Umferðaröryggi á Nesinu
Nú þegar mesta skammdegið hefur gengið í garð langar okkur að biðla til bæjarbúa að gæta ítrasta öryggis og sýna tillitssemi í umferðinni. Þá ber sérstaklega að hafa í huga yngstu íbúana okkar sem eru á ferðinni á leið í og úr skóla og tómstundum í myrkrinu. Einnig viljum við minna á mikilvægi endurskinsmerkja á þessum dimmasta tíma ársins fyrir alla aldurshópa.
Nýverið hafa borist fregnir af því a.m.k. tvívegis að legið hafi við slysi á börnum á stöðum sem öllu jafna ættu að teljast öruggir gangandi vegfarendum. Annars vegar á gatnamótum Suðurstrandar og Nesvegar þar sem eru gönguljós og blikkandi aðvörunarljós sem varar ökumenn við þegar gönguljós er grænt. Hins vegar við gangbraut á Lindarbraut til móts við Hofgarða þar sem strætisvagn hafði stöðvað og ungur vegfarandi gekk yfir gangbrautina á sama tíma og ökumaður bifreiðar tekur fram úr vagninum og stefnir yfir gangbrautina.
Það er ljóst að enginn vill verða valdur að slysi, og sem betur fer hlaust ekki líkamstjón af í þessum tilvikum þótt hurð hafi skollið nærri hælum. Þessi atvik eru okkur mikilvæg áminning um að hafa ávallt varann á í umferðinni og að aldrei er of varlega farið. Alls staðar á Nesinu má búast við gangandi vegfarendum sem eru á leið á milli hverfa.
Í þessu sambandi er rétt að minna á að á heimasíðu grunnskólans er að finna leiðbeiningar um bestu gönguleiðir í skólann þar sem þvera þarf umferðaræðar ásamt korti sem sýnir hvernig best er að fara í gegnum íbúðahverfi þar sem minni umferð er og hægari, frekar en að fylgja stofnbrautunum þar sem bæði umferð og umferðarhraði er meiri. Einnig er gott að brýna fyrir börnunum að nýta gönguljós þar sem þau eru í boði, sjá meðfylgjandi mynd og á
http://grunnskoli.seltjarnarnes.is/media/grunnskolinn/myndir-09-myro/gongukormyro.pdf:
Bærinn hefur lagt kapp á að gera sem besta aðkomu þar sem hægt er að hleypa börnum úr bílum þegar þeim er ekið í skólann. Annars vegar er hringakstur við Nesveg þar sem hægt er að taka hring inn á svokallað sleppistæði. Þar eru bifreiðastöður bannaðar á skólatíma en hægt er að stoppa stutta stund til að hleypa börnum út án þess að keyra þurfi inn á svæði þar sem eru margir gangandi vegfarendur. Ekki er æskilegt að keyra inn á Hrólfskálamelinn til að hleypa börnum út því þar er gert ráð fyrir sorphirðu og annarri umferð íbúa og er því beint til foreldra að nota heldur sleppistæðið við Nesveg. Þá er hringtorg fyrir neðan inngang íþróttahússins þar sem hægt er að stoppa stutta stund og hleypa börnum út á gangstíg sem liggur að skólum, tónlistarskóla og að sjálfsögðu íþróttahúsi.
Öryggi gangandi vegfarenda verður einnig bætt með því að merkja betur gangbrautir og bæta lýsingu við gangbrautir svo þær verði sýnilegri. Miklar endurbætur voru gerðar á bílaplaninu við Eiðistorg í sumar og gönguleiðir við og yfir planið gerðar öruggari og meira áberandi. Foreldrum skólabarna er bent á að beina þeim þó heldur sunnanmegin Nesvegar og inn í hverfið fremur en á bílaplanið á leið í og úr skóla. Þar stendur þó til að færa gönguljós yfir Nesveg við Eiðistorg nær Mýrunum svo ekki þurfi að þvera innkeyrslu inn á bílaplanið, í því skyni að gera gönguleiðina öruggari.
Einnig er á döfinni að skipta um ljósastýringarbúnað á gatnamótum Suðurstrandar og Nesvegar þannig að hægt sé að hafa ljósastillingu með þeim hætti að einvörðungu verði grænt á gangandi vegfarendur (og rautt á bílaumferð á meðan) svo gangandi geti öruggir þverað þessi stærstu gatnamót á Nesinu. Enn fremur var samþykkt á síðasta fundi skipulags- og umferðarnefndar að færa stoppistöðina á horni Lindarbrautar og Hofgarða norðar eftir Lindarbrautinni, milli Hofgarða og Bollagarða, til að bæta sjónlínur og öryggi vegfarenda að ráði samgönguverkfræðings. Þá er í skoðun að lækka umferðarhraða á einstaka götum bæjarins.
Með von um að við leggjumst öll á eitt um að gera Nesið öruggara fyrir vegfarendur.
Ragnhildur Jónsdóttir, formaður skipulags- og umferðarnefndar
Sigrún Edda Jónsdóttir, formaður skólanefndar