Borgarráð samþykkir þriðja áfanga Arnarnesvegar
– enn deilt um framkvæmdina og farið fram á nýtt umhverfismat –
Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulag þriðja áfanga Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf. Deiliskipulagið nær til hluta Arnarnesvegar frá mótum hans og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. Leggja á samfelldan stofnveg með tveimur akreinum í hvora átt á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Einnig á að reisa fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut. Hjólastígur á að vera frá Rjúpnavegi í Kópavogi og inn í Elliðaárdal.
Deiliskipulagið hefur verið umdeilt en það er tæplega 20 ára gamalt. Sósíalistaflokkurinn gagnrýnir það og segir að gera ætti nýtt deiliskipulag enda hafi forsendur breyst. Flokkur fólksins er einnig á móti deiliskipulaginu þar sem í Vatnsendahvarfi sé dýrmætt grænt svæði sem sé varpland margra farfuglategunda. Einnig sé svæðið vinsælt útivistarsvæði.
Íbúar hyggjast kæra
Íbúar á og í grennd við veghelgunarsvæði fyrirhugaðs Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf hyggjast kæra málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærendur eru nú orðnir um þrjátíu talsins. Samtökin höfðu áður lagt fram kæru vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en var henni þá vísað frá á þeim grundvelli að þau gætu ekki talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Þessi kæra er því undirrituð af mun fleiri íbúum sem búa nær framkvæmdasvæðinu, Hollvinasamtökum Elliðarárdals og svo Vinum Kópavogs. Í kærunni verður meginkrafan sú að framkvæmt verði nýtt umhverfismat, en í dag á að byggja framkvæmdirnar á umhverfismati sem framkvæmt var fyrir nítján árum. Einnig vilja kærendur að vegalagningin verði endurskoðuð þannig að vegurinn verði lagður að mestu leyti í gegnum stokk eða göng og gatnamótunum breytt, svo þetta verði ekki ljósastýrð gatnamót, sem munu ekki anna þeirri umferð sem fara muni um.
Skipulagsstofnun hefur lýst því yfir að hún telji sig ekki eiga rétt á því að kalla eftir nýju umhverfismati.