Kiwanisklúbburinn Elliði 50 ára
– Heildarstyrkur á þessum 50 árum eru 60 milljónir –
Kiwanisklúbburinn Elliði varð 50 ára 23. október síðastliðinn. Stofnun klúbbsins má rekja aftur til haustmánaða árið 1972. þegar dreift var bréfum til manna í Breiðholtshverfi og þeim boðið að koma á fund þar sem stofna skyldi Kiwanisklúbb sem tilheyrði Breiðholtshverfinu.
Það kemur fram í samantekt Grétars heitins Hannessonar sem hann tók saman fyrir 40 ára afmælið 2012 að þegar fundarboð voru send út hafi verið notast við kjörskrá úr nýafstöðnum prestkosningum sem fram höfðu farið skömmu áður í hverfinu. Til fundarins var boðað á skemmtistaðnum Glæsibæ. Á þennan fund mættu fjöldi ungra manna úr hverfinu og eins og segir í samantekt Grétars þá voru 38 manns tilbúnir að láta Kiwanisklúbbinn Elliða verða að veruleika. Stofnfundur var svo haldinn 23 október 1972. Móðurklúbbur klúbbsins er Kiwanisklúbburinn Hekla í Reykjavík elsti kiwanisklúbbur landsins og bygginganefnd sem svo var kölluð var skipuð þeim Eyjólfi Sigurðssyni, Ásgeiri B. Guðlaugssyni og Erni Egilssyni sem var fyrsti forseti klúbbsins og var það í tvö ár. Það segir í samantekt Grétars að þrátt fyrir að þessir ungu menn, þar sem meðalaldurinn var 27 ár, væru fúsir til að koma að stofnun klúbbsins urðu þeir líka að sjá sér og sínum farborða en margir þeirra stóðu í húsbyggingum, en tóku þrátt fyrir það fullan þátt í starfi Elliða sem var keyrður af fullum krafti af dugmiklum forseta. En allir höfðu gaman af þessu. Á þessum árum funduðum við í Glæsibæ og þá voru fundarslit ekki klukkan 22.00 eins og nú, heldur kl. 23.00 til 23.30 og kvartaði enginn enda var þetta svo gaman. Mestur fjöldi Elliðafélaga var 1973 48 félagar, en í dag eru félagar 16.
Ýmislegt hefur verið brallað á þessum 50 árum. Fjáraflanir voru í upphafi m.a. jólatréssala, pökkun og sala á sælgæti og útgáfa söngbókar til styrktar BUGL Haldin hafa verið Herrakvöld með villibráð. Klúbburinn keypti hús á Grensásvegi 8 árið 1997 þar sem við héldum okkar fundi en þar fóru einnig fram dekkjaskipti fyrir félaga og vini til fjáröflunar áður en við hófum formlega fundi í húsinu. Húsið var selt fyrir þremur árum þar sem of dýrt var orðið að reka það vegna fækkunar félaga.
Styrktarverkefni hafa verið af ýmsum toga, meðal annars BUGL, íþróttafélagið ÖSP sem við höfum styrkt með verðlaunagripum og fleiru, Krabbameinsfélagið, Barnaspítali Hringsins, Pietasamtökin, Alsheimersamtökin, Parkinsonsamtökin, Mottumars Blái naglinn, Umhyggja félag til styrktar langveikum börnum og fleira mætti nefna auk hinna ýmsu einstaklinga. Þá höfum við gefið á hverju ári bókagjafir til þeirra sem hafa verið með bestan árangur í íslensku í skólunum í Breiðholti. Við höfum einnig tekið mikinn þátt í fjáröflunum í umdæminu eins og K- deginum, hjálmaverkefninu þar sem fyrstu bekkingar í grunnskólunum (það er 6 ára börn) fá hjólahjálma og hefur það yfirleitt vakið mikla lukku hjá börnunum. Við gáfum einnig ásamt fleiri klúbbum hjartastuðtæki til Landhelgisgæslunnar.
Gönguklúbbur hefur verið starfræktur innan klúbbsins í 30 ár og fram að Covid var alltaf hist á sunnudagsmorgnum einu sinni í viku hvernig sem viðraði heima hjá einhverjum félaganna og gengið þaðan í svona klukkutíma og svo í kaffi á eftir.
Elliðafélagar hafa tekið ríkan þátt í yfirstjórn Íslenska Kiwanisumdæmisins og þar höfum við átt 6 umdæmisstjóra. umdæmisféhirðir, umdæmisritara og 7 svæðisstjóra.
Elliði hefur verið í þremur svæðum sem svo eru nefnd og eru þau eftirfarandi: Eddusvæði frá 1972, Þórssvæði frá 1978 og Freyjusvæði frá 2011.
Elliði hefur staðið að stofnun fjögurra klúbba; Kiwanisklúbbsins Jörfa í Árbæ 15 apríl 1975, Kiwanisklúbbsins Vífils í Seljahverfi 23. nóvember 1981 Kiwanisklúbbsins Höfða í Grafarvogi 1990 og Kiwanisklúbbsins Dyngjunnar í Reykjavík 2012 þar sem eingöngu eru konur.
Við höfum farið í sumarferðir (fjölskylduferðir) innanlands og ferðir erlendis í sambandi við Kiwanisþing í Evrópu og Bandaríkjunum. Eiginkonur klúbbfélaga hafa á öllum þessum árum tekið virkan þátt í starfi okkar og án þeirra hefðum við ekki komið því í gegn sem við höfum þó gert. Og það ber að þakka.
Í dag eru tveir stofnfélagar í Elliða ennþá starfandi þeir Sigmundur Smári Stefánsson og Sæmundur H. Sæmundsson.
Núverandi forseti klúbbsins er Skæringur M. Baldursson.
Klúbburinn veitti í tilefni afmælisins Pietasamtökunum 1 milljón króna styrk. á hátíðarfundi sem haldin var sl. laugardag 22. október.
Því miður hefur okkur í Kiwanishreyfingunni fækkað töluvert frá því Elliði var stofnaður og því þurfum við að bretta upp ermar og gera gangskör í því að fá bæði unga menn og konur til liðs við okkur því Kiwanis er góð hreyfing sem styrkir góð málefni.