Vegleg 15 ára afmælishátíð pólska skólans
Pólski skólinn í Reykjavík hélt upp á 15 ára starfsafmæli sitt í íþróttahúsinu við Austurberg laugardaginn 27. maí sl. Um 800 manns mættu á afmælishátíðina sem var um leið útskrift nemenda. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og sendiherra Póllands á Íslandi fluttu ávörp og forsetinn afhenti svo nemendum útskriftarskýrteini sín og viðurkenningar til þeirra nemenda sem sköruðu fram úr í náminu.
Nemendur og kennarar fluttu ávörp, sungu, fluttu tónlist og sýndu listdans svo eitthvað sé nefnt. Að útskriftarathöfn lokinni var boðið upp á stóra afmælisköku og aðrar veitingar auk allskonar möguleika til leikja og skemmtana fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin og framkvæmd hátíðarinnar var til mikillar fyrirmyndar og vandað til verka í öllum þáttum. Pólski skólinn starfar yfir vetrartímann á laugardögum og nýtur aðstöðu til kennslunnar í Fellaskóla. Tilgangur skólans er að skapa börnum af pólskum uppruna tækifæri til að þjálfa og viðhalda móðurmáli sínu sem eykur um leið hæfni þeirra við að tileinka sér íslensku til nota í íslensku samfélagi. Á upphafsvetri skólans voru 60 nemendur í skólanum en sl. vetur voru þeir 250. Skólastjóri er Dominika Ktarzyna og aðstoðarskólastjóri Marta Wieczorek.