Að verða vitni að ofbeldi en tilkynna ekki er saknæmt
Seinni part vetrar hafa slagsmál og gróft líkamlegt ofbeldi meðal unglinga verið áberandi á höfuðborgarsvæðinu. Tveir unglingar mæla sér gjarnan mót á tilteknum stað og tíma til að gera út um ágreiningsmál með slagsmálum einn á móti einum. Síðan er sent út boð á netmiðlum um að viðkomandi uppgjör sé í vændum og hvatt til þess að unglingar mæti til að verða vitni að uppgjörinu. Endirinn er oft sá að annar aðilinn verður undir, hópur einstaklinga gengur í skrokk á honum þar sem hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og áhorfendur fylgjast með án aðgerða.
Ofbeldið er oft stórhættulegt og getur valdið varanlegum skaða á líkama og sál bæði þolenda og gerenda. Um leið og upp kemst um verknaði sem þessa taka fagaðilar s.s. lögreglan, starfsfólk skólanna og velferðarþjónustunnar á málum með viðeigandi hætti. Of oft líður þó allt of langur tími frá því að vitað er um ofbeldisverk þar til hægt er að taka á þeim. Ástæðan er einföld, unglingar sem vita af atburðinum fyrirfram eða verða vitni að honum segja ekki frá eða tilkynna ekki til lögreglu.
Þurfa að ræða þetta heima
Að verða vitni að eða vita af ólöglegu ofbeldisverki og tilkynna það ekki til lögreglu eða yfirvalda er bæði ábyrgðarlaust og saknæmt. Það er vert fyrir unglingana að íhuga hvaða ábyrgð þeir bera með aðgerðaleysi sínu þegar þeir horfa upp á félaga sína misþyrma einhverjum þannig að líkamleg eða sálræn örorka, eða jafnvel dauði hlýst af. Gast þú sem vitni komið í veg fyrir slíkt? Það varðar við lög að tilkynna ekki slík tilfelli. Unglingar og foreldrar þeirra eru beðnir að ræða þessi mál heima fyrir og fara að lögum.
Þráinn Hafsteinsson
Verkefnastjóri frístunda og félagsauðs
Þjónustumiðstöð Breiðholts