Lýðheilsuverkefnin snerta alla
— glæsileg umgjörð í samfélagshúsinu á Vitatorgi —
Nokkrir heldri menn sitja á spjalli á Kaffi Tári í Kringlunni. Þeir hittast til að ræða dag og veg og önnur málefni sem ber að á hverjum tíma. Þegar klukkan fer að ganga tólf taka sumir þeirra að ókyrrast. Einhver lítur á skilaboð í síma sínum og umræðuefnið breytist. Hvað er í matinn í dag spyr einn þeirra. Ég þarf að hafa mig aðeins til segir annar. Um hvað eru þeir að tala. Sumir þeirra eiga sér annan samastað í hádeginu. Þeir eru að fara að borða í samfélagshúsinu á Vitatorgi. Þar er hádegismatur alla daga hvort sem um virka daga, sunnudaga eða hátíðisdaga er að ræða og alltaf hægt að koma án þess að tilkynna sig fyrir fram. Þetta hentar þeim vel. Sumir þeirra búa einir en aðrir halda heimili með eiginkonum eða fjölskyldumeðlimum. Það fækkar í hópnum. Sumir halda á Vitatorg. En hvað er samfélagshús. Er það hádegismatur fyrir heldri borgara eða er fleira þar að finna. Vesturbæjarblaðið gerði sér ferð á Vitatorg einn morgun til að grennslast fyrir um starfsemi sem þar fer fram. Þar hitti tíðindamaður fyrir Drífu Baldursdóttur forstöðumann og verkefnisstjóra samfélagshússins. Hún er Borgfirðingur. Fædd og uppalin í Borgarnesi en flutti til Reykjavíkur þegar hún hóf nám við Háskóla Íslands rétt rúmlega tvítug. ”Ég er búin að vera í Vesturbænum í Reykjavík síðan. Ég hef búið lengur í Vesturbænum en í Borgarnesi. Ég get litið á mig sem Vesturbæing af Borgfirskum uppruna.”
Hvað kom Drífu til að yfirgefa heimahagana. ”Námslöngunin rak mig að heiman,” segir hún. ”Ég fór í uppeldis- og menntunarfræði sem BA nám við Háskóla Íslands og bætti svo lýðheilsufræðinni við til mastersprófs. Lýðheilsufræðin er ein af nýrri námsgreinunum. Hún nær inn á nokkur svið eins og nafnið bendir til. Heilbrigðisfræði eru hluti af henni. Þar er lögð mikil áhersla á forvarnir og þau fræði heilluðu mig auk þess að vinna að heilsueflingu. Heilsueflingin er eitt af stærstu málunum sem ég er að fást við hér á Lindargötunni.”
Vesturbærinn eins og sjálfstæður bær
En aðeins nánar að Vesturbænum. ”Ég kann vel við mig þar. Mér finnst Vesturbærinn fullkomin blanda af umhverfi og mannlífi. Vesturbærinn er á mörkum bæjarhluta sem íbúðahverfis og Miðborgarinnar. Þetta eru tveir skemmtilegir borgarhlutar. Ég kem utan af landi og ég finn ákveðna hverfisstemningu í Vesturbænum. Mér finnst stundum að Vesturbærinn sé eins og sjálfstæður bær þótt hann sé við hliðina á Miðborginni. Ég finn fyrir að fólki líður vel og er ánægt. KR skapar ákveðna stemningu í Vesturbænum. Krakkarnir eru í íþróttastarfi. Börnin mín hafa öll æft íþróttir með KR og dætur mínar eru byrjaðar að spila körfubolta og fótbolta með meistaraflokki KR. Þau finna sér félagsskap og stunda heilsusamlegt líferni þar. Ég get fullyrt af minni reynslu er Vesturbærinn er mjög gott hverfi til að búa.”
Sex ár á Vitatorgi
Við snúum okkur að störfum Drífu sem að miklu leyti hafa tengst Reykjavíkurborg með einum eða öðrum hætti. ”Ég er búin að vinna að mestu hjá Reykjavíkurborg frá því ég lauk námi. Ég starfaði í um átta ár á velferðarsviði borgarinnar. Vann líka á skóla- og frístundasviði, meðal annars deildarstjóri á leikskóla og leiðbeinandi í vinnuskóla borgarinnar. Nú eru að verða sex ár síðan ég kom hingað á Vitatorg.”
Hjartað í hverfinu
Hvað er samfélagshús. ”Samfélagshús er öllu meira en mötuneyti. Við viljum meina að samfélagshúsin séu hjartað í hverfinu og byggir á mjög fjölbreyttri starfsemi. Aðal markmiðið með þessum húsum er að stuðla að bættri líðan fólks og heilsu. Þetta starf er fyrir fólk á öllum aldri þótt stundum sé álitið að það snúist fyrst og fremst um heldri borgara. Um fólk sem er komið af starfsaldri og á eftirlaun. En það er misskilningur. Lýðheilsuverkefnin snerta alla bæði yngri og eldri og allt þar á milli.” Eru samfélagshúsin opin öllum. ”Já, þau eru öllum opin. Ég vil taka sérstaklega fram að allir eru velkomnir til okkar. Enginn þarf að fara í gegnum mat hvorki hvað aldur, heilsufar eða hæfni varðar. Enginn þarf að skrá sig. Fólk getur komið inn af götunni alla virka daga á milli kl. 08:30 og 16:30 sem er almennur opnunartími. Eftir klukkan fimm er líka starfsemi en þá fremur fyrir hópa sem skrá sig í sérstök verkefni. Þannig er dagskrá fram eftir kvöldi alla daga vikunnar og einnig eru hópar að sinna sínum viðfangsefnum um helgar auk viðburða.”
Maturinn er mjög vinsæll
Svo er maturinn sem kaffifélagarnir voru að undirbúa sig til þess að njóta. ”Maturinn er mjög vinsæll og ef til vill er það ástæða þess hversu margir halda að starfið snúist aðallega um mat. Á virkum dögum er hægt að kaupa morgunmat. Svo er hádegismatur alla daga hvort sem um virka daga, sunnudaga eða hátíðisdaga er að ræða. Alltaf er hægt að koma í hádegismatinn án þess að tilkynna sig fyrir fram. Alltaf er nóg til því framleiðslueldhúsið er hér sem framleiðir mat fyrir allar félagsmiðstöðvarnar og allan heimsendann mat á vegum velferðarsviðs. Að meðaltali koma rúmlega 200 manns í mat á hverjum degi fyrir utan það sem sent er út um alla borg. Við bjóðum bæði upp á hefðbundin mat og einnig grænmetisfæði. Svo er síðdegiskaffi á virkum dögum. Við erum nýbúin að fá vottun um grænu skrefin að við séum með umhverfisvænt eldhús. Hér fer fram fjölbreytt dagskrá alla daga, í boði eru margir heilsueflandi dagskrárliðir, svo sem leikfimi og slökun, hægt er að koma í handavinnu og námskeið í myndlist, leirlist, postulíni og bókbandi og nýta sér smíðastofuna okkar. Við erum með fjölskylduvæna viðburði og dagskrá og erum t.d. með fjölskyldujóga.“ Drífa tekur sérstaklega fram að ókeypis að koma og taka þátt flestum dagskráratriðum. Öllu nema námskeiðum sem er stýrt af leiðbeinendum. Hún leggur áherslu á orðin. ”Fólk getur komið hingað og eytt því sem það vill af deginum. Að koma og vera innan um annað fólk, fá sér kaffi og spjalla saman er heilmikið félagsstarf og hefur mikið forvarnargildi. Fólk þarf ekki að gera neitt. Bara að koma.”
Harmonikka er fjölhæft hljóðfæri
Vitatorgsbandið er einn af föstum þáttum í starfseminni. Bandið er hljómsveit sem einkum stendur saman af heldra fólki og spilar reglulega á Vitatorgi. ”Á hverjum einasta miðvikudegi koma þau hingað og halda dansleik og einu sinni í mánuði er sungið saman eftir dansleik. Við höfum verið að fá leikskólakrakka hingað og leyfa þeim að kynnast harmonikkunni sem hljóðfæri. Þá kallaði Guðrún hljómsveitarstjóri þetta harmonikku stund með ömmu og afa. Misskilningur er að harmoníkuleikur höfði einkum til heldri borgara. Harmónikkan er fjölhæft hljóðfæri og margs konar tónlist er leikin á hana. Þau eru átta í hljómsveitinni núna. Eru með harmonikkur og gítara og trommur svo annað sé nefnt. Þetta er mjög flott hjá þeim. Þau hafa líka annast um skemmtanahald hér á kvöldin. Þá eru þau hljómsveitarmeðlimirnir og þeirra vinir og samstarfsfólk sem koma og búa til skemmtidagskrá.”
Esjan og Sundin blasa við
Þegar gengið eru um húsnæði og sali á Vitatorgi er ljóst að þar fer margskonar starfsemi fram. Gríðarstór veitingasalur er aðeins brot af vistarverum sem fólk hefur afnot af. Þegar líða tekur að hádegi eru einhverjir morgungestir farnir. Aðrir drífa að. Starfsfólk í veitingasal er að undirbúa að fá rúmlega 200 manns í hádegismat. Ekkert bólar þó enn á félögunum af Kaffi Tári. Ef til vill er stutt í suma þeirra. Drífa gengur með komumanni um sali. Nokkrir sitja og fletta blöðum og við borð situr eldri kona og les fréttir af tölvuskjá. Okkur verður litið út um glugga. Handan Skúlagötunnar sér út á Sundin og Esjan blasir við í fjarska. Heilsuefling er í hverju rúmi hvaða nafni eða undirtitli sem hún nefnist. Útsýnið er jafnvel hluti af henni. Og nú fóru nokkrir félagar af Tárinu að mæta í matinn.