Undirbúningur að íbúðahverfi í Norður Mjódd
Nú líður að því að hafist verði handa um uppbyggingu íbúðahverfis í Norður Mjódd í Breiðholti. Íbúðahverfið mun leysa af byggð sem einkum hefur hýst viðskiptaumhverfi. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur þann 28. júní 2023 var lögð fram skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður Mjóddar fyrir lóðirnar Stekkjarbakka 4 til 6 og Álfabakka 7.
Samþykkt var að kynna lýsinguna fyrir almenningi ásamt því að leita umsagnar hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Verkefnastofu Borgarlínu, Betri Samgangna, Strætó bs., Veitum ohf., Minjastofnun Íslands, Íbúaráði, íbúasamtökum í Breiðholti, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Kópavogsbæ og eftirtöldum deildum, skrifstofum og sviðum Reykjavíkurborgar; skrifstofu framkvæmda og viðhalds, samgöngu- og borgarhönnunardeild, skrifstofu reksturs og umhirðu, skrifstofu umhverfisgæða, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Skóla- og frístundasviði og Velferðarsviði. Ekki verður um stækkun lóða að ræða en lóðamörk geta tekið breytingum. Lóðarhafi í Norður Mjódd er Klasi fasteignaþróunnarfélag. Eigendur Klasa eru Hagar hf., Regin hf. og KLS eignarhaldsfélag ehf.
Fjögurra til sjö hæða byggingar
Samkvæmt skipulagshugmyndum verður lögð áhersla á blandaða byggð á fyrrgreindum lóðum. Þar er gert ráð fyrir íbúðum matvöruverslun auk fleiri innviða. Fyrir liggur að öll starfsemi Garðheima verður flutt yfir í Suður Mjódd þar sem framkvæmdir eru við að hefjast. Auk þess verða núverandi byggingar sem tengjast meðal annars olíusölu og annarri verslunarstarfsemi fjarlægðar. Á heimasíðu Klasa segir að þróunarsvæðið sé við borgarlínu nálægt stofnbraut og þungamiðju höfuðborgarsvæðis. Sú staðsetning gefi mörg tækifæri til umbreytinga. Fjölbreyttir innviðir séu til staðar ásamt tengingu við útivistarsvæði Elliðaárdalsins. Samkvæmt samkomulagi við Reykjavíkurborg verður unnið nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar. Gert er ráð fyrir fjögurra til sjö hæða byggingum. Þegar áform um byggingar í Norður Mjódd voru fyrst kynntar haustið 2021 mættu þær nokkurri andstöðu hjá nágrönnum. Einkum var um að ræða íbúa í Stekkunum sem töldu háar byggingar myndu takmarka útsýni til norðurs.