Frábær árangur í forvarnarstarfi
— en minna aðhald foreldra og aukin áfengisneysla unglinga helst í hendur–
„Við höfum náð frábærum árangri í forvarnarstarfi á undanförnum árum og áratugum. Árið 1996 var stofnaður samráðshópur um forvarnir á Seltjarnarnesi, sem starfar enn í dag og hittist reglulega. Fulltrúar grunnskóla, frístundamiðstöðvar, íþróttafélags, foreldrafélags, tónlistarskóla, kirkju, félagsþjónustu og bæjarstjórnar eru í þessum hópi ásamt lögreglu svæðisins. Markmið hópsins er að skapa börnum og ungmennum umhverfi sem styður við heilbrigðan lífsstíll. Einn lykilþáttur í góðum árangri er aukin samvera barna og ungmenna með foreldrum sínum. Nú bregður svo við að dregið hefur úr aðhaldi foreldra og við sjáum aukningu í áfengisneyslu unglinga og annarri áhættuhegðun“ segir Margrét Sigurðardóttir æskulýðs- og tómstundafulltrúi Seltjarnarnesbæjar.
Nýjustu niðurstöður úr mælingum Rannsókna & greiningar á lýðheilsu ungmenna á Seltjarnarnesi voru kynntar á fundi í félagsheimilinu á dögunum. „Foreldrum barna og unglinga í 7.-10. bekk í Valhúsaskóla var boðið til fundarins, ásamt kennurum skólans og fulltrúum í samráðshópi um forvarnir. Því miður voru allt of fáir foreldrar sem sáu sér fært að mæta, sem er slæmt þar sem við erum að sjá þróun sem vekur áhyggjur okkar sem til þekkja“ segir Margrét.
Á eftirfarandi myndum má sjá að hlutfall nemenda í 8. og 9. bekk á Seltjarnarnesi sem hafa einhvern tíma um ævina drukkið áfengi hefur aukist verulega á undanförnum þremur árum.
Á sama tíma og hlutfall nemenda á unglingastigi sem neytt hefur áfengis eða notað hafa kannabisefni hefur aukist, hefur dregið umtalsvert úr samveru foreldra og barna á umræddum aldri.
„Foreldraröltið hefur nú verið endurvakið eftir þriggja ára hlé, en það er bæði gleðilegt og mikilvægt því röltið er sterkur hlekkur í forvarnarkeðjunni. Það er nauðsynlegt að foreldrar tali saman, þekki vini barna sinna og foreldra þeirra og sammælist um að halda löggiltum útivistartíma“ segir Margrét.
„Að tala um átján ára ábyrgð er ekkert grín. Það hefur sýnt sig að því seinna sem ungmenni prófar áfengi eða aðra vímugjafa, þeim mun ólíklegra er að það lendi í vanda síðar á lífsleiðinni. Við höfum skilað af okkur unglingum út úr grunnskólanum í áraraðir sem ekki hafa bragðað áfengi eða prófað að reykja. Því miður hefur verið allt of algengt að þetta breytist á fyrsta ári í framhaldsskóla, en nú bregður svo við að ýmislegt gott er að gerast í forvörnum hjá framhaldsskólunum. Helsta breytingin er að foreldrar eru nú virkir í nýstofnuðum foreldra-félögum framhaldsskólanna og innan framhaldsskólanna starfa í dag félagsmála- og forvarnafulltrúar.
Rafrettur söluvara og börn að reykja
Á fundinum með fulltrúa Rannsókna & greiningar kom fram að rafréttur eru tiltölulega nýtt lyf á markaði, framleitt er til að hjálpa reykingafólki að hætta að reykja. Nú er svo komið hér á landi að rafrettur eru söluvara í sérverslunum og börn allt niður i 11 ára eru að prófa „að veipa“. Er það miður þar sem að gríðalega góður árangur hefur náðst í forvörnum gegn reykingum á Íslandi. Áhrif rafretta á heilsu hafa lítið verið rannsökuð en þó er vitað að lungum er hvorki æltað að vinna úr olíu né bragefnum sem er í vökva rafrettna. Rannsóknir sýna að „veip“ barna eykur áhættu á annari neyslu. Áfyllingarvökvi rafrettna er af ýmsum gerðum og hægt er að fá hann með „nammibragði“, en svo eru líka verið að selja kanabis (hass og maríujana) vökva til veip- reykinga. Þann 1. mars 2019 tóku gildi lög um rafréttur og áfyllingar sem banna að selja eða afhenda einstaklingum yngri en 18 ára áfyllingar. Vonandi verða lög þessi til að veip-reykingar nái ekki fótfestu meðal barna og unglinga á Íslandi.
Niðurstöður mælinga á lýðheilsu ungmenna á Seltjarnarnesi má sjá í heild sinni á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar: http://www.seltjarnarnes.is/media/felagsthjonustusvid/Seltjarnes_2018_-Loka.pdf