Við Árskóga í Mjódd byggir Búseti 72 íbúðir í heppilegri stærð fyrir unga sem aldna
Búseti stendur að byggingu glæsilegra fjölbýlishúsa við Árskóga 5 og 7 í Mjóddinni í Reykjavík þar sem félagið reisir tvö fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 72 íbúðum. Um er að ræða 32 þriggja herbergja íbúðir, 14 tveggja herbergja og 26 stúdíóíbúðir sem verða afhentar vorið 2021.
Að sögn Ágústu Guðmundsdóttur sölu- og markaðsstjóra Búseta er hægt að sækja um íbúðirnar á vef Búseta til 4. október næstkomandi. Hægt er að sækja um fleiri en eina íbúð og er þá hægt að raða íbúðum í röð eftir ósk kaupenda. Við úthlutun ræður félagsnúmerið röð umsækjenda ef fleiri en einn sækir um sömu íbúð.
Mikill áhugi hjá fólki sem hefur hug á að minnka við sig
„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá á íbúðunum hjá þeim sem eldri eru, nú þegar hafa tæplega 200 manns skráð sig á kynningarsíðu verkefnisins arskogar.buseti.is. Í Árskógum lögðum við sérstaka áherslu á að byggja íbúðir sem henta bæði fyrstu kaupendum og þeim sem vilja minnka við sig“ segir Ágústa. Við hönnun var lagt upp með að ná góðri nýtingu á rými um leið og þörfinni fyrir heppilega stærð íbúða var mætt og íbúðirnar þykja sérstaklega vel skipulagðar. Á jarðhæð er rúmgóður samkomusalur sem allir íbúar hafa aðgang að. Einnig er mikið lagt upp úr góðri aðstöðu fyrir hjólafólk, meira að segja m.t.t. til hjólaviðgerða og hleðslu á rafmagnshjólum.
Vel staðsettar íbúðir
„Byggingarverkefnið er skemmtilega staðsett nálægt fjölbreyttri flóru hvað varðar verslun og þjónustu. Húsin eru staðsett skammt frá Þjónustumiðstöð Breiðholts þar sem er að finna fjölbreytta þjónustu fyrir eldri borgara og nýja íþróttamiðstöð ÍR. Í næsta nágrenni eru grunnskólar, leikskólar og samgöngumiðstöð þar sem Borgarlínan mun liggja. Fallegi Elliðaárdalurinn er í göngufjarlægð,“ segir Ágústa í samtali við Breiðholtsblaðið.
Langtímahugsun og vel ígrunduð hönnun
Hönnun húsanna í Árskógum var í höndum A2F arkitekta og samræmast áherslur verkefnisins viðmiðum um algilda hönnun. Bæði húsin hafa að geyma lyftu og hindranalaust aðgengi að svölum og sérafnotareitum. Bílastæði í sameiginlegum bílakjallara fylgja hluta íbúðanna og þar eru möguleikar á tengingum fyrir rafhleðslu bifreiða. Teiknistofan Storð sá um hönnun lóðar sem felur m.a. í sér skjólgóða og vistlega garða við húsin. Innréttingar íbúðanna eru af vandaðri gerð frá GKS og eldhústækin frá AEG. Langtímahugsun er samofin menningu og starfsemi Búseta. Þessar byggingar eru í samræmi við stefnu Búseta um vel hannaðar og vandaðar íbúðir þar sem lögð er áhersla á góða líðan íbúa,“ segir Ágústa að lokum.