Draumaskólinn er réttnefni
– segir Inga Björg Stefánsdóttir deildarstjóri í Fellaskóla –
Fellaskóli vinnur að verkefni undir heitinu Draumaskólinn. Markmiðið með því er að nemendum bjóðist framúrskarandi menntun, nái góðum árangri þannig að þeir geti látið drauma sína rætast. Leiðarljós í skólastarfinu eru mál og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf. Inga Björg Stefánsdóttir er deildarstjóri tónlistar og sköpunar í Fellaskóla. Inga Björg settist niður með Breiðholtsblaðinu á Cocina Rodríguez í Gerðubergi og ræddi nýja verkefnið.
Ég var ráðin sem deildarstjóri fyrir tveimur árum að leiða þetta nýja verkefni sem er mjög spennandi. Ekki síst fyrir mig sem hef starfað við tónlist meira og minna alla mína starfsævi. Ástæðan fyrir því hversu mikil áhersla er lögð á tónlist er einkum fjölbreytileiki nemenda. Meirihluti nemenda Fellaskóla er fjöltyngdur og eru þar töluð um 27 tungumál.
Finna þarf óhefðbundnari leiðir
Inga Björg segir að grunnurinn að draumaskólanum Fellaskóla liggi í þessari staðreynd. Finna þurfi fleiri og óhefðbundnari aðferðir til að ná til þessara barna. Þar kemur tónlistin og sköpun til sögunnar með sýnu alþjóðlega tungumáli. Tónar hljómi yfir landamæri og þjóðerni og nótur séu víðast hvar eins. Sömu sögu sé að segja af sköpun. Börn tjái sig með sköpun og skilji hvert annað í gegnum þá tjáningu.
Listagalleríið
Í fyrra leit t.d. skemmtilegt verkefni dagsins ljós í Fellaskóla þegar Listagalleríið Listafell var opnað með viðhöfn. Á sýningunni sem nú er í gangi sýna nemendur í fimmta til tíunda bekk verk sín úr skapandi smiðjum í skólanum. Inga Björg segir að með galleríinu hafi opnast nýjar leiðir fyrir sköpunargleðina. Greta Sigríður Guðmundsdóttir, myndmenntakennari við Fellaskóla var búin að vera með þessa hugmynd í langan tíma. Hugmyndin komst þó fyrst á framkvæmdastig þegar Inga Björg kom sem deildarstjóri við skólann. „Ég fékk svigrúm til að móta verkefnið og framkvæma en það er í raun hugarfóstur og samstarfsverkefni list- og verkgreinakennara; í textíl, hönnun, smíði, matreiðslu og myndmennt. List og verkgreinakennarar skólans sáu um uppsetningu sýningarnarinnar þar sem verk nemenda úr smiðjum eru til sýnis.
„Í gegnum allt starf í skólanum reynum við að halda í gleði og jákvæðni vegna þess að gott andrúmsloft hjálpar mikið þegar börn eru að aðlagast nýju umhverfi. Við notum leiklist og söng mikið í því sambandi. Þetta hjálpar krökkunum líka við að fást við hefðbundnara námsefni eins og til dæmis náttúrufræði. Mörg þeirra eru komin í allt aðra menningu og annað tungumál. Þau þurfa oft að leggja á sig til þess að átta sig á hlutunum og skilja þá. Þá skiptir gleðin miklu máli.“ Inga bendir á að árangurinn láti oft ekki standa á sér. Fellaskóli hafi til dæmis verið í öðru sæti í Skrekk í vetur.
Neðri hæðin að vera tónlistarskóli
Ýmislegt hefur breyst síðan Inga hóf störf og hefur til að mynda neðri hæðin í Fellaskóla breyst í tónlistarskóla. Stefnt er að því að sem flestir og helst allir nemendur fái tækifæri og tilsögn í að læra á hljóðfæri. Í þessu felist grundvallarbreyting á Fellaskóla þótt hann starfi áfram sem hefðbundinn grunnskóli. Með þessu er verið að mæta þörfum nemenda í hinu fjölþjóðlega umhverfi sem Reykjavík er að verða og árangurinn sé þegar farinn að koma fram.
Frá Seltjarnarnesi
Inga Björg er Seltirningur og starfaði þar í mörg ár að tónlistar- og kennslumálum. Hún er meðal annars menntuð messusópransöngkona og hefur komið fram í því hlutverki við ýmis tækifæri. En hvað kom til að Inga kaus að leita á nýjar slóðir. „Ég var búinn að starfa nokkuð lengi á Nesinu og eftir að ég lauk við mastersprófið fór ég að íhuga að breyta til. Ég fór að leita fyrir mér og að endingu varð Fellaskóli fyrir valinu. Ég fékk það hlutverk að stýra nýrri deild sem deildarstjóri tónlistar og sköpunar. Þarna fannst mér komið tækifæri sem ég gæti ekki hafnað enda hefur starfið reynst afskaplega ánægjulegt og fjölbreytt. Einnig er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að þróa nýjar aðferðir til að ná til nemanda. Margir þessara krakka eru ofurkakkar að mínum dómi og með þeim leynast ótrúlegir hæfileikar sem þarf að virkja með því að gefa þeim tækifæri og skapa með þeim skemmtileg viðfangsefni. Draumaskólinn er réttnefni.“