Erfið uppbygging og ýmis fjörbrot
– Stærsti verslunarkjarni í Breiðholti –
Verslunarmiðstöðin í Mjódd er stærsti verslunarkjarni Breiðholtsins. Í Verslunarmiðstöðinni í Mjódd eru um 70 fyrirtæki og sum hafa verið þar frá upphafi en önnur skemur. Þótt Mjóddin standi utan hinna eiginlegu íbúðahverfa var hún hugsuð sem aðal versluna- og þjónustumiðbær fyrir Breiðholt. Mjóddin er upphaflega örnefni á mótum Breiðholtsmýrar og Breiðholts og náði niður undir Blesugróf. Um Mjóddina lá leiðin úr Reykjavík að Breiðholtsbænum.
Í 23 þúsund íbúa byggð var talið að bygging verslanamiðstöðvar gæti staðið undir sér rekstrarlega og veitt nýlega byggðu Breiðholti margvíslega þjónustu. Þótt staðsetning hennar hafi verið ákveðin gekk uppbyggingin ekki þrautalaust fyrir sig. Á þessum tíma var KRON og Samband íslenskra samvinnufélaga stórir aðilar á matvörumarkaði. KRON var þá orðinn eignaraðili að Miklagarði verslanamiðstöðvar við Sund og hugðu forráðamenn þess á frekari landvinninga. Hagkaup var aðalkeppinautur KRON. Með byggingu Kringlunnar hafði Hagkaup náð yfirburðastöðu yfir aðra keppinauta. Í Mjóddinni var talin möguleiki til að ná fótfestu í smásöluverslun í Reykjavík. Gallinn var hins vegar sá að með uppbyggingu í Mjóddinni á vegum KRON var félagið komið með tvær hliðstæðar verslunareiningar með tvöfaldri yfirstjórn. Á þessum tíma var farið að halla undan fæti hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Gagnrýnisraddir á þeim tíma létu í ljósi að með uppbyggingu Mjóddarinnar væri KRON að skemmta skrattanum með samkeppni við sjálft sig. Vegna eignaraðildarinnar að Miklagarði hafi Kaupstaður í Mjódd verið röng ákvörðun forráðamanna KRON. Bent var á að ákveðið skipulagsleysi væri ríkjandi í verslunarrekstri þess og af þeirri ástæðu verið anað út í þetta. KRON rak um tíma stóra matvöruverslun í Mjódd þar sem NETTÓ verslunin er í dag og vöruhús á annarri hæð yfir matvöruversluninni þar sem læknastofur eru nú til húsa. Svo fór að KRON hvarf af sjónarsviðinu bæði í Mjóddinni og í Miklagarði og síðan endanlega í heim fortíðarinnar.
Umferðarvandræði við Mjóddina
Í desember 1989 fjallaði Kíwanisblaðið Vífill í Breiðholti um Mjóddina. Umferðarmál í kringum hana voru ekki undan skilin. Þar segir meðal annars að atvinnurekstur í Mjóddinni hafi átt erfitt uppdráttar. Stafi það bæði af því hversu uppbyggingin hafi gengið hægt fyrir sig en einnig að skipulag umferðarmála væri ekki í neinu samræmi við þarfir viðskipta- og þjónustumiðstöðvar. Verslunarstjóri sem þá starfaði í Mjóddinni hafði á orði að rekja mætti stór gjaldþrot sem orðið hafi á svæðinu til umferðarmála. Í júní 1987 var borgarverkfræðingi og umferða- og skipulagsnefnd send krafa um að leyfð yrði vinstri beygja af Reykjanesbraut inn á Álfabakka sem hafði verið lokað. Þá endaði Reykjanesbrautin við Breiðholtsbraut. Hafði ekki verið byggð lengra og þjónaði því aðeins Breiðholtinu en tengdi ekki Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð saman eins og hún gerir í dag. Í desember sama ár ítrekaði Landsbankinn sem var og er með stórt útibú í Mjóddinni sömu kröfu. Á þeim tíma þurfti nær öll umferð inn í Mjóddina að fara inn á Stekkjarbakka framhjá bílalúgusjoppu sem hét Staldrið. Sumir viðmælendur í Mjóddinni á þeim tíma vildu meina að borgaryfirvöld notuðu umferðarmál til að hygla rekstraraðila Staldursins umfram verslunarmiðstöðina.
Fyrirtæki komu og fóru
Verslanir og önnur þjónustufyrirtæki hafa komið og farið í Mjóddinni eins og víðast annars staðar. Nokkur bankaútibú voru þar um tíma en nú er aðeins Landsbankinn með útibú en það var hann sem reið á vaðið með atvinnustarfsemi í Mjóddinni og byggt var stórt hús yfir bankastarfsemina. SPRON var um tíma með útibú í göngugötunni en eftir að því var lokað kom upp sú staða að opna spilasal á vegum Háspennu í því húsnæði. Þær hugmyndir fengu mikinn mótbyr og beitti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri sér gegn því að salurinn yrði opnaður. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða Vínbúðin var um tíma í göngugötunni í Mjódd en var skyndilega flutt þaðan yfir í húsnæði Garðheima án nokkurra skýringa. Apótek hafa lengi starfað í Mjóddinni og eru tvö apótek hlið við hlið í göngugötunni. Síðan má nefna að hjálparstofnanir hafa staðsett sig þar. Fataverslun Rauða krossins er við austurenda göngugötunnar og gegnt henni er félagsmiðstöð Hjálpræðishersins.
Samgöngumiðstöð í Mjódd
Saga almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu nær aftur til ársins 1931. Fyrstu árin var reksturinn á höndum hlutafélags en árið 1944 keyptu bæjaryfirvöld í Reykjavík reksturinn. Strætó bs. var síðan stofnað en það er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustustöðvar Strætó eru í dag við Hlemm og í Mjódd. Báðar stöðvar gegna mikilvægu hlutverki innan leiðakerfið Strætó. Um Mjódd fer mikill fjöldi fólks daglega og í dag er Mjóddin miðstöð landsbyggðarstrætó og gert er ráð fyrir að þar verði ein af aðalstöðvum borgarlínunnar.
Miðstöð heilbrigðisþjónustu
Með tímanum hefur Mjóddin orðið miðstöð heilbrigðisþjónustu. Þar er heilsugæslustöð, læknastofur, tannlæknastofur og sjúkraþjálfarar að störfum. Þessar þjónustueiningar gera það að verkum að umferð um Mjódd er frekar stöðug yfir daginn. Auk þess eru margir notendur sem koma víða að og ekki aðeins úr Breiðholti og nálægum hverfum heldur líka úr öðrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Eins og gefur að skilja er samt sem áður mesta umferð fólks um svæðið síðdegis þegar fólk fer í matvöruverslanir og sækir sér aðra álíka þjónustu. Sölubásar eru staðsettir í yfirbyggðu göngugötunni. Þá er hægt að leigja til lengri eða skemmri tíma til að kynna og selja vörur líkt og handverk og vörur beint frá býli. Básarnir eru ekki vel nýttir en veruleg eftirspurn er eftir þeim í kringum jólahátíðina og stundum á föstudögum Á öðrum tímum standa þeir oftast auðir.
Ekki önnur stór matvöruverslun í Mjóddina
Ekki er tekið sérstaklega til Mjóddarinnar í drögum að nýju hverfaskipulagi sem nú er verið að kynna í Breiðholti. Staða verslunarmiðstöðvarinnar verður áfram sú sama. Hún verður megin verslunar- og þjónustumiðstöð Breiðholts. Til lengri tíðar er gert ráð fyrir möguleikum til að byggja íbúðahverfi á Garðheimareitnum og hefur Garðheimum þegar verið veitt vilyrði fyrir lóð í Suðurmjódd. Núverandi stefna borgaryfirvalda er að ekki komi önnur stór matvöruverslun í Mjóddina heldur verði verslunarstarfsemi í hverfiskjörnunum efld. Þeir verði látnir dafna við hlið Mjóddarinnar eins og hugmyndin var þegar Breiðholtið var skipulagt. Þegar litið er yfir sviðið í dag virðist staða Mjóddarinnar góð. Margvíslega starfsemi er það að finna. Starfsemi sem styrkir hver aðra. Verslun og heilsu- og heilbrigðisþjónusta auk margs annars.