Góð aðsókn á sumarnámskeiðin
Seltjarnarnesbær stóð fyrir sumarnámskeiðum líkt og fyrri ár. Þau samanstóðu af leikja- og ævintýranámskeiðum fyrir 6 til 9 ára, Survivor námskeiðum fyrir 10 til 12 ára og smíðavelli fyrir 8 ára og eldri. Námskeiðin gengu með eindæmum vel og voru börn jafnt sem starfsfólk afar ánægð með sumarið.
Dagskráin var fjölbreytt og þemaskipt yfir sumarið en í sumar var meðal annars unnið með risaeðlu- og geimþema, farið var í bátsferð með Björgunarsveitinni Ársæl og í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Einnig voru haldnir fjölmargir viðburðir eins og just dance böll, slím-, leir- og föndurgerð og svona mætti lengi telja. Aðsókn á námskeiðin var með besta móti og þökkum við þátttakendum, starfsfólki og foreldrum fyrir samstarfið í sumar.