Við förum ekki af Seltjarnarnesi

– segir Jón Axel Egilsson kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur

Jón Axel Egilsson.

Jón Axel Egilsson gaf út bók á dögunum sem nefnist Föruneyti Signýjar. Útgefandinn er Óðinsauga. Söguþráðurinn byggir að nokkru á ævintýrinu Sagan af Hlini Kóngssyni og þjóðsögunni Sálin hans Jóns míns. Þorgrímur Gestsson, rithöfundur og blaðamaður, las síðustu próförk að bókinni og kallar hana Þjóðsagnalega skáldsögu. Jón Axel var tvö ár í þjóðfræði til að afla sér þekkingar á efninu, en varð að hætta vegna Hrunsins. Í bókinni leitar hann í sagnaheim og goðsögur fyrri tíma og fer með lesandann í stórkostlegt ferðalag. Þar er líka ljóð um Hlina sem lagt er í munn Signýjar Karlsdóttir sem Sigríður Magnúsdóttir eiginkona Jóns Axels orti. Hugmyndasmíð, skrif og ljóðagerð eru sterk í þessari fjölskyldu sem kemur vel fram hjá eldri syni þeirra hjóna, Davíð Þór Jónssyni sóknarpresti í Laugarnesprestakalli sem einnig er þekktur fyrir sköpunargáfu á þessu sviði. Jón Axel er þekktastur fyrir teikningar sínar og vatnslitamyndir, heimildamyndir og auglýsingar. Hann hefur haldið tvær sýningar á vatnslitamyndum í bókasafni Seltjarnarness. Á dögunum settist hann niður með Nesfréttum en hann er búsettur á Seltjarnarnesi. Sú saga er nokkuð merkileg vegna þess að þau hjónin keyptu sömu íbúðina tvisvar.

Jón Axel gaf út bók á dögunum sem nefnist Föruneyti Signýjar.

En hver er bakgrunnur Jóns Axels? Hann var í Verzló 1966 og er lærður kvikmyndagerðarmaður frá Danska kvikmyndaskólanum. Hann hefur unnið mikið að gerð teiknimynda enda sjálfur teiknari og að ýmis konar kvikmyndagerð. Meðal annarra verka sem Jón Axel hefur unnið er 25 mínútna löng teiknimynd um Djáknann á Myrká. Sú vinna fór að mestu fram í teiknimyndaverinu Dauka í Lettlandi 1993. “Það komu 103 listamenn að því verki. Hilmar Örn Hilmarsson samdi tónlist fyrir myndina eftir stefjum Jórunnar Viðar. Næsta stóra verkefnið var Stúfur sem átti að verða teiknimynd í fullri lengd. Mér var boðið að kynna verkið fyrir evrópskum framleiðendum í Osló 1996 en það þótti of stórt. Þá byrjaði ég að skrifa skáldsögu upp úr efninu sem tók mig 20 ár, enda unnið með öðrum verkefnum. Ég gerði einnig sjónvarpsseríu sem nefnist Litahvörf og eru 14 stuttar heimildamyndir um listamenn. Þær voru sýndar á RÚV árið 2007 og hægt er að skoða í dag á youtube.com með því að skrifa LITHVÖRF í leitarstreng. Úr því efni vann ég síðan 52. mínútna langa heimildamynd um Birgi Andrésson myndlistarmann sem nefnist Næsti hálftími verður þrjú korter og var sýnd á RÚV 2010.”

Kókómjólkurkötturinn Klói

Af þekktum auglýsingum má nefna að Jón Axel hannaði kókómjólkurköttinn Klóa og teiknaði tug sjónvarpsauglýsinga með honum. Fyrsta auglýsingin kom 1991 en tíu árum seinna kom upp hugmynd um að vinna Klóa í þrívídd, sem var farin að ryðja sér til rúms í auglýsingagerð. „Ég var á móti því þar sem ég taldi að Klói væri tvívíð teiknimyndapersóna, en þetta var sótt fast og endaði með að ég „seldi conseptið“.

Afi minn stofnaði Ljósmyndarafélagið

„Ég hef alltaf teiknað, skrifað, tekið ljósmyndir og síðar kvikmyndir“ segir Jón Axel. Hann á ekki langt að sækja næmt auga fyrir myndum því móðurafi hans var Jón J. Dahlmann ljósmyndari (1873-1949). „Hann var einn af stofnendum Ljósmyndarafélags Íslands og fjörutíu árum síðar var ég einn af stofnendum Félags kvikmyndagerðarmanna. Ég er að hugsa um að setja saman bók með æviágripum hans, greinum og ljósmyndum, fara á sömu staðina, taka myndir og sýna hvernig þessir staðir líta út í dag. Ég verð 75 ára á næsta ári og hann var 75 ára þegar hann lést.“

Varð seint læs en á einni nóttu  

„Afi átti Laugaveg 46 og var með ljósmyndastofu í risinu og tímapantanir á jarðhæðinni. Nú hefur húsið verið gert upp og ég er mjög ánægður með það. Afi tók heilu seríurnar af ljósmyndum af mér, en ég sá um að koma megninu af glerplötunum hans (negatífunum) til Þjóðminjasafnsins á sínum tíma. Afi missti Ingibjörgu ömmu mína 1940 og skömmu síðar seldi hann allt og flutti á Seljaveginn rétt hjá foreldrum mínum á Holtsgötunni. Móðir mín var yngsta dóttir hans og hann kom í mat til okkar. Ég varð seint læs en það gerðist eiginlega á einni nóttu. Ég hafði hugsað töluvert um það hvort afi hafi kennt mér að lesa. Ég var fimm ára þegar hann féll frá og seinna spurði ég móðursystur mína hvort þetta gæti staðist. Hún taldi það alls ekki ólíklegt og að eftir fráfall hans hafi ekki verið hugsað meira um strákinn að þessu leyti. Um jólin fékk ég bók að gjöf. Ég las hana alla á jólanóttinni og reyndist þá læs þegar til kom. Þarna hefur trúlega vaknað til lífsins lestrarkunnátta sem ég hafði náð að tileinka mér en legið niðri frá því afi féll frá. Hann var fæddur 1873 og hafði verið í Hólaskóla. Trúlega hefur lestrarkennsla hans verið með öðrum hætti en Gagn og gaman kennaranna í Melaskólanum.”

Á 50 árganga af Andrési á dönsku

„Ég átti fimm systur sem allar voru í Landakoti, en var sendur í Melaskólann þegar ég var átta ára. Ég gekk með gleraugu og það þótti ekki fínt og ég var því hálf út undan í skólanum. Ég átti danskan vin sem bjó í húsi við Kaplaskjólsveg og þar var loftvarnarbyrgi þar sem við lékum okkur. Ég bjó á Hringbrautinni og við urðum samferða í gegnum Kamp Knox í Melaskólann. Hann kynnti mig fyrir Andrési Önd sem elsta systir mín keypti svo handa mér og þannig var ég farinn að lesa dönsku löngu áður en ég kunni að bera hana fram. Ég á 50 árganga af Andrési á dönsku sem ég þarf að koma í verð.“

Á skautum á Haugatjörninni

„Ég er fæddur og uppalinn í Vesturbænum. Við krakkarnir fórum á skauta á Haugatjörninni eins og hún var kölluð. Víða stóðu strá upp úr ísnum og því þurfti maður að gæta sín. Tjörnin var í mýrinni rétt hjá ruslahaugunum, sem teygðu sig út í sjó á móts við Suðurströndina, en strandlengjan frá haugunum að Selsvör var undirlögð af rusli áður en hún var hreinsuð. Pétur Hoffmann, grásleppukarl, bjó í kofa á bakkanum við Selsvörina og er einn af þessum gömlu köllum sem alltaf var gaman að heimsækja og spjalla við. Hann gramsaði mikið á haugunum og fann þar ýmsa dýrgripi. Eitt sinn stríddu eldri strákarnir Pétri og það fór eitthvað í taugarnar á mér og ég lét eitthvað fjúka. Þá tóku þeir mig, skelltu mér á fjöl og létu mig rúlla út í sjó á mjórri dráttarbraut sem Pétur notaði til að sjósetja bátinn. Hann dró mig upp úr sjónum og ég fór rassblautur heim.“

Keyptum sömu íbúðina tvisvar

„Ég vann í tölvudeild ÍSAL og við byggðum raðhús í Norðurbænum í Hafnarfirði með byggingafélagi starfsmanna ÍSAL. Við hjónin og eldri sonurinn, Davíð Þór, unnum öll í Reykjavík og ákváðum að selja og flytja í bæinn. Yngri sonurinn, Daníel Freyr, var sáttur við það því það gaf honum tækifæri á að komast í MR sem hann og gerði og stóð sig með prýði.  Síðar fluttum við á Seltjarnarnesið. Við festum kaup á íbúð á fjórðu hæð við Tjarnarbólið og höfðum því gott útsýni yfir mýrina annars vegar og til Bessastaða og Keili hins vegar. Þá var engin byggð risin í mýrinni. Þegar ég vann að myndinni um Djáknann á Myrká fékk verkefnið styrk frá Sænska sjónvarpinu. Á sama tíma féll sænska krónan um allt að 6% og ég skuldaði Dauka og fleirum fyrir vinnu. Við urðum því að selja og höfðum makaskipti við ung hjón á Melabraut á Nesinu. Þar bjuggum við á jarðhæð í sjö ár og sáum alltaf eftir Tjarnarbólinu og útsýninu. Síðan gerist hið óvænta að við sjáum íbúðina auglýsta til sölu. Við fórum á sunnudegi að skoða og fólkið sem keypti af okkur bjó þar enn. Á mánudagsmorgninum náðum við í fasteignasalann sem hringdi svo síðdegis og sagðist vera með ungt par sem vildi skoða íbúðina okkar á Melabrautinni. Samningar tókust á alla kanta og á fimmtudeginum vorum við búinn að kaupa Tjarnarbólið aftur.“

Förum ekki af Seltjarnarnesinu

„Nei – við förum ekki af Seltjarnarnesi,“ segir Jón Axel ábúðarfullur þegar hann er beðinn að skyggnast inn í framtíðina. “Útsýnið er mjög fallegt. Fyrsta desember fórum við hjónin niður á Austurvöll til að mótmæla talsmáta sexmenninganna. Það var fremur kalt þennan dag og þegar við komum heim settumst við í eldhúskrókinn og fengum okkur heitt og sterkt kaffi til að taka kuldahroll úr okkur. Við litum út um gluggann og horfðum á þá fallegu náttúrumynd sem við okkur blasti. Það gerist ekki betra.“ 

You may also like...