Uppeldislegt slys eða barn síns tíma
— Hallærisplanið —
Hótel Íslandsplanið sem síðar var nefnt Ingólfstorg var samkomustaður unglinga á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Á torginu hittust ungmenni, stungu saman nefjum og skemmtu sér. Þar voru oft ólæti, áflog og rúður voru brotnar. Þarna voru þó ekki viðhöfð formleg mótmæli heldur sletti ungt fólk úr klaufunum, sumt rækilega og margir fóru á sín fyrstu fyllirí á torginu. Lögregla þurfti oft að skerast í leik ungmennanna og stemma stigu við að lífið færi ekki meira og enn verr úr böndum en raun bar vitni. Torgið var upphaflega kallað Hótel Íslandsplanið en Hótel Ísland stóð á þessari lóð frá 1882 til 1944 þegar það brann til kaldra kola. Við það myndaðist autt svæði við gatnamót Austurstrætis og Aðalstrætis sem ekki var byggt á. Torgið gert að bílastæði.
Ingólfstorg í miðborg Reykjavíkur liggur að elsta hluta borgarinnar. Í dag er um útivistarsvæði að ræða en hafði á sér talsvert aðra og verri ásýnd á árum áður. Þá lá leið bílaumferðarinnar rakleiðis gegnum torgið í framhaldi af Austurstræti og taldist það mestmegnis til bílastæða. Undir lok sjöunda áratugs liðinnar aldar tóku ungmenni að venja komur sínar þangað á kvöldin og um helgar. Lítill sómi þótti að ástandinu sem skapaðist á bílaplainu og var það oft kallað „Hallærisplanið“ í daglegu tali. Á tímabili var vinsælt að fara á torgið og stundum söfnuðust þar saman upp undir fjögur þúsund manns samkvæmt fréttum frá þeim árum. Algengt var að um þúsund ungmenni eða fleiri væru þar á kvöldum um helgar. Nú er staðan gerbreytt. Núverandi skipulag er vænna til hefðbundinnar útiveru en bílaplön fyrri ára enda er Ingólfstorg iðulega vel sótt af borgarbúum, ekki síst á góðviðrisdögum þegar margt er þar um manninn. Heimamenn og erlendir ferðamenn sækja torgið sér til ánægju og yndisauka.
Rómantískur staður en útihátíðastemning tók yfir
Geir Jón Þórisson fyrrum yfirlögregluþjónn í Reykjavík ræddi á sínum tíma við Morgunblaðið um kynni sín af planinu bæði sem ungmenni er átti viðkomu þar og síðar lögreglumaður sem þá kom þangað í öðrum erindagjörðum. Hann kvaðst hafa sótt Hallærisplanið sem unglingur í lok sjöunda áratugarins. Á árunum 1969 til 1970. Þá hafi ungt fólk verið á rúntinum og lagt bílum á torginu. Hann sagði í viðtalinu að þá hafi þetta verið rómantískur staður en seinna orðið meira um drykkju og fyllirí og útihátíðarstemning orðið til. Um áratug síðar var hann gengin til liðs við lögregluna og upplifði stemmninguna á Hallærisplaninu á nýjan hátt. Óöldin á planinu var í hámarki á árunum 1980 til 1984 og mikið um ölvun. Unga fólkið var með landa en fíkniefni ekki orðin eins algeng og síðar varð. Ástandið á torginu þróaðist oft út í skrílslæti og átök orðið við lögreglu. Skemmdarstarfsemi var áberandi og lögregla þurfti oft að verja verslanir í kring þar sem rúðubrot voru algeng. Geir Jón sagði í viðtalinu að meginþorri þeirra sem voru þarna hafi bara verið að slæpast og ekki til vandræða en vandræðafólkið verið mest áberandi og starf lögreglunnar einkum snúist um að fjarlægja þá erfiðustu af svæðinu.
Ráðist á lögreglumann
Um áramótin 1967 til 1968 mátti lesa um árás á lögreglumann í blaðafrétt. Þar segir að nítján ára piltur hafi haft spjöll og háreysti í frammi og lögreglumenn verið kvaddir. Báðu þeir piltinn um að hverfa af staðnum, en hann hafi veitti mótþróa og var þá færður í lögreglubílbil. Félagi hans hafi þá haft afskipti af þessu og þegar lögreglumenn hugðust handtaka hann hafi upphafsmaðurinn stokkið út úr lögreglubílnum. Annar lögreglumannanna hljóp á eftir honum en ungi maðurinn veitti honum þungt högg á milli augnanna. Hversu algeng atvik af þessu tagi voru mörg er ekki vitað en ólæti og átök við lögreglu settu svip á ákveðið tímabil á planinu.
Þriðjungur komu annars staðar að
Haustið 1978 gerði útideild æskulýðsráðs og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur könnun á samsetningu hópsins sem sótti Hallærisplanið yfir eina sumarhelgi. Kom í ljós að um þriðjungur þeirra unglinga sem söfnuðust saman á Hallærisplaninu var búsettur utan Reykjavíkur. Fæstir voru úr Árbæjarhverfinu, margir úr Breiðholtinu og margir komu annars staðar að en úr Reykjavík. Um 67% ungmennanna voru á aldrinum 15 til 17 ára. Stúlkurnar á svæðinu voru yngri en piltar en stúlkunum fækkaði verulega þegar þær höfðu náð 17 ára aldri. Fjölmennasti aldurshópur pilta var hins vegar 17 ára og allmargir 18 ára. Þessa helgi sem könnunin var gerð komu allt að 700 ungmenni á torgið. Nokkrum árum síðar eða haustið 1982 gerði útideildin aftur könnun sem fór fram á einu föstudagskvöldi og voru nokkrar spurningar lagðar fyrir rúmlega þúsund unglinga sem á svæðinu voru. Tæp 58% þeirra voru á aldrinum 15 til 16 ára en 14 og 17 ára unglingar voru einnig fjölmennir. Fimmtán ára stúlkur voru mest áberandi og í yngri aldurshópunum voru stúlkur fleiri, þær komu hins vegar fyrr á kvöldin og fóru fyrr heim. Strákar voru fjölmennari í eldri aldurshópunum. Þá voru nær 49% aðspurðra voru úr Reykjavík, um 20% úr Kópavogi, 12% úr Hafnarfirði og 8% úr Garðabæ. Miðað við íbúafjölda í hverju bæjarfélagi voru hlutfallslega flestir unglingarnir úr Kópavogi.
Davíð eins og Bastian
Hallærisplanið vakti athygli út fyrir landsteinana. Norskt blað fjallaði um skemmtanalíf Íslendinga og birtist grein um umfjöllun þess í Morgunblaðinu 23. október 1983. Norsku blaðamönnunum þótti merkilegt að hitta borgarstjórann sem þá var Davíð Oddsson á meðal unglinganna. Í greininni sagði að hann hafi gengið um planið eins og Bastinn bæjarfógeti í Kardemommubæ Torbjörns Egner. Verið brosandi og klappandi ungviðinu á kollinn. Blaðið birti mynd af Davíð á rölti um Hallærisplanið talandi við unga fólkið.
Birtingarmynd á sínum tíma
Umstangið á Hallærisplaninu var birtingarmynd æskunnar á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þá skipti engu hvernig vindar blésu. Hallærisplanið var nokkurs konar félagsmiðstöð unglinga. Í grein í DV árið 2004 þar sem þessitími var rifjaður upp sagði meðal annars að unglingar hafi staðið fyrir hefðbundinni uppreisn gegn heimskum heimi hinna fullorðnu með hefðbundnum aðferðum; drykkju, formælingum, léttum skemmdarverkum. Fullyrt var að þegar mest stóð á hafi unglingar vaðið yfir Grjótaþorpið, gert „þarfir sínar hvar sem var“ og „eðlað sig fyrir allra augum“. Eftir því sem leið á níunda áratuginn minnkaði aðdráttarafl plansins. Ungmennin fóru að sækja í félagsmiðstöðvar og sérstaka unglingaskemmtistaði þar sem skipulegt starf var í boði.
Útihátíðamenningin er horfin
Í blaðagrein sem birtist í DV 7. desember 1983 kemur fram að þá hafi torgið verið orðið nánast mannlaust um helgar. Unglingarnir hafi flutt sig upp á Hlemm, í leiktækjasalina og á skemmtistaðinn D-14 í Kópavogi og skemmtistaðinn Best sem var til húsa í gamla Fáksheimilinu við Elliðaár. Félagsmiðstöðvar höfðu líka verið opnaðar víða á þessum árum eftir að farið var að leita leiða og finna lausnir fyrir æsku landsins. Nú hefur skemmtanamenningin breyst. Stjórnlítil eða stjórnlaus útihátíðamenning er horfin og skipulagt félagsstarf tekið við. Bílaplönin eru einnig að mestu horfin eða verið breytt í fjölnota útivistarsvæði. Svo er um Ingólfstorg sem aðra staði. Eftir stendur spurningin um hvort tilvist Hallærisplansins hafi verið uppeldislegt slys eða einfaldlega barn síns tíma.