Rekstrinum ekki bjargað með niðurskurði Selsins
Rekstri Seltjarnarnesbæjar verður ekki bjargað með niðurskurði á fagstarfi Selsins en sú aðgerð mun hafa þung áhrif á félagsmiðstöð bæjarins og þá faglegu starfsemi sem ungmennum á Seltjarnarnesi hefur verið boðið upp á. Þetta segir m.a. í bókun Samfylkingarinnar á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Í bókuninni er bent á að nú í lok skólaárs hafi engin stefna eða framtíðarsýn verið lögð fram um starfsemi Selsins. Búið sé að loka félagsmiðstöðinni, nemendaráð skólans hafi haldið sinn síðasta fund og félagsmálafræðin hafi verið blásin af. Ekkert utanumhald eða stuðningur hafi verið við unglingahópinn í gegnum netið líkt og aðrar félagsmiðstöðvar stóðu fyrir í samkomubanninu. Þá hafi engin skapandi sumarstörf eða jafningjafræðsla verið ákveðin í sumar líkt og tíðkast hafi hingað til. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar skora í bókuninni á að auglýsa eftir 100% fagmanneskju sem geti stýrt starfi Selsins og byggt það upp að nýju. Þá segir að félagsmiðstöðvar hafa löngu sannað gildi sitt sem veigamikill þáttur í uppeldi og menntun unglinga á Íslandi en með samstilltu átaki félagsmiðstöðva, foreldra, skóla og íþróttafélaga hefur undraverður árangur náðst í forvarnarmálum á Íslandi.
Félags- og tómstundastarfi verið vel sinnt
Í bókun meirihluta Sjálfstæðismanna á sama fundi kemur fram að félags- og tómstundamiðstöð hafi verið sinnt með góðu starfi til margra ára á Seltjarnarnesi. Tilgangur frístundastarfs sé m.a. menntun, forvarnir og afþreying. Í bókuninni segir að öll þátttaka í skipulögðu frístundastarfi í umsjá fagfólks í öruggu umhverfi hafi mikið forvarnargildi. Því hafi það alltaf verið stefna meirihlutans að skapa vettvang fyrir börn og unglinga þar sem fram fara jákvæð samskipti og geta notið samveru við jafnaldra. Þá segir að sviðstjóri fjölskyldusviðs hafi lagt til að ráða aðila sem haldi utan um daglegan rekstur og faglegt frístundastarf hjá félagsmiðstöðinni. Ávallt hafi verið lögð áhersla á metnaðarfullt starf með áherslu á lýðræði og skipulagða dagskrá, sem innihaldi uppeldis- og menntunargildi.