Félagsstarfið í Gerðubergi komið á fulla ferð
Félagsstarfið í Gerðubergi er komið á fulla ferð. Álfhildur Hallgrímsdóttir umsjónarmaður félagsstarfsins segir haustið vera einn skemmtilegasta tímann í félagsstarfinu. „Meðan blómin eru að fölna úti, þá lifnar allt við hjá okkur. Ekki þar fyrir, að félagsstarfið var merkilega vel sótt í sumar, enda mikið og fjölbreytt framboð af tómstundastarfi og afþreyingarefni á vegum borgarinnar. Þá var fólk líka minna á faraldsfæti en ella vegna veirunnar.“
Álfhildur segir dagskrána vera með hefðbundnu sniði. „Við verðum með opna handavinnustofu, bókband, prjónakaffi, bútasaum, myndlist, félagsvist, línudans, núvitund, gönguferðum og kóræfingum. Áhugavert námskeið í raddþjálfun og tjáningu er væntanlegt á dagskrá sem og ritlistarsmiðja, þar sem farið verður yfir liðinn tíma, skemmtilegir atburðir rifjaðir upp og skráðir niður með aðstoð leiðbeinenda. Óhætt er að segja að leiðbeinendur á þessum námskeiðum er þungavigtarfólk í sínu fagi.“ Álfhildur segir að námskeiðin séu gjaldfrjáls og þátttökuskráning standi nú yfir en því miður sé uppselt í væntanlega haustlitaferð á Þingvöll.
Kynning 7. október
„Við ætlum að hafa opið hús og kynna vetrarstafsemina þann 7. október og bjóða upp á kaffi og konfekt. Þá stefnum við á markaðsdag fyrir alls konar handverk og glingur, gamalt og nýtt, þann 25. nóvember. Þá verður nú handagangur í öskjunni. Öllum er velkomið að sækja um söluborð sér að kostnaðarlausu“.
Gróðurkassarnir skiluðu góðri uppskeru
Álfhildur segir það ánægjulegt að gróðurkassarnir, sem fólk í félagsstarfinu fær til afnota á vorin, séu að skila ágætri uppskeru. Hún nefnir líka hreyfingu fyrir eldri borgara. „Það er frábært tilboð í gangi hér í Breiðholti, sem ég vil gjarnan halda á lofti. ÍR er að bjóða eldri borgurum upp á opnar líkamsræktaræfingar tvisvar í viku undir leiðsögn þjálfara. Bara að mæta í fjölnotahús ÍR í Skógarselinu á mánudögum og fimmtudögum kl. 10:00“.
Spennandi á aðventunni
Aðspurð um aðventuna, hvað verði um að vera þá, segist Álfhildur eindregið panta annað viðtal þegar nær dregur desember. „Það er svo margt í spilunum sem verið er að athuga og plana, en ég lofa alla vega hinu sívinsæla jólabingói og jólaljósaferð um höfuðborgarsvæðið. Ég sé líka fyrir mér kósý samveru þar sem jólasúkkulaði verður drukkið með smákökum og randalínum og með tilheyrandi jólatónlist og fleira og fleira“. Að lokum hvetur Álfhildur sem flesta eldri borgara í Breiðholti til að líta við í Gerðubergi eftir hádegi fimmtudaginn 7. október til að kynna sér starfsemina og næla sér í vetrardagskrána. „Reyndar er félagsstarfið opið fimm daga vikunnar og við elskum að taka á móti fólki, nýjum, sem núverandi og fyrrverandi þátttakendum í félagsstarfinu. Þannig að allir eru alltaf velkomnir, bæði að koma og hringa. Síminn okkar er 411 2727 og 664 4011. Og þar sem við erum ekki að fara að tapa fyrir Covid, þá virðum við auðvitað áfram persónulegar sóttvarnir og allt það“.