Fellaskóli 50 ára

– mikið um dýrðir á afmælisdeginum –

Fyrsti árgangur sem útskrifaðist úr Fellaskóla kom færandi hendi og afhenti tónlistardeildinni veglega gjöf.

Líf og fjör var á vorhátíð Fella­skóla á fallegum degi þar sem hald­ið var sérstaklega upp á 50 ára afmæli skólans. Afmælishátíðin hófst á skrúðgöngu og að henni lokinni var skemmtidagskrá á sviði. Á lóð skólans var hoppukastali, veltibíll, útileikföng og svo var hægt að láta spá fyrir sér og andlitsmálarar skreyttu börn og fullorðna. Einnig var hægt að ganga um ganga skólans, skoða verk nemenda og gæða sér um leið á afmælisköku. Fyrsti árgangur sem útskrifaðist úr Fellaskóla kom færandi hendi og afhenti tónlistardeildinni veglega gjöf.

Mikið var um dýrðir í tilefni dagsins og veðrið lék við veislugesti sem létu sig ekki vanta í afmælisveisluna. Þarna mættust gamlir og núverandi starfsmenn og nemendur við skólann. Meðal þeirra sem mættu í afmælið var Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og fyrrverandi menntamálaráðherra og einnig fyrrverandi formaður nemendaráðs Fellaskóla. Hún var þar allan sinn grunnskólatíma og var meðal annars formaður nemendaráðs. Lilja telur skólagönguna hafa verið sér mikils virði og þar hafi hún mótast. Hún kveðst telja að ákveðið viðhorf hafi mótast og segir að þarna hafi hún lært að láta aðra ekki eiga of mikið inni hjá sér. 

Tónlistarátak í Fellaskóla

Fyrrverandi og núverandi nemendur sáu um tónlistina með aðstoð tónlistarleiðbeinenda sem annast tónlistarkennslu og sköpun í sérstöku átaki sem fer fram í skólanum.  Innan skólans er mikill áhugi á að leggja metnað í tónlistina og að Fellaskóli verði tónlistarmiðaður skóli. Meiri þörf er fyrir slíka starf­semi í Fellaskóla því minna er um það að krakkar í Fellunum séu skráðir í tónlistarskóla.

Dagur B. Eggertsson mætti í 50 ár afmælið.
Margt var til gamans gert á 50 ára afmæli Fellaskóla.
Margt var um manninn á afmælisdeginum.
Tónlist var áberandi á afmælisdaginn enda leggur skólinn sérstaka áherslu á tónlistarstarf.

You may also like...