Fjórir sorpflokkar teknir upp
Nýjar reglur og lög um flokkunarkerfi sorps taka gildi um áramótin. Eftir það verður að flokka lífrænan úrgang eins og matarúrgang sér. Hann má ekki vera með öðrum blönduðum úrgangi. Þennan lífræna úrgang má ekki setja í plastpoka, heldur sérstaka pappírspoka.
Þessari reglu hefur verið fylgt um árabil hjá mörgum sveitarfélögum víða um land, en ekki á höfuðborgarsvæðinu, þar sem mismunandi flokkunarreglur eru í gildi. Nú verður flokkun í sorptunnur við íbúðarhús og fyrirtæki fjórþætt. Pappír, plast, lífrænn úrgangur og blandaður úrgangur. Gler, járn og textíll verður síðan að setja í grenndargáma. Tunnur fyrir þessa fjóra flokka verða settar upp við íbúðarhús og fyrirtæki. Hægt verður að fá tvískiptar tunnur ef menn kjósa svo. Áætlað er að núverandi fyrirkomulagi verði skipt út í áföngum á næsta ári á höfuðborgarsvæðinu.
Sorpmagn á íbúa hefur dregst saman á milli ára. Reykvíkingar skila af sér minnstu magni úrgangs á höfuðborgarsvæðinu, eða 129,9 kg á íbúa en Garðbæingar mestu, 155 kg á íbúa. Þetta kemur fram í rannsókn Sorpu á húsasorpi fyrir árið 2021 en með húsasorpi er átt við þann úrgang sem settur er í gráu tunnuna. Lífrænn úrgangur vegur þyngst í húsasorpinu og plast kemur þar á eftir.