð Tollhússins en Kolaportið, sem er einn þekktasti nytjamarkaður á Íslandi fékk inni á jarðhæðinni þar sem vörugeymslan var áður. Nú hefur verið ákveðið að Listaháskóli Íslands yfirtaki alla bygginguna. Með því skapast einstakt umhverfi lista og menningar við Tryggvagötu. Einskonar suðupottur menningar og sköpunar þar sem líflegt og margs konar mannlíf nái að þroskast og veita fólki lífsfyllingu, gleði og sjálfsþekkingu. Við Tryggvagötu sem nefnd er eftir Tryggva Gunnarssyni bankastjóra verða Listaháskóli Íslands, Listasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarbókasafnið sem stöðugt er að eflast sem alhliða menningarmiðstöð í Miðborginni. Tollstöðvarhúsið hefur fengið nýtt hlutverk. Það hefur færst frá tollheimtu í listsköpun.